Apollón var nú þrátt fyrir allt guð eilífrar æsku... |
Fréttamenn höfðu upp á tvemur Gazabúum sem sögðu misvísandi sögur af fundi styttunnar. Einn, Mounir að nafni, segist hafa fundið styttuna um nótt um miðjan september síðastliðinn. Hann hafi verið að veiða fisk nokkra metra frá ströndu og fest netið í styttunni. Fjölskylda hans hafi svo hjálpað honum að losa hana úr sandinum og koma henni í land. Hinn maðurinn heitir Jouda Ghurab og segist hafa fundið styttuna um miðjan dag í ágúst. Hann var á sundi um 100 metrum frá ströndu og sá glitta í styttuna í hafinu á 4-5 metra dýpi. Hann sömuleiðis lét fjölskyldu sína hjálpa sér að flytja styttuna á land. Samkvæmt Mounir heyrði Hamas fljótt af fundinum og gerði styttuna upptæka; Jouda segir hinsvegar að einhver hverfisherforingi hafi heyrt af fundvísi hans, tekið styttuna og sett á Ebay; þá hafi yfirstjórn Hamas komist í málið og tekið styttuna eignarhaldi.
En burtséð frá því hvernig styttan fannst þá eru uppi efasemdir um mikilvægi hennar. Í fyrsta lagi segja fornleifafræðingar að styttur sem komi upp úr söltum sjó eftir aldalanga dvöl líti alls ekki út eins og þessi; hún hafi væntanlega komið af landi og þá verið rænt úr fornleifauppgreftri. Miklar efasemdir eru uppi um að styttan sé raunverulega forn-grísk; líklegra er að hún sé síðhellenísk eða rómversk. Eða jafnvel úr nútímanum - hún sé fölsun. Sömuleiðis hafa fornleifafræðingar varað við því að hrapa að því að hún sé af Apollóni; öruggara sé bara að kalla hana "bakkaberann", því hún virðist hafa haldið á vínbakka. Hvað sem öllu því líður þá liggur styttan undir skemmdum; þegar maður skoðar myndirnar þá er hún með tvo inngreypta augasteina á sumum myndum en á öðrum hefur annar þeirra verið rifinn úr.
Nú veit maður ekki hver framtíð þessa máls verður - ríkisstjórnir hins vestræna heims viðurkenna náttúrulega ekki Hamas-stjórnina og eiga ekki nein samskipti við hana. Því verður væntanlega erfitt að koma upp nokkurs konar fræðilegri samvinnu til þess að sannreyna uppruna styttunnar. Ef styttan reynist raunverulega forn þá munu vestræn stjórnvöld ennfremur vilja flytja hana á þarlend söfn, en slíku arðráni hafa þau lengi sérhæft sig í. En hvað sem því líður, þá virðist enginn skortur vera þessa dagana á furðulegum uppgötvunum úr fornöldinni.
Fylgjast má með nýjustu fréttum af þessu furðumáli hér. Ég vara hinsvegar við fréttaflutningi hefðbundnu miðlanna; þeir virðast einfaldlega trúa máli þeirra Mounirs eða Jouda eftir því hvorn þeirra viðkomandi miðill hefur komist í samband við.
No comments:
Post a Comment