Wednesday, February 12, 2014

Eyrbyggja saga og hið kvenlega


Um jólin var ég svo lánsöm að fá að gjöf tvær bækur úr ritröðinni Íslenzk fornrit, nánar tiltekið Vatnsdæla sögu og Eyrbyggja sögu. Þó það styttist í að ég útskrifist með virðulega gráðu miðaldafræðings, þá hef ég engu að síður lesið vandræðalega lítið af íslenskum fornbókmenntum. Því hef ég hafið hægfara söfnun á Íslenzkum fornritum, og fjölskylda mín var svo elskuleg að leggja mér lið með þessum hætti. En þó að það sé kominn febrúar þá verð ég að viðurkenna að ég hef enn ekki lesið Vatnsdæla sögu. Því þó miðaldir heilli mig mikið, þá hefur þessi ágæta ritröð einfaldlega takmarkaða samkeppnishæfni við sænska fantasíuþríleikinn um Hringinn.

Því verð ég að láta mér nægja að lýsa lestrarupplifun minni af 4. bindi Íslenzkra fornrita, enn sem komið er. Auk sjálfrar Eyrbyggja sögu inniheldur bindið einnig þáttinn um Brand örva, Eiríks sögu rauða, Grænlendinga sögu og Grænlendinga þátt, sem ég hyggst fjalla um síðar. Eyrbyggja og Grænlandsefnið kom fyrst út árið 1957 í útgáfu Einars Ól. Sveinssonar og Matthíasar Þórðarsonar. Önnur útgáfa kom svo út 1985 með athugasemdinni „í þessari ljósprentuðu útgáfu hafa verið gerðar fáeinar lagfæringar“. Annarri útgáfu fylgir viðauki með Eiríks sögu rauða, en þar fyrir utan á ég erfitt með að ímynda mér að miklar breytingar hafi verið gerðar á bókinni, því það er ósvikull fifties-bragur á textanum. Og þar sem ég lá afvelta á jóladag, eftir að hafa innbyrt óheppilegt magn af brimsöltu hangikjöti, og þrælaði mér af samviskusemi gegnum formálann, þá vakti eftirfarandi fullyrðing athygli mína:

„Þó að sagan sé þannig fyrst og fremst „karlmannasaga“ (eins og norska skáldið Kinck kemst að orði), þá hefur hún þó fengið einn kafla með öðru efni, en það er þátturinn af ástum Bjarna og Þuríðar.“ (Bls. XL)

Ég varð blátt áfram snortin yfir því að hann Einar Ól. Sveinsson (og hið dularfulla norska skáld Kinck) hafi tekið eftir því árið 1957 að ritið sem hann var að gefa út væri karllægt. Ég myndi lýsa gervöllu Íslandi árið 1957 sem karllægu, ekki hvað síst háskólasamfélaginu, og því allt annað en sjálfsagt að Einar skuli hafa tekið eftir þessu einkenni. Í það minnsta vantar ýmislegt upp á að margir Íslendingar í dag velti þessu fyrir sér með bækur sem þeir lesa eða skrifa. En jæja, ég staldraði sumsé við þessa setningu. Og ef til vill hefði ég farið að undirbúa mig andlega undir einhverja svakalega bromance-sögu þar sem testósterónið flæddi yfir síðurnar, ef ekki hefði verið fyrir samhengi fullyrðingarinnar. Hún er í undirkaflanum Einkenni Eyrbyggju og þau „karlmannlegu“ einkenni sem lýst er á undan tilvitnuninni eru forn fræði og sagnfræðilegur hugsunarháttur, þjóðtrú og dularheimar, deilur, vígaferli og pólitík. Það sem taldist hins vegar ekki hluti af karlmannlega söguþræðinum eru svo fyrrnefndar ástir Bjarna og Þuríðar.

Einar Ól. Sveinsson, útgefandi og fræðimaður með meiru.
Mér þykir líklegt að þegar Einar Ól. Sveinsson talaði um karlmannasögu (vs. þá væntanlega kvenmannasögu) þá hafi hann í huganum verið að bera saman Íslendingasögur og riddarasögur. Þetta sést skýrar á samanburði hans á Eyrbyggju og Laxdælu (bls. LI), sem hann gaf einnig út, árið 1934. Laxdæla er fágætt dæmi um Íslendingasögu sem er undir miklum riddarasagnaáhrifum (skrautklæði, óhamingjusöm ást, o.s.frv.) en er þrátt fyrir það hátt skrifuð í menningararfi Íslendinga. Hún er einnig oft nefnd sem dæmi um bókmenntaverk þar sem kvenlegt sjónarhorn þykir vera til staðar. (Mér skilst að Helga Kress hafi tekið gagnrýna afstöðu á það, en hef ekki kynnt mér þau skrif).

Íslenskir fræðimenn á 20. öld voru almennt á þeirri skoðun að riddarasögur væru á einhvern hátt kvenlegar. Hvort það tengist því að þær þóttu einnig lélegar bókmenntir, jafnvel merki um menningarlega hrörnun vegna erlendra áhrifa, þori ég ekki að fullyrða um. Íslendingasögurnar þóttu aftur á móti karlmannlegar og þjóðlegar. Þær einkenndust af fáorðum glæsileika og lýstu heiftúðugum ættardeilum, en riddarasögur fjalla mjög margar um undanfaran að hjónabandi. Ég get hins vegar ekki tekið undið það að efnisval eða stíll geri söguþráð „karlmannlegan“ eða „kvenlegan“. Það er þó varla hægt að agnúast út í Einar og sjötta áratuginn, margar bókabúðir í dag notast til dæmis við þessa einfeldningslegu skiptingu í bókaútstillingum.

Að mínu mati þá eru allar miðaldabókmenntir karlasögur, af þeirri einföldu ástæðu að þær eru næstum allar skrifaðar af körlum, og þar á ofan körlum sem bjuggu í samfélagi þar sem konur og kvenleiki þóttu einfaldlega minna virði en þeir sjálfir.

Margar íslenskar riddarasögur eru til að mynda yfirmáta karlrembulegar, og jafnvel enn karlamiðaðri en Íslendingasögurnar. Þó vil ég benda á Nítída sögu, en uppi eru getgátur um að höfundur hennar hafi jafnvel verið kona. En langflestar riddarasögur einblína á karlmanninn, riddarann, hvað hann er glæsilegur og hvað hann á góða karlkyns vini. Svo fremur hann einhverjar listir fyrir framan andaktuga snótina, bjargar henni úr lífsháska og eignast svo alla peningana hennar þegar þau gifta sig. Mjög fáar riddarasögur myndu standast hið fræga Bechdel-próf, en það gerir „karlmannasagan“ Eyrbyggja hins vegar.

Því rétt eins og það er einföldun að flokka ástarmál sem eitthvað sem höfði til kvenna en ekki karla, þá eru sagnfræði, yfirnáttúrulegir atburðir og slagsmál ekki einhver séráhugamál karlmanna.  Eftir lestur Eyrbyggju fór ég satt best að segja að botna æ minna í þeirri flokkun efnisatriða sem var sett fram í formálanum. Sagan af ástum Þuríðar Barkardóttur og Björns Breiðvíkingakappa snerist nær eingöngu um afrek hans við að leika á bróður hennar og eiginmann, og hversu mikill bardagakappi hann hefði verið. Persóna Þuríðar var þar í algeru aukahlutverki. Hún á hins vegar mun stærri hlut að máli í hinum ógnvænlegu reimleikum, Fróðárundrum.

Því ef það er eitthvað í Eyrbyggju sem ég myndi kalla áberandi kvenmiðað, þá eru það frásagnir af yfirnáttúrulegum atburðum. Þar eru konur oftar en ekki í aðallhutverki, þó sýn höfundar á hlutdeild þeirra verði seint kölluð feminísk.

Þórólfur bægifótur gekk m.a. aftur sem nautið Glæsir, sem varð Ármanni Jakobssyni innblástur að skáldsögu sem kom út árið 2011. Þetta er óneitanlega með flottari myndum sem kemur upp þegar maður gúglar Eyrbyggju.
Fróðárundur eru eingöngu afleiðing af deilum tveggja kvenna, þeirra Þuríðar og Þórgunnu. Að sama skapi er illmennið og óvætturinn Þórólfur bægifótur, sem leggur heilu sveitirnar í eyði, magnaður upp af galdrakonunni Kötlu, sem lokahefnd hennar á dauðastundinni. Upphaf málaferlanna sem leiddu til aftöku hennar voru aftur á móti deilur hennar sjálfrar og Geirríðar Þórólfsdóttur, um athygli ungs og myndarlegs manns. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tekst karlmönnum í sögunni aldrei að hafa hendur í hári Kötlu, til þess þarf kunnáttu Geirríðar.

Ekki bara sameinar þessi örsöguþráður deilur og vígaferli, forneskjulegan fróðleik og yfirnáttúrulega atburði, heldur einnig ástarmál þar sem langanir kvenna eru í forgrunni. Svo hvers vegna þóttu bólferðir Björns Breiðvíkingakappa betra dæmi um kvenlegan kafla en deilur Geirríðar og Kötlu? Mögulega er það af því að sagan passar illa inn í formúlu rómantískrar ástar. Hvorki Geirríður né Katla er ung stúlka, þær voru nógu gamlar til að geta átt uppkomin börn og höfðu ákveðið sjálfræði. Kynferðislega aktívar konur, komnar af breytingarskeiði, voru kannski ekki eitthvað sem maður gerði að umræðuefni í fræðilegri útgáfu árið 1957?

Það geta þó ekki allir orðið Glæsir. Þessi mynd kemur líka upp þegar maður myndagúglar Eyrbyggju, ótrúlegt en satt.

No comments:

Post a Comment