Sunday, June 29, 2014

Mjólk, brauð og stríð

Síðustu mánuði hef ég verið að vinna við sýningu um neyslusögu Reykvíkinga á 20. öld sem opnaði á Árbæjarsafni nú í sumarbyrjun, og fengið því tækifæri til að kynnast aðeins hinu spennandi fræðasviði neyslusögunnar. Fremstir í þeim flokki á Íslandi hafa verið þeir Guðmundur Jónsson og Magnús Sveinn Helgason. Fyrir þá sem vilja kynna sér neyslusögu mæli ég sérstaklega með fimm þáttum um sögu neyslusamfélagsins eftir Magnús Svein sem er að finna á hlaðvarpi Ríkisútvarpsins. Guðmundur Jónsson hefur einnig skrifað margar áhugaverðar greinar á þessu sviði og upp úr einni þeirra skrifaði ég Smjörfjallspistil um breytingar á mataræði Íslendinga.

Í einni af greinum sínum minnist Guðmundur Jónsson á neytendasamvinnu reykvískra húsmæðra á fyrri hluta 20. aldar. Hann fer ekki náið út í það mál, en forvitni mín var vakin og ég fór á stúfana á hinum ómetanlegu síðum Tímarit.is og Fons Juris.

Neytendasamvinna var aldrei jafn blómleg á Íslandi og víða annars staðar. Íslenska samvinnuhreyfingin var bændahreyfing sem tók einkum mið af hagsmunum framleiðenda í dreifbýli. Þó urðu til nokkur pöntunarfélög og kaupfélög meðal verkamanna í þéttbýli – og oftar en einu sinni tóku húsmæður sig saman og létu í sér heyra, enda voru það þær sem sáu um innkaup og aðdrætti til heimilisins. Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur er til dæmis að finna skjöl Húsmæðrafélags Reykjavíkur frá 1915-1919, en það var pöntunarfélag hvers tilgangur var að „að sjá til þess að félagskonur fengju sem bestar útlendar matvörur á sem lægstu verði“. Neyslusaga fléttast oft saman við kynjasögu, enda gerir rótgróin hugmyndafræði ráð fyrir því að framleiðslan sé hlutverk karlmannsins en konan sjái um neysluna. Karlmaðurinn er tengdur hinu praktíska og nauðsynlega en konan hinu hégómlega og óþarfa.

Morgunblaðið 14. september 1914
Haustið 1914, fáeinum mánuðum eftir upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar, var sagt frá því í reykvískum blöðum að hópur kvenna gengi nú í hús í austurbænum og hvetti húsmæður til að sniðganga bakara bæjarins. Þetta gerðu þær í því skyni að mótmæla verðhækkunum á brauði, en bakarar höfðu nýlega hækkað brauðverðið úr 50 aurum í 80 aura. Þar til bakarar lækkuðu verðið á ný hugðust húsmæðurnar baka allt sitt brauð heima.

Ein húsmóðir tók upp pennann og skrifaði pistil í Vísi  þar sem hún sakaði kaupmenn, fisksala og bakara um „dýrtíðarsótt“; þeir „sáu sér ekki annað fært en að hækka samstundis allar nauðsynjavörur“ þegar þeim barst fregnin um að styrjöld væri hafin. Vísimenn bættu við greinina fyrirvara:

Vísir 10. október 1914
Ég finn hins vegar ekki í fljótu bragði fréttir af því hvernig til tókst með mótmælin, hvernig þátttakan var eða hvort þau höfðu nokkur áhrif.

Betur skjalfest mótmæli húsmæðra fóru fram um miðjan 4. áratuginn og snerust um aðra nauðsynjavöru: mjólk. Árið 1934 voru að undirlagi Framsóknarflokksins sett ný mjólkursölulög sem komu því skipulagi á dreifingu mjólkur sem við þekkjum í dag. Lögin áttu að jafna aðstöðu bænda hvar sem þeir bjuggu á landinu og féllu jafnframt að þeirri hugmynd Framsóknarmanna að smábýlarekstur væri æskilegasta fyrirkomulagið í landbúnaði.

Talið var að lögunum væri ekki síst beint gegn Thor Jensen, sem rak stórbú að Korpúlfsstöðum. Eftir að mjólkursölulögunum var komið á gat hann ekki selt Korpúlfsstaðamjólkina sérstaklega heldur þurfti öll mjólk í Reykjavík að fara gegnum Mjólkursamsöluna, nema greitt væri verðjöfnunargjald. Upp úr þessu hnignaði Korpúlfsstaðabúinu og það lagðist loks af. Alþýðuflokkurinn studdi mjólkursölulögin, en Sjálfstæðisflokkurinn var á móti. Þetta var því hápólitískt og flokkspólitískt mál, sem meðal annars er fjallað um í lengra máli í bókinni Iðnbylting hugarfarsins eftir Ólaf Ásgeirsson.

Í „útsýnnings hríðaveðri“ þann 30. janúar 1935 var Húsmæðrafélag Reykjavíkur stofnað á fundi í Nýja Bíó í þeim tilgangi að mótmæla mjólkursölulögunum. Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins tóku um 450 konur þátt í stofnfundinum, sem sendi eftirfarandi áskorun á ríkisstjórnina:

Morgunblaðið 31. janúar 1935
Húsmæðurnar lögðust jafnframt gegn því að það væri tekið upp sem regla að gerilsneyða alla mjólk, en ógerilsneydd mjólk var af sumum talin hollari fyrir ungbörn.

Konurnar sem kosnar voru í bráðabirgðastjórn félagsins á fundinum voru borgaralegar húsmæður. Þeirra á meðal voru til dæmis Guðrún Lárusdóttir, fátækrafulltrúi, stjórnarmeðlimur KFUK, bæjarfulltrúi og þingkona fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og Guðrún Jónasson, kaupmaður og bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  

Morgunblaðið sýndi Húsmæðrafélaginu dyggan stuðning frá upphafi. Í lok febrúar 1935 sakaði blaðið meirihluta mjólkursölunefndar um að vilja „mjólkurstríð við neytendur í Reykjavík“. Húsmæðrafélag Reykjavíkur hygðist hins vegar grípa til aðgerða:

Morgunblaðið 24. febrúar 1935
Strax tveimur dögum síðar boðaði blaðið stórkostlegan árangur af bojkotti húsmæðra:


Þrátt fyrir þessar fréttir af góðum árangri varð barátta Húsmæðrafélags Reykjavíkur ekki til þess að mjólkursölulögin væru afnumin og við drekkum enn okkar gerilsneyddu mjólk frá Mjólkursamsölunni í dag.

Baráttu Húsmæðrafélagsins við Mjólkursamsöluna var hins vegar ekki lokið. Í mars 1935 stefndu forsvarsmenn Mjólkursamsölunnar þremur forgöngukonum Húsmæðrafélagsins, þeim Guðrúnu Lárusdóttur, Ragnhildi Pétursdóttur og Guðrúnu Jónassen, auk ritstjóra Vísis og tveimur ritstjórum Morgunblaðsins, „eftir árangurslausa sáttaumleitun“ fyrir „ólögmætt „boycott““ - fyrir að hafa „í sameiningu haldið uppi látlausum, en óréttmætum, árásum á mjólkursamsöluna hér í bænum, stuðlað að samtökum neytenda um að takmarka mjólkurkaup, þannig að óréttmætt verði að teljast, og yfirleitt á allan hátt gert það, sem í þeirra valdi stóð, til að spilla rekstri Mjólkursamsölunnar, torvelda sölu á mjólk og mjólkurafurðum og rýra álit og fjárhagslegt traust samsölunnar“.

Konurnar í Húsmæðrafélaginu neituðu því að bojkottið hefði verið ólögleg aðgerð: „þar sem engin skylda hvíli á borgurunum til að kaupa mjólk, þá geti ekki verið óheimilt að minnka við sig mjólkurkaup og hvetja aðra til þess að gera það líka.“ Ritstjórarnir mótmæltu því ennfremur að þeir hefðu skrifað nokkuð í blöð sín annað en það sem væri satt og rétt.

Dómurinn féllst aftur á móti ekki á þennan málflutning og taldi yfirlýsingar húsmæðranna og blaðanna um starfsaðferðir Mjólkursamsölunnar ekki réttmætar. Því hafði meðal annars verið haldið fram að nýrri mjólk hefði verið blandað saman við gamla mjólk fyrir sölu og gefið í skyn að ógerilsneydd barnamjólk úr fjósinu á Kleppi, en kýrnar þar voru fóðraðar með töðu frá holdsveikraspítalanum í Laugarnesi, kynni að bera með sér holdsveikismit.

Þegar dómur féll loks í málinu í janúar 1937 voru hin stefndu dæmd til að greiða Mjólkursamsölunni bætur. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar en dómur hans í janúar 1939 var á sama veg. Alþýðublaðið fagnaði:

Alþýðublaðið 16. janúar 1939
Ég veit ekki hvort það hefur verið dæmt í mörgum málum af þessu tagi á Íslandi, en mér þótti skemmtilegt að komast að því að á 4. áratugnum hefðu borgaralegustu frúrnar í bænum verið dæmdar fyrir bojkott. Guðrún Lárusdóttir var ekki lengur meðal lifenda þegar Hæstaréttardómurinn féll, en hún lést í bílslysi með tveimur dætrum sínum árið 1938.

Þjóðviljinn 25. mars 1973
Við grúsk mitt rakst ég síðan á það að árið 1973 hafði Húsmæðrafélag Reykjavíkur aftur gripið til svipaðs ráðs. Þá mótmælti félagið verðhækkunum á landbúnaðarafurðum með svokölluðum sparnaðarvikum þar sem húsmæður voru hvattar til að kaupa minna af mjólk, smjöri og kjöti. Einnig flykktust húsmæður á þingpalla. Tilgangurinn, samkvæmt Dröfn Farestveit sem sat í framkvæmdanefnd félagsins, var að „róta í verðlags- og neytendamálum“. Ekki voru allir jafn hrifnir af þessu uppátæki og í lesendabréfi í Tímanum var meðal annars spurt hvers vegna sveitafólk mætti ekki fá sína kauphækkun eins og aðrir. Margir tengdu aðgerðir Húsmæðrafélagsins greinilega enn sem fyrr við pólitík Sjálfstæðisflokksins.

Húsmæðrafélag Reykjavíkur starfaði fram yfir aldamótin 2000 og eru skjöl þess varðveitt á Kvennasögusafni. Óneitanlega væri gaman að skoða sögu þess betur og samspil kvennanna í félaginu við önnur hagsmunaöfl í samfélaginu.

No comments:

Post a Comment