Thursday, March 20, 2014

Blóði drifin Hellenaæta að nafni Fallmerayer

Í dag heitir gríska ríkið Hellas (eða Ellaða á nútímagrískuforminu) og landsmenn kallast Hellenar (Ellínes) á grísku. Þetta er vísun í fjarlæga fortíð; í fornöld voru þetta nöfnin yfir þá sem töluðu grísku, og landið sem þeir byggðu. En það er raunar langt frá því sjálfsagt að þetta orð sé notað yfir landsmenn í dag. Allt frá því að Grikkland fór undir stjórn Rómarveldis, kristnaðist og laut loks grískættuðum og grískumælandi Rómarkeisurum sem ríktu frá Konstantínópel, fóru Grikkir að tala um sig sem Rómverja (Romeí) og tungumál sitt sem rómversku (romeíkí). Helleni merkti þá Grikkja sem heiðraði fornu goðin - það táknaði fyrirlitlega heiðingja.

Með aukinni þjóðernishyggju á 19. öld voru hins vegar orðin Hellas og Helleni endurvakin, og þannig var Grikkland þess tíma tengt beint við Grikkland hið forna. Grikkir börðust þá fyrir sjálfstæði sínu frá Ottómanska heimsveldinu, og evrópskir andstæðingar Ottómana fylktu sér þeim að baki. Þeir áköfustu voru kallaðir fílhellenar, þeir sem elska Hellena. Sumir þeirra (þar er frægastur skáldið Byron) ferðuðust meira að segja til hins bjarta Hellas til þess að berjast við óvininn úr austri og endurtaka hetjudáðirnar við Laugarskarð.

Framsetningin var sem sagt sú að nú væri hin forna ofurþjóð Hellena risin upp; Evrópubúum sem dáðust að hinni fornu menningu landsins bar skylda til þess að aðstoða þá við að sigrast á óvini sínum (sem svo vildi til að var sameiginlegur óvinur þeirra sjálfra.) En til voru aðrar túlkanir á ástandinu. Helsti talsmaður þeirra var týrólski ferðalangurinn, prósastílistinn og fræðimaðurinn Johann Philipp Fallmerayer (1790 – 1861).

"Þú afsakar, mér er dálítið bumbult af því að éta alla þessa Hellena"
Fallmerayer hafði róttæka pólitíska sýn sem stangaðist á við álit flestra í Evrópu. Hann taldi að hinn mikli og endanlegi óvinur Vestur-Evrópu væri ekki hið hnignandi Ottómanaveldi heldur hið rísandi Rússneska keisaraveldi, og hann hvatti því eindregið til þess að Ottómanar væru styrktir og þeim teflt fram sem brjóstvörn gegn Rússum. Í því samhengi var Grikkland og byltingin þar til óþurftar. En ekki er nóg með að Fallmerayer hafi séð taktískar ástæður til að vera á móti frelsisstríði Grikkja - hann hafði sömuleiðis rasískar ástæður. Í verki sínu „Saga Morea-skagans (þ.e. Pelópsskagans) á miðöldum“ (Die Geschichte der Halbinsel Morea während des Mittelalters) sem kom út 1830-36, hélt hann því fram á sinni rómuðu, flæðandi þýsku að kynþáttur hinna fornu Hellena væri ekki lengur til; í hinum miklu fólksflutningum á miðöldum hefðu Slavar, og að minna leiti Albanir, algjörlega tekið yfir og útrýmt hinum fyrri íbúum. Eins og hann segir:

Kynþætti Hellena hefur verið útrýmt úr Evrópu. Líkamleg fegurð, upplyfting andans, samræmi og einfaldleiki í siðum, listir, kappreiðar, borgir, þorp, glæsilegar súlur og hof, já meira að segja sjálft nafnið er horfið af yfirborði Grikklandsskaga... ekki svo mikið sem einn dropi af sönnu og óblönduðu Hellenablóði rennur um æðar hinna kristnu íbúa Grikklands dagsins í dag.

Grikkir voru sem sagt Slavar, þ.e.a.s. kynþáttalegir bandamenn Rússa. Með því að styðja Grikki gegn Ottómönum var í raun verið að aðstoða rússneska Tsarinn. Evrópsku stórveldin væru þá að gera bæði taktísk og menningarleg mistök: Það sem þau töldu að væri endurreisn hinnar forn-grísku menningar var í raun slavnesk brella til heimsyfirráða. Þessi boðskapur fór skiljanlega rækilega öfugt ofan í evrópska fílhellena. Þar fremstur í flokki var Lúðvík I Bæverjakonungur sem var þá að lobbía fyrir því að sonur hans Ottó yrði konungur Grikklands, sem hann og varð. Auk þess varð gervöll evrópska intellegentsían brjáluð yfir þessu og skrifaði gegn honum í blöðin.

Það var þó ekkert miðað við viðbrögðin í hinu glænýja gríska ríki, sem íbúarnir voru farnir að kalla Hellas. Þar gekk allt af göflunum og Fallmerayer varð að þjóðaróvini; Fallmerayer var útmálaður sem grikkjahatari, gyðingur, dvergur, pan-slavisti og laumu-agent rússneska Tsarsins svo fátt eitt sé nefnt. Einn núlifandi grískur höfundur talar um að honum hefði í sinni eigin æsku verið lýst sem blóði drifinni Hellenaætu.

Ottó I, fyrsti konungur Grikklands, í kynþokkafullum grískum þjóðbúningi.
En aftur til 19. aldar: Hin nýstofnaða gríska akademía gerði það strax að forgangsverkefni að hrekja kenningar Fallmerayers. Sögubækur voru gefnar út í hraði sem lögðu áherslu á að til væri ein og hrein samfella í Grikklandssögunni allt frá 1200 f. Kr. til nútímans (la longue durée alla leið). Sömuleiðis hratt Fallmerayer á fremur ólíklegan hátt af stað heilu fræðigreinunum í Grikklandi - fræðimenn fóru t.d. kerfisbundið að skoða gríska þjóðsöngva og þjóðsögur til þess að leita að samræmi milli þeirra og fornrar ljóð- og frásagnarlistar, og enn þann dag í dag byggja víst blómlegar fræðigreinar á þeim rannsóknum. Sömuleiðis varð áherslan á sögu Býzansveldisins miklu meiri en áður hafði verið, því það var nauðsynlegt að finna þar samfelluna milli fornra Grikkja og nýrra. Þetta afrek, ásamt bók hans um sögu keisaraveldisins í Trebizond, gerir Fallmerayer að einum áhrifamesta Býzansfræðimanni allra tíma.

Kenningar Fallmerayers um kynþáttasamsetningu Grikkja voru hinsvegar á afar vondum rökum reistar. Þau gögn sem hann tíndi til voru alls ekki nægileg til að styðja fullyrðingarnar sem hann dró af þeim og stundum gerði hann vandræðaleg mistök. Til dæmis lagði hann trúnað á ákveðið augljóslega falsað rit og fullyrti einnig að gríska væri varla lengur töluð í Aþenu heldur eitthvað barbarískt hrognamál - staðhæfing sem augljóslega byggðist á hans eigin algjöra kunnáttuleysi í nútímagrísku. Engu að síður er það alveg rétt að slavneskir og albanskir ættbálkar réðust inn í Grikkland snemma á miðöldum og settust þar að; Grikkland er augljóslega blönduð þjóð, rétt eins og allar þjóðir eru blandaðar“. En gríska ríkið sem stofnað var 1832 var þjóðríki á þeim tíma þegar það hugtak var tekið hvað alvarlegast; í ríkinu skyldi búa einn kynþáttur með eitt tungumál og eina sameiginlega sögu með tengingu við forna gullöld. Þannig var við lýði kynþáttastefna í hinu nýja Hellas sem forhertist við árásir Fallmerayers.

Til dæmis var örnefnum sem bentu til slavnesks uppruna kerfisbundið útrýmt í hinu nýja gríska þjóðríki og forn, grísk nöfn grafin upp í staðinn. Tilraunir voru gerðar til að hreinsa tungumálið af öllum ógrískum orðum, eins og ég hef áður skrifað um. Loks hefur minnihlutahópum í Grikklandi, svo sem Tyrkjum, Albönum, Vlökhum og Makedónum, verið kerfisbundið mismunað og margir þeirra svo gott sem reknir úr landi. Svipaða tendensa má svo sjá í dag í hryllilegri meðferð gríska ríkisins á flóttamönnum. Það má segja að ýktasta birtingarmynd þessarar ógeðfelldu hellensku þjóðernishyggju birtist í nasistaflokknum Gullinni dögun, sem nú er sem betur fer verið að kæfa niður.

Það er spurning hvort rasismi af þessari tegund sé ekki hreinlega rökrétt afleiðing þjóðríkisins sem stofnunar. Þjóðum er raunar fullkomlega ómögulegt að halda sér hreinum á þann hátt sem hugmyndin um þjóðríkið krefst; hreinleikanum er haldið á lofti með goðsögum byggðum á sandi. Þegar þær sögur eru dregnar í efa fer að hrikta í stoðum þjóðríkisins í heild sinni, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þó stendur Hellas enn - rétt svo.

No comments:

Post a Comment