Friday, February 7, 2014

Æviminningar karla af Skarðsströnd II: Ísland er sálnamorðingi

Sætur kall. Mynd úr Þjóðviljanum 11. nóvember 1981
Er þá komið að annarri færslu í bloggsyrpunni Æviminningar karla af Skarðsströnd.

Magnús Blöndal Jónsson (1861-1956) á það sameiginlegt með höfundinum sem fjallað var um í fyrri færslu, séra Friðriki Eggerz á Ballará, að hafa verið prestur, og æviminningar Magnúsar voru einnig gefnar út í tveimur þykkum bindum – Bernska og námsár og Prestur og bóndi – sem telja samanlagt um sjöhundruð síður og eru þó ekki nema þrír fimmtu hlutar þess texta sem Magnús lét eftir sig.

Það var Sigfús Daðason sem gaf út æviminningar Magnúsar að honum löngu látnum árið 1980, en þær voru ritaðar fjörutíu árum fyrr. Eiginkona Magnúsar var þá orðin svo heilsulítil að hann gat ekki farið frá henni, en kunni illa við að sitja iðjulaus. Þar sem hann taldi að hann myndi „innan skamms verða að hreinum ræfli“ ef hann færi að stunda tímadráp á borð við rómanalestur tók hann til við að skrifa æviminningar sínar í staðinn, og það er satt að segja ótrúlegt hvað þessi aldraði maður lýsir nákvæmlega atburðum, fólki og staðháttum úr bernsku sinni.

Endurminningar séra Friðriks Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar, eru frekar köflóttar og nokkrir kaflar afspyrnu leiðinlegir, en höfundurinn nær sér jafnan á strik aftur með hnyttinni gamansögu eða ljúfsárum hugleiðingum um lífsins gang. Það er til hagræðingar fyrir lesendur að leiðinlegu kaflarnir í endurminningum séra Magnúsar eru allir í seinna bindinu. Af vísindalegum metnaði plægði ég í gegnum þau bæði en ég held að mér sé óhætt að mæla eingöngu með fyrra bindinu, séu lesendur ekki þeim mun áhugasamari um búnaðarhætti og heimilisbókhald á Austurlandi á fyrri hluta 20. aldar.

Í fyrra bindi æviminninga sinna segir Magnús hins vegar frá bernsku sinni og ungdómsárum, en það tímaskeið í lífi hans var mun dramatískara en farsæll búskapur hans sem prestur í Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Réðist það ekki síst af þeim vandræðum sem persónuleikabrestir og almenn ógæfa föður hans, séra Jóns Bjarnasonar, bökuðu fjölskyldunni. Margt kom þar til. Séra Jón hefur greinilega verið þunglyndur – hugsjúkur, segir Magnús þegar hann lítur til baka – lá stundum lengi í rúminu og sinnti búskapnum almennt illa, með þeim afleiðingum að hungrið svarf að fjölskyldunni. Hann átti það einnig til að barna aðrar konur en sína eigin og það átti sinn þátt í því flakki sem einkenndi líf fjölskyldunnar.

Séra Jón Bjarnason. Mynd úr Lesbók
Morgunblaðsins
21. ágúst 1966
Þegar Magnús fæddist bjuggu foreldrar hans austur á landi, en faðir hans var fyrst prestur í Meðallandi og síðan undir Eyjafjöllum. Hann var sjálfur ættaður úr Húnavatnssýslunum en móðir Magnúsar, Helga Árnadóttir, var að austan. Þar fæddust öll börnin, en Magnús átti þrjú systkini sem komust til fullorðinsára: Elínu, sem var fimm árum eldri en hann, Bjarna, tveimur árum yngri, og Helga, sex árum yngri.

Meðan fjölskyldan bjó fyrir austan eignaðist séra Jón allavega tvö börn með annarri konu. Lagðist hann þá í rúmið í „geðveiklunar-örvæntingu“ en eiginkona hans fór af stað að finna feður handa börnunum. Segir Magnús að það hafi verið auðsótt því hún hafi verið svo elskuð af sóknarbörnunum, sem viltu allt fyrir hana gera. (Innskot frá séra Friðriki Eggerz: Hann segir sögu af vinnumanni sem var fenginn til að gangast við barni undan einhverjum sveitarhöfðingja – það var allt saman skráð í kirkjubækurnar en alþýðan gleymdi ekki svo glatt og gekk maðurinn eftir þetta undir nafninu „Guðmundur faðir“.)

Sama ár og yngsti sonurinn Helgi fæddist fluttist fjölskyldan norður í Hrútafjörð, þar sem séra Jón varð prestur á Prestbakka. Hann fór fljótlega að halda við vinnukonu á bænum og að lokum fór svo að hann missti hempuna fyrir barneign utan hjónabands. Helga eiginkona hans gat ekki eða vildi ekki losa hann úr snörunni það skiptið, en hann hafði, með orðum Magnúsar, „sent hana frá sér“ á annan bæ þegar hann hóf samband við hina konuna. Eftir þetta skildu þau hjónin, en börnin fylgdu föður sínum.

Þau bjuggu fyrst á aumu kotbýli í Haukadal í Dalasýslu, síðan á tveimur bæjum á Skógarströnd á Snæfellsnesi, þá við Ísafjarðardjúp (en séra Jón hafði þá fengið uppreisn æru og brauð í Ögurþingum) og loks á Skarðsströnd, eftir að séra Jón fékk veitingu fyrir Skarðsþingum. Á Skarðsströnd bjó fjölskyldan lengst af á bænum Níp (oft skrifað Nýp), en sama ár og Magnús fór að heiman tvítugur að aldri fluttust faðir hans og systkini að Vogi á Fellsströnd og við þann bæ er Bjarni, hinn frægari bróðir Magnúsar, kenndur.

Níp eða Nýp á Skarðsströnd. Þar er nú unnið að uppbyggingu lista- og fræðaseturs.
Íbúðarhúsið er frá 1936. Myndin er tekin héðan.
Undir lok fyrra bindis lítur Magnús til baka yfir æskuár sín og gerir upp málin við föður sinn í áhrifaríkum kafla. Samúð sögumanns hefur fram að því öll verið með móður hans, blíðlyndri konu sem var í raun úthýst úr fjölskyldunni við skilnaðinn. Upp frá því var hún ráðskona hjá einhleypum bændum víðs vegar um Breiðafjörð og sá börnin sín örsjaldan. Þegar þau uxu úr grasi og vildu heimsækja móður sína reyndi séra Jón jafnvel að koma í veg fyrir það. Þau fengu hins vegar að fara í betliferðir á aðra bæi þegar búskussinn faðir þeirra var orðinn matar- og mjólkurlaus.

Að leiðarlokum leggur Magnús sig þó fram um að skilja föður sinn og framferði hans: „Að skilja allt er að fyrirgefa allt. Enginn verður sakaður um það sem honum er ósjálfrátt.“ (272) Afstaða Magnúsar til sannleikans minnir á Friðrik Eggerz: „Þar um kynni einhver að segja, að oft mætti satt kyrrt liggja, og að frásögnin sé ekki vansalaus fyrir föður minn. Jú, það er einmitt í þessu, sem sársaukinn er innifalinn. En mín skoðun er sú, að annað hvort eigi að rita sögu rétt eða alls eigi rita.“ (61) Séra Jón hafi verið veikur og honum hafi oft liðið illa, og það hafi meðal annars staðið í tengslum við þá staðreynd að hann var á kolrangri hillu í lífinu.

Magnús lýsir föður sínum sem stórgáfuðum manni, sem hafi fyrst og fremst verið góður kennari, en hafði enga skipulags- eða verkstjórnarhæfileika, enga fyrirhyggju eða yfirhöfuð nokkra þá eiginleika sem prýða góðan bónda. Frammi fyrir því verkefni hafi hann einfaldlega gefist upp, og látið reka á reiðanum. Það eru auðvitað ekki allir jafn vel til búskapar fallnir, en á Íslandi á 19. öld var um fátt annað að ræða, og þótt séra Jón hafi verið skólagenginn var hann ekki efnaður. Fósturjörðin fær enda kuldalegar kveðjur frá honum. Þegar Ísland eða íslensk málefni bar á góma lét hann falla orð sem voru „fá og í fullri meiningu, þessi: „Ísland er sálnamorðingi.“ Skildi eg þau svo, að landið gæti ekki veitt mönnum það starf eða lífskjör, er þeir væru skapaðir fyrir.“ (271)

Þær þröngu skorður sem fólki voru settar í þessu samfélagi endurspeglast ekki síður í hlutskipti kvennanna í sögunni, Helgu móður Magnúsar og Elínar systur hans. (Það er annað dæmi um þeirra stöðu í samfélaginu að ég fann engar myndir af þeim á Tímarit.is, öfugt við bræðurna og séra Jón - það eru hins vegar myndir af þeim í bókinni.) Helga bjó fyrst í erfiðu hjónabandi, þar sem eiginmaður hennar sýndi henni litla ástúð og eignaðist ítrekað börn með öðrum konum. Að lokum skildu þau, að því er virðist að hans frumkvæði, og þá beið hennar fátt annað en vinnuhark hjá vandalausum, fjarri börnunum, en yngsti sonur hennar var bara smábarn þegar hún skildi við hann.

Kvennaskólinn í Reykjavík var í þessu sögufræga húsi
við Austurvöll til 1909. Mynd tekin héðan
Þegar Helga fór af heimilinu tók Elín, sem elsta og eina systirin, við húsfreyjuhlutverkinu, en hún var þá um fermingu. Því hlutverki sinnti hún síðan. Þegar hún var um tvítugt komst hún á kvennaskóla Þóru Melsteð í Reykjavík sem svokölluð heimastúlka, en þær gátu unnið fyrir sér í skólanum. Þegar hún kom heim um sumarið höfðu orðið á henni breytingar: „Hún sjálf var eins og létt hefði verið af henni fargi, frjálslegri, glaðari og líflegri en hún hafði áður verið. [...] Það var um tíma eins og nýtt líf og vottur af æskufjöri kæmi með henni inn á heimilið. Ég sagði: um tíma. Því að þegar frá leið, dofnaði þetta og kafnaði að miklu leyti í búverkabaslinu, sem lá allt of þungt á henni.“ (245-246) Séra Jón var oft á flakki vegna embættisstarfa sinna og bræðurnir voru frjálsari að bregða sér af bæ, en Elín var bundin við störfin heima á Níp.

Upp úr 1880 gerði Elín tilraun til að vinna fyrir sér með saumum í Reykjavík ásamt vinkonu sinni að vestan, Ólínu Guðbrandsdóttur frá Hvítadal í Saurbæ. Það reyndist hins vegar of erfitt „fyrir einstæðar stúlkur að vinna sig upp í Reykjavík á þeim tímum“ (336) svo Elín fór aftur vestur og bjó á Fellsströnd upp frá því, ógift og barnlaus. Ólína leitaði aftur á móti gæfunnar í Ameríku og rak þar meðal annars greiðasöluhús, komst í dálítil efni og eignaðist jarðir. Þótt Magnús tali um líf systur sinnar eins og þar hafi verið fátt um sólskin og gleði virðast sýslungar hennar þó hafa metið hana að verðleikum, upp að einhverju marki allavega. Í grein eftir Hannes Jónsson í Lesbók Morgunblaðsins frá 1966 segir að það hafi verið setið um hana að „kenna dætrum á höfðingjasetrum og auðmanna heimilum í Dölum og Breiðafjarðareyjum“.

Bjarni frá Vogi. Mynd af
Alþingisvefnum
Allir bræðurnir þrír, Magnús, Bjarni og Helgi, fóru í framhaldsnám og urðu vel metandi menn. Auk þess að verða prestur var Magnús mikill bóndi, góður smiður og sjómaður. Það skín í gegnum alla frásögnina hvílíkt yndi hann hefur af hvers konar verkstjórn og búrekstri. (Þegar hann var orðinn búandi maður tók hann Helgu móður sína til sín og hún bjó hjá honum þar til hún lést í hárri elli árið 1920.) Bjarni fór utan til framhaldsnáms í klassískum fræðum og þýsku og varð háskólakennari, þingmaður og ritstjóri – og léði vindlategund nafn sitt. Helgi varð fyrsti íslenski doktorinn í náttúrufræði.

Að lokum má geta þess að höfundur æviminninga karla af Skarðsströnd númer eitt, séra Friðrik Eggerz, er á sínum stað í endurminningum Magnúsar (í fyrra og seinna bindi). Magnús ber Friðriki vel söguna, þrátt fyrir að hann hafi staðið í langvinnum deilum við séra Jón Bjarnason um smjör, og vill „láta illa umtalaðan mann njóta sannmælis.“ (215) Friðrik bjó á þessum tíma í Akureyjum hjá syni sínum, Pétri Eggerz, en síðar fluttist hann aftur upp á ströndina og bjó sem hálfgerður einsetumaður í Hvalgröfum. Það er að segja utan einn vetur, þegar gamli maðurinn tók sig upp, þá kominn yfir áttrætt, og vildi prófa að búa í Reykjavík. Ekki bjó hann þar hjá fjölskyldu sinni í bænum heldur einn sér í leiguherbergi. Eitthvað finnst mér dásamlegt við þessa vetursetu séra Friðriks í stórborginni, en rétt eins og Elín Jónsdóttir sá hann fram á að geta ekki framfleytt sér þar, flutti aftur vestur og lést þar nokkrum árum síðar.

No comments:

Post a Comment