Thursday, July 4, 2013

2500 ár af grískri hreintungustefnu

Ég er tungumálanörd og hef verið undanfarið að grúska í nútímagrísku. Saga þessa tungumáls er stórmerkileg og stórskrýtin og segir margt um ótrúlegan sögulegan mátt menningarlegs auðmagns og pólitíkur á tungumálið.

Forngríska eins og hún var skrifuð í Aþenu á 5. öld f. Kr. öðlaðist sitt mikla menningarlega vægi strax skömmu eftir sjálfa 5. öldina - kanón hinna "klassísku" grísku höfunda var þegar fullmyndað um Krists burð. Æskhýlos, Sófókles og Evrípídes voru þá strax þekktir sem merkilegustu leikritahöfundarnir, Hómer merkasta sagnaskáldið, Platon merkasti heimspekingurinn - og enn eru nákvæmlega þessir höfundar kenndir í heimsbókmenntakúrsum háskólanna og því haldið fram að lestur þeirra bæti mannsandann.

Sú merkilega galdratrú að lestur ákveðinna texta, sem 2000 ára gömul elíta ákvað að væru bestir í heimi, bæti sálina, er stúdía út af fyrir sig. En áhrif þess að frysta hið "fullkomna" tungumál við eina ákveðna öld á einum ákveðnum stað hafði mikil áhrif á hinn gríska menningarheim þar eftir. Allt skrifað tungumál miðaðist afturábak: Þeim mun fjærri hinu talaða máli sem hið skrifaða var, þeim mun fínna var það og meira til marks um háa samfélagsstöðu höfundar.

Úr þessu varð tungumálastefnan sem kallast Attíkismi (e. Atticism, gr. Attikismos), þ.e. "Attíkustefnan". Attíka er skaginn sem Aþena stendur á, en Attíkisminn snerist um upphafningu þarlendrar mállýsku forn-grískunnar; allir áttu að skrifa nákvæmlega eins og aþenskir fimmtu-aldar höfundar, sama hvar í gríska heiminum þeir voru. Á þessum tíma dreifðust grískumælandi menn út um alla Suður-Evrópu og Mið-Austurlönd, allt frá Júdeu til Svartahafs og frá Tyrklandi til Marseille - að skrif þeirra allra, sama hvar þeir voru, væru dæmd eingöngu útfrá því hve vel þau samræmdust útdauðri skagamállýsku í gamla landinu er merkilegt ástand.

Hið talaða mál þróaðist einnig undir þó nokkrum áhrifum frá menningarlegu auðmagni 5. aldar Aþenu. Grískan dreifðist svona víða með sigrum Alexanders Mikla; til að stjórna veldi hans þurfti einhverskonar miðlægt stofnanamál sem skyldi vera skiljanlegt þvert á mállýskur. Þetta mál (hin svokallaða koine-gríska) var einnig byggt á attískri grísku, og það tók á endanum yfir hið talaða mál í Grikklandi sjálfu. Ófínni bækur í fornöld (svo sem bækur Nýja testamentisins) voru skrifaðar á koine-grísku.

Koine þróaðist svo áfram í nútímagrísku yfir aldirnar, á meðan elítan rembdist við að skrifa stöðugt fjarlægari attísku sem þurfti stöðugt þyngra nám til að ná tökum á. Með falli Býzansveldisins liðu hinar gömlu menntastofnanir hinsvegar undir lok, og eftir stóð grískan eins og hún var töluð, þá allt að því ritmálslaus.

Síðar (á 19. öld) gerðu Grikkir, undir áhrifum frá hinni nýju rómantísku þjóðernisstefnu sem öllu tröllreið í Evrópu, byltingu gegn Ottómanaveldinu sem þá réði yfir Grikklandi. Byltingarmennirnir lögðu áherslu á gríska þjóðmenningu eins og hún var á þeim tíma og á dýrð Býzansveldisins - ekki Forn-Grikklands. Þeir unnu mikla sigra og stofnuðu höfuðborg, ekki í Aþenu, heldur í Navplío á Pelópsskaga, sem þá var stærsta borg Grikklands.

Þetta vildi hið Bæverska konungdæmi, sem studdi Grikki gegn Ottómönum, hinsvegar ekki sjá. Dýrð Grikklands lá fyrir þeim í Aþenu 5. aldar, engu öðru. Aþena var þá orðin að örlitlum bæ með flottum rústum og góðri geitabeit, en Bæverjar endurskipulögðu hana frá grunni, teiknuðu upp mikil evrópsk breiðstræti og konungshöll og gerðu þýskan prins að konungi Grikklands - Ottó I eins og hann kallaði sig. Það verður að teljast merkileg tegund af nostalgíu fyrir annarra hönd að hafna nútímanum og veruleikanum í Grikklandi þess tíma og hreinlega búa til nýja Aþenuborg, bara upp á menningarlega auðmagnið sem býr í staðarnafninu.

Tungumálið glímdi við svipaða togstreitu milli hins nútímalega og hins ævaforna. Þjóðernissinnar skiptust í tvo hópa, eftir því hvort taldist þjóðlegra: 1) Upphafning hinnar eldfornu dýrðar Grikklands og grískrar tungu, eða 2) upphafning Grikkja eins og þeir voru, með þeirri þjóðmenningu sem lifði og blómstraði enn. Menn sem studdu 1) vildu hreinsa tungumálið, tala hið svokallaða kaþarevúsa (hið hreinsandi mál) og gera það að opinberri tungu gríska ríkisins. Þá má kalla hreintungustefnumenn, en þeir sem studdu 2) vildu hefja mál hins venjulega gríska bónda upp, sem þeir kölluðu ðemotíkí (lýðmálið), og gefa því lögformlega stöðu og ritmál.

En báðir áttu í stökustu vandræðum með sín eigin sjónarmið. Kaþarevúsa er tilbúið tungumál. Það notar ýmsar málfræðilegar einfaldanir sem hafa þróast með nútímamálinu en hafnar öðrum, og hafnar sömuleiðis tökuorðum, og nær í staðinn í útdauð orð úr forn-grísku eða býr til nýyrði (hér eru ótvíræð líkindi við sögu íslenskunnar!) En ðemotíkí er að ákveðnu leiti líka tilbúið. Einn grískur bóndi talar ekki endilega eins og næsti gríski bóndi, en ríkismál þarf að vera eitt og algilt. Því þurfti menntaelítan sem studdi ðemotíkí að ákveða fyrir grísku bændurna hvað var alvöru lýðmál og hvað ekki, og fengu bændurnir sjálfir þar minnst um ráðið.

Einnig stóðu deilur um hvað taldist "alvöru" kaþarevúsa. Í talaðri nútímagrísku eru tvær neitanir (þ.e.a.s. orð sem þýða "ekki"), ðe sem er notuð með framsöguhætti, og sem er notuð með viðtengingar-og boðhætti. Aðeins seinni neitunin er til í forn-grísku. Því ákáðu hörðustu kaþarevúsa-pennar að það væri ekki við hæfi að setja á prent setningu sem var neitandi í framsöguhætti; setningin "Kostas vill ekki fisk" var óskrifanleg. Hinsvegar var hægt að segja "Kostas hefur litla löngun í fisk" eða "Það er skýrt, að Kostas vill ekki fisk" (sem er í vh. á grísku!) og aðrar slíkar málalengingar.

Þegar hin illræmda herforingjastjórn sem ríkti í Grikklandi frá 1967-74 bannaði ðemotíkí og gerði kaþarevúsa að ríkismálinu voru dagar hreintungustefnunnar hinsvegar taldir. Kaþarevúsa var endanlega orðið að tungumáli hins hrokafulla valds, tungumáli fasismans, og þegar herforingjarnir féllu frá völdum var ðemotíkí endanlega gert að ríkismáli.

Hinsvegar var það ekki fyrr en 1982 sem hætt var að skrifa ðemotíkí með fornu aksentunum - ákveðnum táknum fyrir ofan stafina sem táknuðu hvernig grískan var borin fram fyrir tvö þúsund og fimm hundruð árum, þegar hún var tónað mál. Ekkert þessara tákna hefur neina merkingu per se lengur, en Grikkir höfðu samt þráast við að skrifa þau allt frá Býzanstímanum. Og enn þann dag í dag koma íhaldssöm tímarit og bækur út, skrifaðar á dauðri hreintungu og prentaðar með óframbornum tónatáknum. Skugginn af Aþenu til ævaforna er enn ekki alveg horfinn.

Heimildir: Bakker, Egbert J. (ritstj.) A Companion to the Ancient Greek Language. Malden, MA : Wiley- Blackwell, 2010.
Moleas, Wendy. The Development of the Greek Language. Bristol Classical Press, 2004. 

3 comments:

  1. "Betra hefði verið að segja: Kostas hefur litla löngun í fisk."

    Molaskrifari þakkar ábendinguna.

    (Þetta er annars stórskemmtilegt dæmi, takk fyrir pistilinn.)

    ReplyDelete
  2. Annað dæmi um svona áhugaverð höft er talnakerfið í hebresku:

    Þegar stöfum er splæst saman eftir talnagildi þeirra er reglunni hliðrað á tveimur stöðum. Tölurnar 11-19 eru allar táknaðar með reglunni 10+1, 10+2 osfrv, nema 15 og 16, sem sett eru saman úr 9+6 og 9+7.

    Ástæðan er að "jod" (sem stendur fyrir 10) má ekki standa við hlið "he" (5) og "vav" (6). Þetta er gert til þess að stafarunan fari ekki að líkjast "ihvh" sem er heilagasta orð í heimi og má ekki einu sinni reyna að bera fram.

    Þetta er svipað og við myndum breyta stafrófinu í "a-b-c-d-f-e-g" til þess að orðið "ef" kæmi ekki fyrir og ylli okkur óþarfa vafa og hugarangri.

    ReplyDelete
    Replies
    1. Er þetta nokkuð eins með þessar grábölvuðu dönsku tölur, þarna halvfems og allt það? Móðgar talan "nítíu" kannski einhvernveginn dönsku drottningarmóðurina?

      Delete