Sunday, August 4, 2013

Ljósbláa lesbíubókmenntagabbið um Bilitis og óvænt áhrif þess

Ég hef verið hugmyndalaus undanfarið og ætla því að rekja ákveðinn þráð sem ég annars rakti (á hálfgerðu hundavaði) í BA-ritgerðinni minni. Ritgerðin fjallar um viðtökusögu grísku skáldkonunnar Saffóar frá Lesbos, en sökum Saffóar eru lesbíur kallaðar lesbíur (lesbia á grísku þýðir einfaldlega "kona frá Lesbos", og er þar vísað í Saffó.) Saffó skrifaði sem sagt hómóerótísk kvæði til kvenna, en geymd kvæðanna er afar slæm og brotakennd og er því hægt að lesa í eyðurnar í höfundaverkinu með ýmsum hætti, bæði til þess að gera hana að kynlausri veru, heiðvirðri, giftri og gagnkynhneigðri konu, eða jafnvel að fantasíulesbíu. Ég ætla hér að taka dæmi um hið síðastnefnda.

Síðla á 18. öld í Frakklandi var farið að bera á umfjöllun um annars afskaplega tabú umræðuefni, samkynhneigð kvenna. Yfirleitt var fjallað um efnið í tengslum við Saffó, sem léði því ákveðna fjarlægð og ákveðinn menningarlegan anda. Til dæmis kom út klámbæklingur árið 1793 (eða "á öðru ári Franska lýðveldisins" eins og það er orðað) sem hét "Hin nýja Saffó, eða saga andkarlsafnaðarins" (La nouvelle Sapho, ou histoire de la secte anandryne). Þar segir frá ungri franskri sveitastúlku sem er tekin inn í ógnvænlegan lesbíusöfnuð í París, sökum þess hve "djöfullegan sníp" hún hefur (un clitoris diabolique!) Eða eins og Madame Furiel, forstöðukona safnaðarins, segir við sveitastúlkuna: "Sjálf Saffó hafði hann ekki fegurri - þú munt verða mín Saffó!"



Söfnuðurinn er kallaður "Lesbosarskálinn" og er gætt af tröllvöxnum konum; engum karlmönnum er hleypt nálægt, og sem prófraun fyrir inngöngu í hann er Saffó hin unga látin halda eldi logandi í herbergi fullu af typpamyndum; deyi eldurinn væri það tekið sem dæmi um að hún hefði ekki enn losað sig við löngunina í karlmenn. Fyrri helmingi bókarinnar lýkur á því að hið mjög svo dekadent lesbíusamfélag leysist upp í heljarinnar orgíu sem er stríðnislega ekki lýst.

Þessi furðulega saga sýnir ágætlega á hvaða nótum umfjöllunin um samkynhneigð kvenna var: Lituð af gríðarlegri forvitni en jafnframt ótta og margskonar ranghugmyndum. Það að umræðuefnið væri komið upp á yfirborðið var þó ýmsum inspírasjón, og sá sem er frægastur fyrir að vekja athygli á því er franska skáldið Charles Baudelaire.

Baudelaire gaf árið 1857 út sína frægu bók Les Fleurs de Mal, eða Blóm illskunnar, með herkjum og eftir ritskoðun. Bókin átti nefnilega upprunalega að heita Les Lesbiennes ("Lesbíurnar"), en bæði var titlinum breytt og nokkur kvæði tekin út sem fjölluðu hvað helst um dekadent, samkynhneigðar konur með "sokkin augu" sem hlæja "villtum hlátri sem ber af sorgargráti keim"; þær eru "æstar í eigið hold" og "strjúka mjúkum ávöxtum þroska síns" o.s.frv. Oft kemur Saffó fyrir í kvæðunum sem sjálf frumlesbían og svo Baudelaire sjálfur, sem notar þetta umfjöllunarefni til þess að upphefja sjálfan sig sem hugrakkt ungskáld sem hlær að borgaralegu siðferði. Þetta er voðaleg hlutgerving, eins og augljóst er, en Baudelaire taldi sig vera að gera lesbíunum gagn: Hann væri að hylla þær, þótt það væri raunar fyrir lítt annað en að sýna sjálfan sig í góðu ljósi.

Í Þýskalandi á sama tíma kom upp reaksjón gegn þessari sýn á Saffó og á samkynhneigð. Þýskir fræðimenn geystust fram á ritvöllinn til þess að hrekja það að Saffó hafi elskað konur; hún hafi þvert á móti verið hrein og ættgöfug kennslukona ungra stúlkna í kórsöng. Samkynhneigð kvenna væri ónáttúra sem kæmi aðeins upp á hinum óheilbrigðustu stöðum á hinum siðlausustu tímum (og var þá væntanlega verið að vísa í Frakkland og dekadent-hreyfinguna.)

Þetta vildi franski höfundurinn Pierre Louÿs (borið fram eins og Louis) ekki heyra og stakk ofan í Þjóðverjana með stórmerkilegu gabbi, sem hann kallaði Chansons de Bilitis (Söngvar Bílitisar), og kom út árið 1894. Bókin gaf sig út fyrir að vera þýðing Louÿs á nýuppgötvuðum, eldfornum handritum frá Lesbos, sem geymdu erótísk, lesbísk kvæði eftir konu að nafni Bílitis; á þessum tíma voru einmitt papýrusar og handrit frá gríska menningarsvæðinu til forna að uppgötvast í nokkrum mæli og eftirvæntingin mikil. Í inngangi bókarinnar vísar Louÿs mikið í rannsóknir þýska fræðimannsins G. Heim, sem hefði staðfest að ljóðin væru raunveruleg. Úr G. Heim er nokkuð auðvelt að sjá þýska orðið geheim, eða "leyndur", enda var enginn raunverulegur G. Heim til. Hneykslaðir þýskir fræðimenn birtu lærðar greinar þar sem þeir hröktu það að kvæðin væru raunveruleg; Louÿs svaraði stríðnislega með því að vísa í þessar sömu greinar í heimildaskrá síðari útgáfa bókarinnar, líkt og þær væru til að styðja tilvist Bílitisar en ekki til að hrekja hana; líklega versta martröð þessa grandvöru fræðimanna!

Ljóðin sem í bókinni birtast eru ljósblátt, gjörsamlega karlmiðað lesbíuklám. Bókin hefst t.d. á ljóði sem byrjar og endar á þessum erindum:

Ég fór úr fötunum til þess að klifra upp í tré; nakin læri mín föðmuðu börkinn sleipa og vota; sandalar mínir gengu eftir greinunum.

...

Ég skynjaði lífið í trénu fagra er vindurinn gekk í gegn um það; þá þrýsti ég fótleggjunum fastar saman og lét opnar varirnar snerta loðinn hálsinn á greininni.


Myndskreyting úr bókinni. Bílitis á greininni góðu.
Svo mörg voru þau orð. Bílitis eltist við kærustuna sína Mnasidíku (nafnið er sótt í brot eftir Saffó) á skemmtilegan hátt. Kvæðin koma í tímaröð: Kynferðisleg spenna byggist upp, þær mega ekki sofa saman því það er trúarleg hátíð í gangi, en svo lýkur hátíðinni og þá kemur ljóðið "Rúmið" eða Le lit, sem Louÿs lætur sér nægja að birta titilinn á, og undir orðin non traduite ("óþýtt"). Hér er sömu aðferð beitt og í gömlu klámbókinni: Lesandanum er strítt með því að sleppa aksjóninu og honum leyft að ímynda sér það í staðinn. Söngvar Bílitisar endar svo á sama hátt og klámbókin góða; Bílitis endar ævi sína sem hofvændiskona á Kýpur, þar sem hún sefur hjá karlmönnum.

Seint verður bókin raunverulega talin sanngjörn í garð samkynhneigðra kvenna; lesbíur eru hlutgerðar eins og venjulega. En Louÿs taldi sig engu að síður mikinn baráttumann fyrir samkynhneigðar konur, og tileinkaði bókina "ungu stúlkunum úr framtíðarsamtökunum". Þá voru náttúrulega samtök sem börðust fyrir réttindum samkynhneigðra kvenna langt í framtíðinni. Þetta herkall varð þó lesbísku skáldkonunni Natalie Clifford Barney (1876-1972) innblástur; hún tileinkaði bók sína Cinq petits dialogues grecques honum Louÿs, með undirskriftinni "stúlka úr framtíðarsamtökunum". Hún og kærasta hennar Renée Vivien, sem var einnig skáldkona, gerðu upp stúdíóíbúð í París við Rue Jacob 20 á vinstri bakka Signu og stofnuðu þar salon fyrir samkynhneigðar konur; þær settu upp grískar súlur, styttu af Saffó, altari og legubekki. Það eru óneitanlega skondin líkindi milli þessa og Lesbosarskálans úr klámbókinni.

Sömuleiðis ferðuðust Barney og Vivien til Lesbos og ætluðu þar að stofna lesbískan skáldahring eins og á þeim tíma var talið að hefði verið til í kring um Saffó til forna (í raun eru engin sönnunargögn fyrir neinu slíku.) Sú tilraun fór út um þúfur en þó myndaðist í kring um þær ákveðin bókmenntaleg hreyfing hjá lesbískum skáldkonum, sérstaklega á frönsku; var sú hreyfing síðar nefnd Sapho 1900. Louÿs tókst því stórvel strax frá byrjun að styrkja samkynhneigðar konur með bók sinni, þótt ólíklegt kynni að virðast.

En allra óvæntustu áhrif þessa ágæta gabbs hans Louÿs komu síðar. Fyrstu bandarísku samtökin sem börðust fyrir réttindum samkynhneigðra kvenna voru stofnuð í San Francisco árið 1955, eftir langa og harkalega baráttu. Þau voru nefnd Daughters of Bilitis. "Framtíðarsamtökin" voru orðin að veruleika.

Heimildir:

No comments:

Post a Comment