Friday, March 21, 2014

Föstudagslög - um fullnægingar í dægurtónlist

Eitt sinn giltu strangar reglur um hvað mátti syngja um og hvað ekki í dægurlögum. Ef þessar reglur (þótt jafnan óskráðar væru) voru brotnar neituðu útvarpsstöðvar einfaldlega að spila lögin, og var þá mestallur tekjugrunnur listamannanna horfinn. Popptónlistarmenn skutu sér þó framhjá þessu með ýmsum hætti. Beach Boys gátu t.d. talað um unað kynlífsins í laginu Wouldn't It Be Nice á meistaraverki þeirra Pet Sounds (1966) með því að setja það allt í viðtengingarhátt - þetta mun allt verða svona yndislegt, eftir að við giftum okkur.


En popptónlistin var þá að brjótast út úr þessu formi og farin að spýta framan í sensorinn. Einn brautryðjandinn var franska ólíkindatólið Serge Gainsbourg. Margir lesendur ættu að kannast við lag hans Je t'aime... moi non plus (Ég elska þig... ekki ég heldur). Þekktasta útgáfan af því lagi kom út árið 1969 og var dúett milli hans og þáverandi ástkonu hans Jane Birkin. Í kringum mig var það samt aðallega þannig að fólk spilaði þá útgáfu og flissaði vandræðalega að henni; hún var sett upp sem eitthvað fyndið.

Mér fannst ég hinsvegar uppgötva lagið upp á nýtt þegar ég heyrði upprunalegu útgáfuna af laginu, með Serge og fyrri ástkonu hans, sjálfri Brigitte Bardot (tekið upp 1967, en gefin fyrst út árið 1986). Þar eru strengirnir dýpri, orgelið þyngra og takturinn hægari - og svo koma fullnægingarstunur Bardot (Serge heldur náttúrulega virðulegri þögn á meðan) - og lagið verður einfaldlega himneskt.


Textinn er líka stórskemmtilegur. Sumt er bara gott, venjulegt kynlífsmyndmál (þú ert aldan, ég er eyjan nakta), en annað er frábærlega frumlegt:

Tu vas et tu viens
entre mes rheins

Þú kemur og ferð
milli nýrnanna á mér

Nýrnanna!

Nú var ákveðinn bolti farinn af stað sem sálartónlistin tók hvað helst yfir. Tina Turner tók þetta til dæmis alla leið í þessari útgáfu af sálarklassíkinni I've Been Loving You Too Long (To Stop Now). Hér syngur hún lagið á upphitunartónleikum fyrir Rolling Stones árið 1969. Ekkert í textanum er neitt sérstaklega kynferðislegt, en í performansinu snýr hún þessu upp í stórkostlegan óð til munnmaka. Það er reyndar eilítið krípí að þessi óður fari fram sem call-and-response við þáverandi eiginmann hennar Ike Turner...


Þegar kemur að lofsöngvum til kynlífs stenst hinsvegar fátt sálargoðinu Isaac Hayes snúning. Hann var með sérstakt teik á sálartónlist; hráleikinn vék fyrir rosalegu pródúksjóni og mögnuðum hljóðheimi. Lögin voru gjarnan um 15 mínútur og áttu allavega fimm þessara mínútna til að fara í djúpraddaðar einræður Isaacs um ástina og lífið. Þetta gat verið skemmtilegt (eins og hér) eða kostulega aulahrollsvaldandi og drepfyndið (eins og hér). En sem betur fer sleppti hann hlustendum við allt slíkt í meistaraverkinu Joy (1973). Dáleiðandi trommu- og bassagrúv kýla lagið áfram, en þegar svo lokaparturinn hefst fer Isaac að stynja eins og lífið sé að leysa og heldur því til streitu í tíu mínútur. Hann þorði því sem Serge þorði ekki!


Hápunktur fullnæginganna í dægurtónlistinni hlýtur hinsvegar að vera Love To Love You Baby (1975) með diskósöngkonunni Donnu Summer. Það sem Brigitte Bardot skorti í leikrænum hæfileikum og Isaac Hayes í kynferðislegum sjarma á Donna Summer heilu geymslurnar af - Love To Love You Baby hreinlega logar af greddu. Hljóðheimurinn er sömuleiðis magnaður, eitt af meistaraverkum pródúsentsins Giorgio Moroder sem Daft Punk tileinkuðu nýlega lag.


En nú er spurning hvað hefur gerst síðan. Með tilkomu tónlistarmyndbandanna er eins og kynferðisleg tjáning dægurtónlistar hafi færst úr hljóðheiminum yfir í myndmálið. Ég man í fljótu bragði ekki eftir nýlegu, vinsælu dægurlagi sem hefur eitthvað eins og fullnægingarnar í Love To Love You Baby og Je t'aime... moi non plus, en hinsvegar eru flestöll tónlistarmyndbönd með kynferðislegu þema, sama hversu lítið það á við texta eða hljóðheim lagsins. Af hverju er t.d. Miley Cyrus nakin ofan á húsarifskúlunni í því fræga lagi? Textinn fjallar um ástarsorg og hljóðheimurinn er eftir því dramatískur - nektin væri miklu skiljanlegri í lagi sem fjallaði um kynlíf en ekki skort á því.

Ég persónulega sakna kynlífsins úr hljóðheimi dægurtónlistarinnar. Það er einhver ástæða fyrir því að öllum er sama um nekt og kynlíf í tónlistarmyndböndum en það myndi gera flesta vandræðalega að heyra Love To Love You Baby spilað á FM957. Róttæknin liggur greinilega í fullnægingum á teipi. Það hefur verið talað um það nýlega hvernig popptónlist virðist vera ófær um að hneyksla þessa dagana - ég vil halda því fram að hér sé komin kjörin leið til að ná aftur fyrri sjokk-faktor.

4 comments:

  1. "I'm gonna love you in the morning, love you late at night; girl I ain't gonna stop lovin' you 'till you tell me everything's allright" söng Solomon Burke árið 1963: http://www.youtube.com/watch?v=iH6NPyEM0lQ
    Svo las ég eitt sinn að "rock'n'roll" sé dregið af blústexta frá 1925 sem byrjar á orðunum "My baby she rocks me / she rolls me all night long".
    Bestu fullnægingarnar átti samt Yoko Ono, bæði í Two Virgins (1968) og Kiss Kiss (1980).

    ReplyDelete
    Replies
    1. Þarf að tékka á Yoko! Hef of lítið hlustað á hana.

      Delete
  2. Geggjuð grein.

    Ég vil endilega koma Villu og Lúllu með Þú og Ég inn í þetta kombó.
    Það er mjög augljóst hvað þau eru að tala um: https://soundcloud.com/skurken/thu-og-eg-villi-og-lulla

    Kv. Salvör V.

    ReplyDelete
    Replies
    1. Haha, já! Ég hef aldrei hlustað almennilega á textann áður...

      Delete