Friday, June 6, 2014

Föstudagslagið: Erfiður sunnudagur

Það væri synd að segja að föstudagslag dagsins sé hressandi - þvert á móti er það angistarfullt og átakanlegt. Gloomy Sunday er reyndar svo angistarfullt og átakanlegt að það hefur lent í öðru sæti á lista yfir dapurlegustu lög allra tíma og á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var bannað að spila það á BBC þar sem óttast var að það skaðaði stríðsmóralinn. Allt frá 4. áratugnum hafa gengið flökkusögur um lagið sem tengja það sjálfsvígum og það hefur verið kallað ungverska sjálfsmorðslagið.

Þessar sögur fengu væntanlega byr undir báða vængi þegar höfundur lagsins, píanistinn og tónskáldið Rezső Seress, framdi sjálfsmorð árið 1968. Seress var ungverskur gyðingur, fæddur árið 1899, og samdi lagið sem síðar varð þekktast sem Gloomy Sunday árið 1933. Lagið var hljóðritað í fyrsta skipti af ungverska söngvaranum Pál Kalmár árið 1935.


Mjög fljótlega var farið að hljóðrita lagið annars staðar. Argentínski söngvarinn Agustín Magaldi söng það árið 1936 með spænska titlinum Triste domingo.  Sama ár kom út japönsk útgáfa með söngkonunni Noriko Awaya, undir titlinum Kurai Nichiyōbi.


Tíu árum eftir að lagið kom fyrst út samdi Rezső Seress nýjan ungverskan texta við það, sem fjallaði ekki um glataða ást eins og sá fyrri heldur hina öllu víðtækari glötun heimsins. Þetta var árið 1946 og Seress hafði lifað af dvöl í fangabúðum nasista í stríðinu.

Lagið barst einnig til Finnlands. Þar var það meðal annars sungið af  Eilu Pellinen undir titlinum Surullinen sunnuntai árið 1959. Myndbandsins vegna verður hér þó birt útgáfa annars finnsks söngvara, Viktors Klimenko, einnig þekktur sem kósakkinn syngjandi. Hann syngur lagið með rússneskum texta, Ona pred ikonoi:


Serge Gainsbourg setti síðan sitt tælandi franska 80´s mark á lagið árið 1987:


Á ensku hefur lagið verið sungið sem Gloomy Sunday og undir þeim titli hefur það orðið þekktast. Í rauninni eru til merkilega margar góðar útgáfur af því og erfitt að velja úr sarpnum, þótt oft séu áherslurnar í flutningnum keimlíkar. Sinéad O´Connor og Elvis Costello eiga til dæmis prýðilegar útgáfur, en hér verða Portishead, Björk Guðmundsdóttir og Diamanda Galás fulltrúar ungu kynslóðarinnar:


Eins og Diamanda Galás tekur fram í kynningu sinni hefur enskri útgáfu lagsins oft verið breytt, væntanlega til þess að reyna að hífa það upp úr hinni alltumlykjandi bölsýni. Þá er nokkrum línum bætt við lagið - í kjölfar hins nístandi saknaðar sem lýst er í megintextanum er hækkað um tón og sungið: dreaming, I was only dreaming... Þetta var semsagt allt saman vondur draumur. Þetta er náttúrlega móðgun við vitsmuni og tilfinningalíf hlustandans og fer satt að segja frekar illa með gott lag.

En jafnvel þótt þessari viðbót sé einnig klínt aftan við frægustu útgáfu Gloomy Sunday, frá árinu 1941, er sannarlega engin meðalmennska í flutningi Billie Holiday:

No comments:

Post a Comment