![]() |
Tilgátuhúsið Þjóðhildarkirkja, Grænlandi. |
Við fyrstu útgáfu Íslenskra fornrita IV var, auk meginsögunnar Eyrbyggju, að finna þar þrjár „mismunandi“ sögur um landnám norræna manna á Grænlandi og Vínlandi, þær Eiríks sögu rauða, Grænlendinga sögu og Grænlendinga þátt. Ástæða þess að þeim var skellt í sömu bók og Eyrbyggja sögu er að fjölskyldurnar sem stóðu að þessu landnámi höfðu um tíma búið í Breiðafirði, sögusviði Eyrbyggju. Um þennan hluta útgáfunnar sá Matthías Þórðarson, en þegar Eyrbyggja var endurútgefin 1985, bætti Ólafur Halldórsson við fjórðu Grænlandssögunni, Eiríks sögur rauða eftir texta Skálholtsbókar.
Ég vona að þetta sé rétt upp talið hjá mér en þori ekki að ábyrgjast það, því þessar sögur rugluðu mig skelfilega í ríminu, auk þess sem ég las þær, eins og fyrr segir, í lok desember. Ég þurfti að vissu leyti að pína mig í gegnum þennan hluta bókarinnar, því stundum endurtekur einhver sagan nær orðrétt kafla úr sögunni á undan eða eftir, áður en hún skyndilega bregður út af og fer að fjalla um eitthvað allt annað. Ég hef ekki vanið mig á að nota bókamerki þegar ég legg bók frá mér, heldur finn alltaf staðinn sem ég var á út frá samhengi. Eins og gefur að skilja þá brást þessi aðferð mér algjörlega við lesturinn á Grænlendingasögum, og ég fletti oftsinnis fram og til baka í mikilli frústrasjón í tilraun til að finna rétta staðinn í réttu sögunni. Ég get því í raun ekki fullyrt að ég hafi lesið allar þessar sögur í réttri röð, þó ég hafi gert mitt besta.
Annað sem truflaði mig við lesturinn var að ég er, innst inni, alls ekki hrifin af svona „sameiginlegum sagnaheimi“ sem er unnið úr á mismunandi hátt. Það truflaði mig til dæmis meira en lítið þegar ég las Andrés Önd sem barn að byggðasaga Andabæjar var ekki alltaf eins, að Jóakim Aðalönd hafði að því er virtist átt svona fimm mismunandi æskuskeið, og að ættartré Andafjölskyldunnar gekk ekki upp, ættartengsl t.d. Andrésar Andar og Ömmu Andar voru síbreytileg. Ég hef því miður ekki losnað við þessa íhaldssemi og kassahugsun, og á erfitt með að lesa texta sem heldur sig ekki við eina útgáfu af „sannleikanum“. Svo reyni ég að lesa þessar Grænlands og Vínlands sögur sem áhugasamur og samviskusamur miðaldafræðingur, og þá geta þær bara ómögulega gefið sömu upplýsingar um það hverjir voru með í hvaða leiðangri, hvar þau komu að landi, hvernig landslagið var og hvað þau voru þar lengi. Og hvenær og með hvaða hætti fannst hinn frægi vínviður eiginlega? Svona skelfilega margir möguleikar á atburðarás valda mér heilakláða.
![]() |
Rostungur. Svipur hans ber vott um yfirvegun gagnvart flækjum norræns landnáms, sem höfund skortir. |