Tuesday, August 20, 2013

Andóf gegn manntölum II: Herskátt lýðræði og rökkursvæði í Vestur-Þýskalandi

Hið veika Weimar með augum George Grosz
Fyrir skömmu skrifaði ég grein um það þegar súffragettur andæfðu manntalinu í Bretlandi 1911 og skemmtu sér á hjólaskautum alla nóttina í staðinn. Súffragettur sniðgengu manntalið til að vekja athygli á tvískinnungi í afstöðu stjórnvalda til kvenna, en þær voru ekki á móti manntalinu í sjálfu sér.

Sjötíu árum síðar andæfðu Vestur-Þjóðverjar þarlendu manntali. Mótmælunum í Vestur-Þýskalandi árið 1983 og 1987 var beint gegn sjálfri manntalsskráningunni, þótt þau snerust að vissu leyti einnig um samskipti stjórnvalda og borgaranna.

Breski fræðimaðurinn Matthew Hannah skrifaði fína bók um vesturþýsku manntalsmótmælin fyrir nokkrum árum, Dark Territory in the Information Age. Hannah setur mótmælin í samhengi við hugmyndafræðilega þróun vesturþýska ríkisins eftir seinni heimsstyrjöldina, en stjórnarskráin sem gerð var fyrir Vestur-Þýskaland árið 1949 og stefna ráðamanna eftir stríð var mótuð af reynslunni milli stríða. Það var litið svo á að veikleikar Weimar-lýðveldisins hefðu gert nasistum kleift að notfæra sér verkfæri lýðræðisins til þess að taka völdin. Vesturþýsk stjórnvöld iðkuðu því það sem Hannah kallar „herskátt lýðræði“; lögðu áherslu á styrk ríkisstofnana en síður á pólitíska tjáningu fólksins.

Vesturþýskir ráðamenn voru þvert á móti mjög tortryggnir á þann breiða skala andófshreyfinga sem þreifst í Vestur-Þýskalandi á 7. og 8. áratugnum, svo sem friðarhreyfingar, umhverfisverndarsinna og femínista, en hluti þeirra beitti ofbeldisfullum aðgerðum (þar eru Rote Armee Fraktion sennilega frægust).

Í baráttunni gegn raunverulegum og ímynduðum óvinum ríkisins gripu stjórnvöld til æ umfangsmeira eftirlits og upplýsingasöfnunar um borgarana. Sú þróun í tölvutækni sem átti sér stað á svipuðum tíma gerði þeim kleift að beita æ flóknari aðferðum í úrvinnslu á upplýsingum, svo sem með samkeyrslu ólíkra gagnagrunna.

Þessari tækni var jafnframt beitt í auknum mæli með hinum kunnuglegu „forvirku rannsóknaraðferðum“, það er að segja ekki til að finna ákveðna grunaða einstaklinga heldur til að sía út grunsamlegt fólk með því að byrja vítt og þrengja mengið svo smám saman út frá ýmsum áhættuþáttum; allir liggja undir grun þar til annað kemur í ljós.

Snemma árs 1983 var gert heyrinkunnugt að taka ætti manntal í Vestur-Þýskalandi, en fljótlega hófust mótmæli gegn manntalsskráningunni sem breiddust hratt út. Í mars sagðist fjórðungur fullorðinna Vestur-Þjóðverja í skoðanakönnun mögulega myndu sniðganga manntalið. (Þess má geta að mótmælin áttu sér fyrirmynd í Hollandi, en þarlend stjórnvöld höfðu ákveðið að hætta við manntal árið 1971 vegna mótmæla almennings.)

Hverju sætti þessi mikla andstaða við manntal í Vestur-Þýskalandi? Það var ýmislegt sem kom til, og misjafnt hvort andstæðingar manntalsins voru á móti manntalinu í sjálfu sér eða einungis framkvæmd þess; hvort þeir litu svo á að smætting mannlífsins í tölfræðilegt form væri óhjákvæmilega eða einungis mögulega hættuleg.

Róttækir gagnrýnendur manntalsins héldu því fram að lýðfræði og neikvæð félagsleg stýring væru bundin órjúfanlegum böndum. Aðrir beindu gagnrýni sinni fyrst og fremst að því hvernig upplýsingarnar yrðu geymdar og hverjir hefðu aðgang að þeim.

Eitt af því sem stjórnvöld hugðust gera við manntalið 1983 var að nota það til að leiðrétta heimilisfangaskrár sem ríkið hélt úti (þeir sem hafa einhvern tímann þurft að anmelda sig á þýsku meldeamti kannast við fyrirbærið) og talið var að væru orðnar ónákvæmar. Manntalið yrði tengt við heimilisfangaskrárnar og þar með var aukin hætta á því að upplýsingar þess yrðu persónurekjanlegar, en árið 1976 hafði vesturþýska þingið hafnað upptöku persónunúmera þar sem það taldi þau ganga gegn stjórnarskránni.

Hollerith-spjaldskrárvélin frá IBM
Vofa nasismans hafði áhrif á deilurnar um manntalið á 9. áratugnum eins og oft á þýska pólitík. Ekki einungis hafði fortíð Þýskalands áhrif á afstöðu vesturþýskra ráðamanna til pólitísks andófs og viðbrögð þeirra við því, heldur vísuðu andstæðingar manntalsins gjarnan til Þriðja ríkisins sem lifandi dæmis um hættulega notkun manntalsskráningar.

Nasistar tóku manntal strax eftir að þeir komust til valda árið 1933 og aftur árið 1939. Manntalið var þeim mjög mikilvægt sem grundvöllur fyrir ýmsar sértækari skrár sem gerðu þeim kleift að skipuleggja herkvaðningu og iðnað, fylgjast með og stjórna „lýðheilsu“ út frá kynþáttasjónarmiðum, og síðast en ekki síst að flytja burt og útrýma gyðingum og öðrum óæskilegum hópum. Fyrrnefnd heimilisfangaskrá var nasistum jafnframt mikilvæg og þeir nýttu sér mjög tækninýjungar tímabilsins, einkum í formi Hollerith-vélarinnar frá IBM.

Það lágu því ýmsar ástæður að baki hinum víðtæka stuðningi við manntalsandófið í Vestur-Þýskalandi. Flestir sameinuðust um að sniðganga manntalið opinskátt; að neita að taka við eyðublöðunum sem dreift var, eða skila inn auðum eyðublöðum sem búið væri að klippa heimilisföngin af, í staðinn fyrir mildari leið sem gekk út á að fylla eyðublaðið út með röngum upplýsingum. Síðarnefnda leiðin var öruggari fyrir þátttakendurna, þar sem erfiðara var að rekja óhlýðnina, en gerði mönnum erfiðara fyrir að dæma umfang mótmælanna.

Það voru þó ákveðnir gallar á opinberum mótmælum; Jochen Bölsche, ritstjóri Der Spiegel, vakti til dæmis athygli á því að þannig væri stjórnvöldum gert kleift að búa til fullkomnustu mögulegu skrá yfir andófsfólk í Vestur-Þýskalandi! Og viti menn, lögreglan átti eftir að skapa einmitt slíkan „andófsgagnagrunn“ úr niðurstöðum manntalsins þegar það var loks tekið.

Það komu reyndar fram enn fleiri hugmyndir um andófsaðferðir; ein snerist til dæmis um að gefa stjórnvöldunum það sem þau kröfðust – upplýsingar – en í slíku magni að það útilokaði alla úrvinnslu, það er að segja að þekja eyðublöðin með óumbeðnum persónulegum upplýsingum: mér hefur alltaf þótt dökkt súkkulaði betra en ljóst, þegar ég var lítil átti ég frosk sem hét Hans...

Við erum ekki talin, dagar ykkar eru taldir
En manntalið 1983 fór aldrei fram. Nokkrir andstæðingar þess gripu til þess ráðs að kæra manntalið til stjórnlagadómstóls Vestur-Þýskalands og í apríl, rétt áður en talning átti að hefjast, skipaði dómstóllinn svo fyrir að manntalinu skyldi frestað. Í desember dæmdi stjórnlagadómstóllinn svo hluta manntalsins ógildan og vesturþýsk stjórnvöld neyddust til að hefja gerð nýs manntals, þar sem athugasemdir dómstólsins höfðu verið teknar til greina.

Á manntalinu urðu síðan ýmsar tafir, en því var hrint í framkvæmd árið 1987. Aftur var manntalsskráningunni mótmælt harkalega og um 1-2% Vestur-Þjóðverja eru taldir hafa sniðgengið manntalið, en sennilega voru enn fleiri sem gáfu rangar upplýsingar. Margir höfðu treyst á það að dómstólar hefðu ekki bolmagn til að sekta alla sem neituðu að svara manntalinu, en það reyndist  rangt. Þegar hinar skyndilegu lýðfræðilegu breytingar urðu með sameiningu Þýskalands fáeinum árum síðar var enn verið að framfylgja sektum og jafnvel fangelsisdómum fyrir að sniðganga manntalið.

Eins og áður segir er það ólíkt með manntalsandófi Vestur-Þjóðverja á 9. áratugnum og andófi súffragetta 1911 að vesturþýska andófsfólkið – eða allavega hluti þess – var á móti sjálfri manntalsskráningunni. Þó telur Matthew Hannah að rétt eins og andóf súffragetta tengdist gagnrýni þeirra á skort kvenna á borgararéttindum – „women do not count, neither shall they be counted“ – hafi manntalsandófið í Vestur-Þýskalandi tengst þróun nýrrar tegundar af borgararétti.

Þar styðst Hannah einkum við tvö hugtök, „þekkingarlegt fullveldi“ (e. epistemic sovereignty) og „upplýsingalegan borgararétt“ (e. informational citizenship). Þekkingarlegt fullveldi lýsir rétti ríkisins til að vita hvað gerist innan marka þess, en borgararnir beita upplýsingalegum borgararétti til að hafa áhrif á upplýsingasöfnun ríkisins, til að varðveita þau rökkursvæði sem vísað er til í bókartitli Hannah, og ögra þar með þekkingarlegu fullveldi þess.

Að kjósa ekki eða skila auðu í fulltrúalýðræði kapítalískra, vestrænna ríkja í dag, segir Hannah, er vissulega pólitísk yfirlýsing, en yfirleitt ekki stundað í svo stórum stíl að það hafi nein áhrif á fyrirkomulagið sjálft. Það er hins vegar hægt að eyðileggja manntal með mun fámennara andófi, enda þjónar það einungis tilgangi sínum ef næstum því allir svara, og svara rétt.

Með því að andæfa manntalinu er hinu passíva hlutverki þess sem lætur telja sig breytt í aktíva pólitíska yfirlýsingu, lýðurinn er ekki lengur óvirkt viðfang lífvaldsins – enda var andófsfólkið í Vestur-Þýskalandi sakað um að grafa undan lögmæti ríkisins. (Matthew Hannah bendir líka á dæmi um pólitískar aðgerðir sem miða þvert á móti að því að ákveðnir hópar séu taldir, til dæmis samtök í Mumbai sem hafa framkvæmt eigin manntöl í fátækrahverfum til að vekja athygli á skorti á hreinlætisaðstöðu og húsaskjóli.)

Hannah lýsir því svo að manntalsandófið í Vestur-Þýskalandi hafi legið á milli pólitískra hreyfinga 7. og 8. áratugarins annars vegar og aldar internetsins og hnattvæðingarinnar á 10. áratugnum hins vegar. Á 9. áratugnum hafi enn verið rökrétt að beina spjótum sínum að ríkinu sem hinum tölvuvædda Stóra bróður, enda var það leiðandi í fyrstu skrefum tölvutækninnar og upplýsingasöfnun og gagnavinnsla ekki í höndum einkaaðila og stórfyrirtækja eins og við þekkjum í dag.

Hannah lítur svo á að manntalsmótmælin geti vísað veginn til frekari pólitískra aðgerða í framtíðinni, en ræðir í sjálfu sér ekki hvaða merkingu fyrrnefnd þróun tölvutækninnar hefur. Hann lýsir því þannig að manntalsandóf Vestur-Þjóðverja hafi ekki bara snúist um að hafna afhjúpuninni sem falin var í manntalinu heldur að krefjast þess að afhjúpunin færi fram á forsendum einstaklinganna sjálfra. Það sem skipti máli sé að fólk hafi sjálft flokkunar- og skilgreiningarvaldið yfir sjálfu sér; hann nefnir dæmi frá Bretlandi og Ástralíu 2001 og 2002 þar sem fjöldi manns tók sig saman og skilgreindi sig sem Jedi-trúar á manntalseyðublöðum.

Þjóðverjar mótmæltu einnig evrópska manntalinu 2011:
Viljið þið hina algjöru skráningu?
Sé hins vegar litið til þess hve fúslega flestir deila upplýsingum um sjálfa sig á netinu, til dæmis í gegnum samskiptasíður, sem markaðsfyrirtæki og aðrir aðilar geta síðan notað í ýmsum tilgangi, má velta því fyrir sér að hversu miklu gagni það komi sem andóf þótt tryggt sé að afhjúpunin fari fram á forsendum hvers og eins fyrir sig.

Matthew Hannah vitnar til orða Ruth Leuze, lögfræðings hjá vesturþýskri persónuverndarstofnun, sem benti á það árið 1985 að atburðir á borð við manntöl, sem vekja athygli hvers einasta borgara á persónuverndarmálum, séu sjaldgæfir, og oftar en ekki fari slík upplýsingasöfnun fram bak við tjöldin án þess að þeir sem upplýsingum er safnað um geri sér grein fyrir því. Í rauninni eru manntöl smám saman að verða hluti af slíkri upplýsingasöfnun. Þótt manntalsskráningarmenn sem ganga hús úr húsi séu enn á ferðinni í mörgum löndum fækkar þeim annars staðar.

Á Íslandi minnkaði þörfin fyrir manntöl mikið þegar Þjóðskrá var stofnuð árið 1952, en hún geymir allar grundvallarupplýsingar um íbúa landsins. (Þjóðskrá hefur, frá því um það leyti sem manntalinu var mótmælt í Vestur-Þýskalandi, notast við kennitölukerfi sem hefði eflaust ekki staðist vesturþýsku stjórnarskrána.)

Árið 2011 var tekið manntal á Íslandi í fyrsta sinn síðan 1960, en það var eftir fyrirmælum Evrópusambandsins, sem hefur skuldbundið aðildarlönd sín og EFTA til að taka manntöl á tíu ára fresti. Þar sem Þjóðskrá og aðrar stofnanir bjuggu þegar yfir öllum nauðsynlegum upplýsingum var manntalið skráartengt á Íslandi, það er að segja, fyrirliggjandi gögn frá ýmsum stofnunum voru notuð til að fylla það út. Ólíklegt er að margir Íslendingar hafi tekið eftir þessari manntalsskráningu, eða lesið orðfáa opnubæklinginn Manntal 2011 sem er að finna rafrænt á heimasíðu Hagstofunnar, og þaðan af síður hafa þeir látið sér detta í hug að andæfa því.


Heimildir:
Hannah, Matthew G., Dark Territory in the Information Age. Learning from the West German Census Controversies of the 1980s. Farnham og Burlington 2010
Manntal 2011. Reykjavík 2011

No comments:

Post a Comment