Á dögunum heimsótti ég bandarískt byggðasafn sem minnti mig í mörgu á byggðasöfn æsku minnar, nema hvað ég er mun spenntari fyrir erlendri borgarsögu en amboðum úr íslenskri sveit. Safnið er staðsett í Williamsburg-hverfinu í Brooklyn í New York og heitir The City Reliquary. Það er, eins og afgreiðslukonan orðaði það, „safn hinnar gleymdu sögu New York“.
Þetta er lítið safn sem samanstendur af fordyri og tveimur herbergjum. Í framherberginu er safnið sjálft en í bakherberginu eru settar upp tímabundnar sýningar sem tengjast sögu borgarinnar. Í augnablikinu stendur yfir sýning sem fjallar um hjólreiðabrautina sem starfrækt var á Coney Island frá 1930 til 1955; það vill reyndar svo til að hægt er að nálgast allan texta og margar myndir sýningarinnar á netinu, en hún ber titilinn Strong Backs and Weak Minds: The Saga of the Coney Island Velodrome.
Eins og áður segir er safnið byggt upp eins og klassískt byggðasafn, þar úir og grúir af litlum og stórum munum sem hrúgað er saman með misnákvæmu skipulagi. Úti um allt leynast litlir miðar eða stærri blöð með upplýsingum og fræðslu, oftar en ekki í smáu letri sem maður verður að tylla sér á tá eða krjúpa til að geta lesið. Textinn var oft frjálslegri en maður á að venjast á söfnum:
„Very old hammer“ og „very old shovel“
|
Af öðrum munum má nefna handföng úr neðanjarðarlestum, vindlakassalok frá síðustu dögum Fulton-fiskmarkaðarins, stykki úr horfnum byggingum, matseðla af veitingastöðum, dúkkuhandlegg, tusku frá Hótel Savoy og koddaver frá Hótel Plaza. Eins og gefur að skilja getur maður eytt ótrúlega löngum tíma við að skoða safnið, þótt rýmið sé lítið.
Eins og fyrrnefnd orð afgreiðslukonunnar um „hina gleymdu sögu New York“ og ef til vill nafn safnsins sjálfs gefa til kynna er það markað af nokkurri nostalgíu, eftir staðbundnu samfélagi, til dæmis hverfissamfélagi, þessu fyrirbæri sem er sífellt ógnað af hinum ópersónulega nútíma (hann er nefndur á nafn á safninu, en aldrei kapítalismi). „We were here before the neighbourhood was gentrified“, sagði afgreiðslukonan, en það er þróunin sem hefur átt sér stað í Williamsburg-hverfinu síðustu ár. (Þegar ég gúglaði gentrification sá ég að það hefur verið þýtt sem millistéttarvæðing á íslensku, ég heyri það reyndar alltaf fyrir mér með þýskum hreim síðan ég sá þetta myndband.) Þannig reynir safnið til dæmis að varðveita minningar um hverfisfyrirtæki, „kaupmennina á horninu“, sem hafa horfið á brott. Í einu horni framherbergisins hefur verið sett upp gömul rakarastofa úr hverfinu, og fyrir framan sýningarkassann er hægt að fletta albúmi með myndum sem teknar voru á rakarastofunni meðan hún var starfrækt, af litlum, nýklipptum drengjum með foreldrum sínum eða rakaranum sjálfum.
Einnig liggja frammi blaðaúrklippur með umfjöllun um bakarí sem flutti úr hverfinu eftir að nýir eigendur húsnæðisins hækkuðu leiguna og hröktu bakarann á brott, ásamt nokkurra hæða gervimarenstertu sem áður stóð í glugga bakarísins. Bakaríið er kynnt, líkt og hjólreiðabrautin á Coney Island, sem „fórnarlamb sögunnar“ (það er orðrétt úr sýningartextanum um hjólreiðarnar).
Mér fannst þessi nostalgíski tónn skjóta frekar skökku við svona í pólitísku samhengi. Ef maður er ósáttur við eigið samfélagið er nostalgía varla beittasta vopnið í baráttunni fyrir betri framtíð. Hún getur verið indælis tilfinning af og til, en sem hugarfar er hún frekar passív og ógagnrýnin.
Hvað sem því líður þótti mér safnið í Brooklyn afskaplega skemmtilegt og var dauðfegin að hafa stefnt þangað síðasta daginn í New York en ekki á hið tröllvaxna Brooklyn Museum, þótt það hafi vafalaust ýmislegt til síns ágætis. Það var frekar einfalt að komast þangað, með því að taka lestina á Metropolitan Avenue-stöðina, og ég mæli eindregið með því fyrir söguáhugafólk í New York.
No comments:
Post a Comment