Friday, March 28, 2014

Reykjavík í dægurtónlist


Alla 20. öldina, og jafnvel allt frá upphafi þeirrar nítjándu, var Reykjavík bitbein í dægurmálaumræðu. Hún naut þess vafasama heiðurs að vera augljósasta birtingarmynd nútímavæðingar og erlendra áhrifa í íslensku samfélagi. Það er eflaust hægt að grípa niður á hvaða áratug sem er í sögu Íslands síðastliðin 150-200 ár og finna umræður um það hvort eitthvað eigi eða megi vera í Reykjavík, hvort sem það er Alþingi, kvennaskólar, Jafnréttisstofa, eða bara fólk.

Sjálf hef ég alloft fengið spurninguna „Hvaðan ert þú svo?“ frá Reykvíkingum sem eru eldri en ég, og þetta finnst þeim greinilega ekki skrítin spurning, þó hún sé borin upp á kaffihúsi í Aðalstræti. Hið rétta svar við þessari spurningu er nefnilega aldrei: „Ha-humm, ég er nú bara ... frá Reykjavík?“ Þannig að ef ég er í kurteisu skapi þá reyni ég að rifja upp dvalarstað einhverrar langömmu eða langafa, til þess að gera þessu fólki kleift að staðsetja mig í heimsmynd sinni.

Reykjavík var lengi, og er jafnvel enn í huga sumra, staður sem fólk kemur til, en ekki staður sem fólk er frá. Líklega eiga barnæskuminningar mjög stóran þátt í því að fólk bindist stöðum tilfinningaböndum, þannig að auk þess að Reykjavík hefði almennt á sér orð (vægrar) spillingar í opinberri umræðu, þá skorti hana lengi sanna fylgismenn. Tvær aldir eru nú samt sem áður býsna langur tími, og það er til töluvert af Reykjavíkurrómantík, svo sem lagið Ó borg mín borg. Það er eitt frægasta lagið með Hauki Morthens og var flutt á seinni hluta 20. aldar. Ég þorði ómögulega að vera nákvæmari því internetið vildi ekki segja mér frá nánari tímasetningu en ábending barst í athugasemdakerfið um að lagið hefði náð vinsældum í síðasta lagi 1954. (Einnig má heyra lagið í flutningi Bjarkar hér, en bloggforritið vill af einhverjum ástæðum ekki birta það almennilega)


En um leið og eitthvað hefur verið gert hátíðlegt er kominn tími til að taka það niður af stallinum og gera eitthvað nýtt. Kannski Reykjavík hafi eftir allt saman notið þeirrar lukku að vera yrkisefni í nokkuð fleiri tónlistarstefnum en flestir aðrir staðir á Íslandi. Veturinn 1981-82 var gerð heimildarmyndin Rokk í Reykjavík, sem hófst á því að hljómsveitin Vonbrigði flutti lag með þeim fallega titli Ó Reykjavík, eftir stutt rímna-intró. Ég hrífst sérstaklega af pönkdansinum í myndbandinu, og er ekki frá því að Íslendingar ættu að taka aftur upp þessa dansstefnu, þar sem hún gæti hentað taktvísi hins almenna Íslendings töluvert betur en flest annað.


Ári áður en ég fæddist gaf Megas svo út lagið Reykjavíkurnætur sem tekst endanlega að sannfæra mig um að Reykvíkingar níunda áratugarins hafi ekki verið jafn hallærislegir og ljósmyndir benda annars eindregið til.


En nú er öldin önnur, það er 21. öldin, og við leyfum okkur að gæla við þá hugmynd að Reykjavík sé alvöru borg, þar sem hæfileikafólk frá öllum heimshornum komi saman í kraumandi menningarpotti til að gera eitthvað geðveikislega töff, milli þess sem við förum í Bónus að kaupa Seríós. Það hefur jafnvel verið birt á prenti á erlendum tungumálum að það sé gaman að djamma í Reykjavík. Það er töff og kosmópólitan að vera siðspilltur Reykvíkingur, svo við skulum bara öll ímynda okkur að við tilheyrum þeim dularfulla hópi.

5 comments:

  1. Þess verður svo að geta að höfundur textans við Ó Reykjavík er skáldkonan Didda. Hér hefur verið gerð tilraun til að skrifa hann upp: http://tungutak.blogspot.com/2009/06/o-reykjavik-me-vonbrigum.html

    ReplyDelete
  2. Skemmtileg grein. Ég skrifaði sjálfur í fyrra pistil á ensku fyrir ferðamannablogg um uppáhaldslögin mín um Reykjavík. Áhugasamir geta nálgast hann hér: https://www.guidetoiceland.is/a75/talk-to-locals/article/einarsteinn/seven-of-my-favorite-songs-about-reykjavik

    ReplyDelete
  3. Ég ætla ekki að brjóta upp munstrið mitt og legg því til annað Þú og Ég lag: https://www.youtube.com/watch?v=slXrizF5pOY

    Kveðja, Salvör V.

    ReplyDelete
  4. Skemmtilegur pistill! Hvað varðar framlag Hauks þá var Ó borg mín borg að minnsta kosti búið að slá í gegn árið 1954. Sjá: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1295909 Kveðja, Unnur María.

    ReplyDelete