Friday, June 13, 2014

Föstudagslög feðranna

Ýmsir tónlistarmenn hafa í gegnum tíðina fundið hjá sér hvöt til að ávarpa og þakka þeim sem hafa staðið þeim næst og alið þá upp: mömmu og pabba, ömmu og afa. Föstudagsfærsla dagsins er stútfull af slíkum tileinkunum.

Tvö ástsæl íslensk stykki koma strax upp í hugann. Það fyrra er Ó, pabbi minn, sem er íslenskur titill þýska söngleikjalagsins O mein papa frá 1939. Íslenski textinn er eftir Þorstein Sveinsson, en þess má til gamans geta að hann samdi líka texta við lagið Móðir mín sem kom út um svipað leyti. Bæði lög voru hljóðrituð af Ingibjörgu Þorbergs, en ekki síður þekkt er útgáfa Bjarkar Guðmundsdóttur og Guðmundar Ingólfssonar af hinni sívinsælu plötu Gling gló frá 1990.


Á sömu plötu flutti Björk einnig hið eina sanna íslenska mömmulag, Litla tónlistarmanninn eftir Freymóð Jóhannesson, undir listamannsnafninu 12. september. Bæði Erla Þorsteinsdóttir og Vilhjálmur Vilhjálmsson fluttu lagið á sínum tíma. Litríkasti flutningur lagsins tilheyrir þó sennilega Jóni Jósep Snæbjörnssyni, betur þekktum sem Jónsa Í svörtum fötum, en hann flutti Litla tónlistarmanninn í söngkeppni framhaldsskólanna árið 1996. Sannkölluð 90´s bomba.



Þeir sem áttu ungdómsár sín á síðari hluta 10. áratugsins muna ef til vill eftir öðru mömmulagi frá 1996, með hinum brjálæðislega vinsælu Spice Girls. Mama er óneitanlega ekki þeirra besta lag en það eru voða krúttlegar barnamyndir af litlu Kryddpíunum í myndbandinu.


Það hlýtur að vera sjaldgæft að lög sem ná toppi vinsældalistans séu tólf mínútur að lengd. Það gerði hins vegar útgáfa bandarísku hljómsveitarinnar The Temptations af laginu Papa Was a Rolling Stone árið 1972. Ólíkt flestum lögunum sem hér birtast er hér birt frekar dimm mynd af föðurnum.


Ömmur og afar hafa líka verið umfjöllunarefni dægurlaga. Hér syngur hinn egypsk-franski en af ítalsk-grísku bergi brotni Georges Moustaki (á frönsku) um afa sinn, "flóttamann frá Korfú og Konstantínópel" - fjölþjóðlegt og harmrænt lag.


Árið 1962 söng Alfreð Clausen um þær ráðleggingar sem amma hans gaf honum og hvernig hún sagði honum sögur og bað honum alls til blessunar. Ömmubæn er eftir Jenna Jónsson, bæði lagi og texti. Tónalísur syngja bakraddir hjá Alfreð.


Tæplega tíu árum síðar hljóðritaði bandaríski söngvarinn Bill Withers sitt ömmulag, í nokkuð öðrum stíl en framlag Jenna og Alfreðs. Grandma´s Hands er frábært, sem og hjartnæmt, grúvlag.

No comments:

Post a Comment