Sunday, March 30, 2014

Kvenleg illska í óbyggðum

Tilgátuhúsið Þjóðhildarkirkja, Grænlandi.
Einu sinni, fyrir margt löngu, lýsti ég því yfir að ég ætlaði að fjalla um seinni hluta bókarinnar Íslensk fornrit IV, í sérstökum pistli. Nú, einum og hálfum mánuði síðar, hef ég einsett mér að sitja nógu lengi við lyklaborðið til að skrifa niður það sem mér datt í hug þegar ég las þessa ágætu bók upphaflega, milli jóla og nýárs. Þá er bara að vona að mér takist að kreista upp úr mér einhverja andagift um þennan löngu liðna lestur.

Við fyrstu útgáfu Íslenskra fornrita IV var, auk meginsögunnar Eyrbyggju, að finna þar þrjár „mismunandi“ sögur um landnám norræna manna á Grænlandi og Vínlandi, þær Eiríks sögu rauða, Grænlendinga sögu og Grænlendinga þátt. Ástæða þess að þeim var skellt í sömu bók og Eyrbyggja sögu er að fjölskyldurnar sem stóðu að þessu landnámi höfðu um tíma búið í Breiðafirði, sögusviði Eyrbyggju. Um þennan hluta útgáfunnar sá Matthías Þórðarson, en þegar Eyrbyggja var endurútgefin 1985, bætti Ólafur Halldórsson við fjórðu Grænlandssögunni, Eiríks sögur rauða eftir texta Skálholtsbókar.

Ég vona að þetta sé rétt upp talið hjá mér en þori ekki að ábyrgjast það, því þessar sögur rugluðu mig skelfilega í ríminu, auk þess sem ég las þær, eins og fyrr segir, í lok desember. Ég þurfti að vissu leyti að pína mig í gegnum þennan hluta bókarinnar, því stundum endurtekur einhver sagan nær orðrétt kafla úr sögunni á undan eða eftir, áður en hún skyndilega bregður út af og fer að fjalla um eitthvað allt annað. Ég hef ekki vanið mig á að nota bókamerki þegar ég legg bók frá mér, heldur finn alltaf staðinn sem ég var á út frá samhengi. Eins og gefur að skilja þá brást þessi aðferð mér algjörlega við lesturinn á Grænlendingasögum, og ég fletti oftsinnis fram og til baka í mikilli frústrasjón í tilraun til að finna rétta staðinn í réttu sögunni. Ég get því í raun ekki fullyrt að ég hafi lesið allar þessar sögur í réttri röð, þó ég hafi gert mitt besta.

Annað sem truflaði mig við lesturinn var að ég er, innst inni, alls ekki hrifin af svona „sameiginlegum sagnaheimi“ sem er unnið úr á mismunandi hátt. Það truflaði mig til dæmis meira en lítið þegar ég las Andrés Önd sem barn að byggðasaga Andabæjar var ekki alltaf eins, að Jóakim Aðalönd hafði að því er virtist átt svona fimm mismunandi æskuskeið, og að ættartré Andafjölskyldunnar gekk ekki upp, ættartengsl t.d. Andrésar Andar og Ömmu Andar voru síbreytileg. Ég hef því miður ekki losnað við þessa íhaldssemi og kassahugsun, og á erfitt með að lesa texta sem heldur sig ekki við eina útgáfu af „sannleikanum“. Svo reyni ég að lesa þessar Grænlands og Vínlands sögur sem áhugasamur og samviskusamur miðaldafræðingur, og þá geta þær bara ómögulega gefið sömu upplýsingar um það hverjir voru með í hvaða leiðangri, hvar þau komu að landi, hvernig landslagið var og hvað þau voru þar lengi. Og hvenær og með hvaða hætti fannst hinn frægi vínviður eiginlega? Svona skelfilega margir möguleikar á atburðarás valda mér heilakláða.

Rostungur. Svipur hans ber vott um yfirvegun gagnvart flækjum norræns landnáms, sem höfund skortir.


Skýringarnar við textann hjálpuðu mér lítið í baráttunni við þessa þröngsýni á möguleika söguþráðar. Svo virðist sem að þegar sögurnar voru gefnar út, þá hafi verið þó nokkur vilji einmitt til þess að lesa frásagnirnar sem heild, í tilraun til þess að fá einhverja mynd af hinum „raunverulegu“ leiðöngrum, einhvern sögulegan sannleika sem liggi á bak við mismunandi frásagnir. Var Amma Önd amma Andrésar, eða ömmusystir? Er eyjan Straumey staðsett á Labrador eða Baffinslandi? Tilheyrði fólkið sem Þorfinnur Karlsefni og lið hans fyrirhittu hinum útdauða þjóðflokki Beóþúkka? Þau voru nú einu sinni „svartir menn ok illiligir ok höfðu illt hár á höfði, ... mjög eygðir ok breiðir í kinnum“ (Eiríks saga rauða, bls. 227) Neðanmálsgreinarnar eru fullar af hugleiðingum um þessi álitamál. Þrátt fyrir það er af einhverjum ástæðum ekki reynt að tengja einfætinginn, sem birtist á bls. 231 í sömu sögu, við neinn norður-amerískan þjóðflokk, hvorki lifandi né dauðan.

Viðhorf miðaldafræðinga til þessara sagna um landnám á Grænlandi og í Norður-Ameríku hafa nefnilega breyst mjög mikið á undanförnum áratugum, og neðanmálsgreinar frá árinu 1957, og jafnvel 1985, eru bara orðnar sorglega úreltar. Mér fannst þær koma mér að afar takmörkuðu gagni við lesturinn, og stundum urðu þær beinlínis vandræðalegar, eins og í neðanmálsgrein á bls. 245, þar sem skýrt er frá því að Garðar á Grænlandi nefnist nú Igaliko „á máli Skrælingja“. Einnig finnst mér furðulegt að lesa á bls. 229, þar sem vitnað er í bók Ch. M. Smith, Northmen of Advenure, „að villimenn verði ætíð skelkaðir við þá menn, sem virðast vera æðisgengnir“. Öfugt þá væntanlega við Evrópubúa, sem myndu ekki blikka auga við að sjá konu sletta brjóstunum á sér upp við bert sverð í miðju Bankastræti.

En já, burtséð frá nokkrum meira en lítið óviðeigandi athugasemdum og orðalagi, þá er besta íslenska útgáfan á þessum merkilegu textum sem völ er á einfaldlega ekki í neinu samræmi við nýjustu rannsóknir, sem er miður. Hvernig getum við kvartað undan því að íslenskur almenningur hafi gamaldags og óviðeigandi viðhorf (sem dæmi má nefna þann vandræðalega atburð þegar Ólafur Ragnar Grímsson gaf páfanum skelfilega styttu af „fyrsta hvíta barninu“ sem fæddist í Norður-Ameríku) þegar þetta er það sem allir hljóta að lesa?

Stytta Guðríðar Þorbjarnardóttur og sonar hennar. Myndmálið er ef til vill örlítið fasískt.

Því þrátt fyrir alla lestrarerfiðleika eru Grænlendingasögurnar mjög spennandi efniviður. Það sem vakti helst athygli mína er óhugnaðurinn sem býr undir í sögunum. Mér finnst þær ólíkar landnámssögum af Íslandi, sem birtast ekki bara í Landnámu og Íslendingabók, heldur einnig í mýflugumynd í flestum Íslendingasögum. Þær sögur eru skrifaðar út frá sjónarhóli afkomenda landnemanna, fólks sem þekkti landið sem var numið og fann til öryggis í samfélaginu sem var komið á. Landnám Íslands er saga af landeignarréttinum, göfugum ættum og lagasetningu. Sagan af landnámi Grænlands, og sérstaklega Vínlands, er saga af ókunnum, fjarlægum löndum. Mér finnst ég fá skýrari tilfinningu fyrir sjálfu úthafinu í þessum sögum, og hversu erfitt það sé yfirferðar. Svo er það sjálft landið. Þar eru óbyggðir, og þær eru hættulegar. Sem dæmi um mismunandi viðhorf mín og útgefenda til þessara sagna og skemmtanagildis þeirra má nefna Grænlendinga þátt. Samkvæmt útgefendum þá er Grænlendinga þáttur athyglisverður fyrir þá sök að hann sýnir öðruvísi þróun norrænna laga í grænlensku samfélagi en á Íslandi eða í Noregi. Að mínu mati er Grænlendinga þáttur spennandi því þar er að finna hryllingssögu. Sögu af skipi og áhöfn sem lagði á haf út til Grænlands, en skiluðu sér aldrei og voru álitnir hafa horfið í hafið. Allt þar til að nokkrir Grænlendingar fara í veiðiferð, í óbyggðir.

Miðað við hvað norræn byggð á Grænlandi var lítil miðað við landflæmið, þá getur maður gert sér í hugarlund hvaða merkingu orðið óbyggðir hafði þar. Enda er eins og mennirnir í sögunni séu í óbyggðum allt sumarið, þar til þeir finna óvæntar mannvistarleifar. Þeir halda lengra áfram, í leit að fólkinu, og finna það loks innst í firði. Fyrsta líkið sem þeir sjá liggur við hliðina á eldiviðarstokki, og hafði haldið áfram að höggva við þar til hann hné niður úr hungri. Annað líkið liggur fyrir framan skálann, svo þeir ákveða að rjúfa húsið til að lofta út ýldulyktinni sem hljóti að leggja af þeim sem fyrir innan liggja. Það er að segja allir nema einn, sá gengur beint inn, en sturlast af því sem inni er og hleypur fyrir björg. Látna fólkið reynist tilheyra hinum horfna leiðangri, og veiðimennirnir eigna sér gripi þeirra og hafskip, en sjóða líkin í kötlum, til að geta flett kjötinu frá og fært bein þeirra í kristinn legstað í byggð. Því það er einnig annað sem einkennir Grænland, hinn öruggi heimur kristninnar er lítill, og stendur valtari fótum en á Íslandi. Fólkið sem þar býr er heiðnara en fólk á Íslandi, og reimleikar leika býsna stórt hlutverk í sögunum.

Að sjálfsögðu eru einnig til ljótar styttur af karlmönnum sem tóku þátt í landnáminu.

Það er þó ein saga sem mér finnst að takist að fullkomna þennan, „landnemaóhugnað“, en það eru lokakaflarnir í Grænlendinga sögu (bls. 264-269). Þeir kaflar eiga sér enga hliðstæðu, að því er ég best veit, í hinu Grænlandsefninu. Þeir geyma sjálfstæðan útúrdúr sem lýsir leiðangri Freydísar, laundóttur Eiríks rauða, til Vínlands í fylgd með tveimur austfirskum bræðrum, þeim Helga og Finnboga. Þessi útúrdúr vakti strax áhuga minn, því þar er kona aðalpersónan og á frumkvæði að landnámsleiðangri. Einnig nefnir sagan fjölda karla á skipum í leiðangrinum, (30-35, auk kvenna), og hvern langar svo sem ekki að vita meira um landnámsskip og fyrirkomulagið á þeim? Það þarf þó ekki að lesa lengi til að átta sig á því að í þessari örsögu er engar upplýsingar að finna sem hægt er að treysta á. Sagan hefur augljóslega enga tengingu við raunveruleikann. Hún er hryllingssaga, og minnir mig einhvern veginn á myndina Blair Witch Project. Persónurnar, fórnarlömbin, eru einar á báti, í náttúrunni, fjarri mannabyggðum. Þegar þangað er komið sæta þeir tilefnislausum, ofsafengnum og óskiljanlegum ofsóknum af hálfu konu.

„Nornin“ í þessu tilfelli er Freydís sjálf, sem í öðrum Grænlendingasögum er óneitanlega skörugleg, en er hér orðin algerlega tryllt. Boð hennar til Helga og Finnboga um sameiginlega landnámsferð var í raun ekkert annað en yfirskin, til að geta lokkað þá frá mannlegu samfélagi, einangrað þá, ofsótt og myrt, og stolið öllum þeirra eignum. Sumarið líður, og illska og svik Freydísar í þeirra garð koma æ betur í ljós, allt þar til hún beitir útsmognum aðferðum til að fá eiginmann sinn og lið þeirra til að myrða bræðurna og allt þeirra fylgdarlið.

Nú er það svo að ég verð alltaf óskaplega ánægð þegar konur eru í stórum hlutverkum í fornbókmenntum, og skáldskap almennt. Þar af leiðandi finnst mér ágætt að þær séu líka í hlutverki illmenna, því annað myndi benda til þess að konur hefðu mjög afmarkað og stereótýpískt hlutverk í skáldskap. En, stundum eru kvenkyns illmenni bara vottur um kvenhatur og ekkert annað, og ég verð að segja að þessi örsaga um Freydísi er þar á meðal, og nýtur að mínu mati þó nokkurar sérstöðu sem slík í íslenskum miðaldabókmenntum. Illska og fláttskapur hennar á sér nefnilega engar málsbætur, ekki einu sinni rökrænar skýringar í sögunni. Hún er bara viðbjóðslega ill, sem virðist vera sjálfstæð þróun hennar úr „kvenskörungi“ annars staðar í sagnahefðinni. Illska hennar er ekki bara órökrétt og ófyrigefanleg, hún er einnig sérstaklega tengd kvenleika hennar. Þegar Helga, Finnboga og öllu liði þeirra hefur verið slátrað, þá standa konurnar úr hópi þeirra einar eftir, vopnlausar. Karlmennirnir, sem Freydís hefur hingað til stjórnað, geta ekki hugsað sér að drepa þær. En Freydís getur ekki leyft neinum að sleppa. „Fái mér öxi í hönd“ segir hún, gengur að þeim og heggur þær í spað. Öfugt við karlmennina, sem virða þó einhver mörk, þá er ofbeldi Freydísar hömlulaust.

Augljóslega gerðist þetta aldrei, bræðurnir Helgi og Finnbogi eiga sér ekkert ætterni og uppruni þeirra er býsna óljós, þeir eru bara austfirskir. Eftirköst þessara fólskulegu morða eru heldur engin, jafnvel þó sagan spyrjist út þegar Freydís hefur snúið aftur til mannabyggða. En það er einmitt það sem er svo áhugavert við Grænlendingasögurnar, þær eru svo langt frá því að vera sannsögulegar, þær eru fullar af göldrum, furðuverum og almennum skringilegheitum. Lengi vel hvarflaði hins vegar ekki að fólki að lesa þær með slíku hugarfari, þær voru vitnisburður um einstök afrek Íslendinga, landnám Norður-Ameríku! Ég tel þó að lestur þeirra verði töluvert ánægjulegri, og raunsærri, ef við getum lesið þær án þess að vera í stöðugri leit að réttlætingu á íslensku þjóðríki, eða sönnunum fyrir víkinga- og ævintýraeðli okkar sem þjóðar.  En, þegar textinn sem á að leiðbeina okkur er svona gamaldags, hvernig á fólk að geta kveikt á perunni?
Styttan af hvítri móður og barni er jafnvel enn ógeðfelldari í nærmynd. Þessi handleggur!

No comments:

Post a Comment