Monday, February 17, 2014

Stubbur og óvæntir ættfeður hans

Síðasta sumar dvaldi ég í borg allra borga, hinni kátu Berlín, og frænka mín notaði tækifærið til að heimsækja borgina í fyrsta sinn. Einn heitan júlídag skelltum við okkur til Potsdam að skoða hallirnar – og hófst þá hið langa ferli sem lýkur með þessari bloggfærslu.

Þessa mynd tók Sigrún frænka.
Potsdam er gamall bær skammt fyrir utan eða inni í Berlín. Þar var lengi aðsetur þjóðhöfðingja Prússlands og síðar hins sameinaða Þýskalands, með tilheyrandi konungshöllum og hallargörðum sem sveittur túristapöpullinn getur nú í anda lýðræðislegri tíma trampað um og potað í með skítugum puttunum. Eins og lög gera ráð fyrir heitir aðalhöllin frönsku nafni: Sanssouci (en það orð lærði ég fyrst sextán ára gömul á snyrtivörukynningu, sem heiti á dagkremi). Sanssouci í Potsdam er laglegt, gullskreytt rókókóflipp frá 18. öld og var sumarhöll Friðriks annars Prússakeisara. Meðal þess sem prýðir garðana kringum höllina er nokkuð sem mig hafði lengi langað að sjá með eigin augum og gladdi mig sérstaklega þennan júlídag: rústirnar á Ruinenberg.

Ég veit ekki hvað er best að kalla þetta fyrirbæri á íslensku. Um er að ræða tilbúnar rústir, rústir af til dæmis rómverskum hofum og egypskum píramídum, nema hvað rústirnar hafa aldrei verið rómversk hof eða egypskir píramídar (enda ekkert endilega í Egyptalandi eða á fornu yfirráðasvæði Rómverja), heldur voru þær sérstaklega hannaðar sem garðaprýði heldra fólks. Í Sanssouci eru svona rústir, á hæð sem hefur hreinlega verið nefnd Ruinenberg, og blasir sérstaklega fallega við sumarhöll Friðriks keisara.

Útsýnið frá Sanssouci yfir Ruinenberg
Þar sem ég mundaði myndavélina og lýsti ánægju minni fyrir frænku minni tók hún sig til og trompaði hrifningu mína af hinum tilbúnu rústum með sögu af ennþá brjálaðra hugðarefni fyrirmenna á 18. öld. Eitt af því sem aðallinn vildi gjarnan hafa í stóru görðunum sínum, sagði hún mér, voru einsetumenn – svokallaðir ornamental hermits. Þetta voru menn sem voru ráðnir sérstaklega til að gegna hlutverki einsetumanna sem bjuggu í einsetumannakofum á landareignum aðalsmanna, sinntu eða þóttust sinna heimspekilegum íhugunum, og stigu svo fram við gestakomur og veislur, sýndu einsetumannslegt útlit sitt og létu kannski falla nokkur tilvistarleg gullkorn.

Dr. Gordon Campbell
Upp frá þessum degi gat ég ekki hætt að hugsa um þessa einsetumenn sem hafðir voru til skrauts í hallargörðunum. Mér þótti því mikil gæfa að komast að því að einmitt á síðasta ári kom út fyrsta fræðiritið um þetta fyrirbæri: The Hermit in the Garden. From Imperial Rome to the Ornamental Gnome eftir enska sagnfræðinginn Gordon Campbell. Campbell hefur meðal annars sérhæft sig í sögu landslagsarkitektúrs og svo skemmtilega vill til að hann lítur út eiginlega alveg eins og lítill garðálfur. Um jólin þurfti ég að panta tvær bækur á netinu fyrir MA-ritgerðina mína og lét undan þeirri freistingu að panta tvær í viðbót um sérviskulegri áhugamál – og fékk, mér til mikillar gleði, mínar fjórar bækur um klám, rusl og einsetumenn.

Gordon Campbell hefur bók sína á nokkurn veginn sama stað og ég var á í Potsdam þegar frænka mín sagði mér fyrst frá einsetumönnunum: er þetta í alvöru? Heimildirnar um slíka einsetumenn eru fáar og dreifðar og oft aðeins í formi sögusagna en þeim hafði ekki verið safnað saman áður eða gerð tilraun til að meta umfang þeirra. Bók dr. Campbell er því sannkölluð tímamótarannsókn, en það má lýsa niðurstöðum hans svo að sem hluti af landslagsarkitektúr síðari alda hafi einsetumannabústaðir (e. hermitages) í raun verið algengari en einsetumennirnir sjálfir.

Einsetumenn voru til í kaþólska heiminum, trúaðir menn sem bjuggu við aðskilnað frá öðrum mönnum á þeim forsendum að þannig kæmust þeir í nánara samband við guðdóminn, ekki ósvipað og klausturbúar. Slíkir einsetumenn voru að mestu horfnir á 18. öld, en þá komu fram nýjar hugmyndir í evrópskri garðahönnun sem kenndar hafa verið við enska garðinn. Fram að því hafði franski garðurinn verið ráðandi, en hann einkenndist af nákvæmu skipulagi og symmetrískum formum. Í enska garðinum var áherslan hins vegar á rómantískar hugmyndir um náttúruna a la Rousseau, sem voru meðal annars tjáðar með fyrrnefndum tilbúnum rústum. En rómversku hofin og egypsku píramídarnir voru ekki alltaf rústir einar, stundum voru byggingarnar í fullri reisn, og meðal þessara bygginga (sem á ensku kallast follies) voru einsetumannabústaðirnir. Fyrir stórjarðeigendunum var rómantískur blær yfir hlutskipti þess sem dró sig í hlé frá heimsins glaumi til að íhuga hinar stærri spurningar lífsins, og einsetumannabústaðir vöktu fagra melankólíu í brjóstum þeirra sem þangað komu.

Campbell lýsir ljóðinu Il Penseroso eftir John Milton sem "the founding
text of the eighteenth-century cult of melancholy". Þetta er síðasta erindið.
Campbell tínir til nokkrar 18. aldar auglýsingar eftir einsetumönnum til að dvelja í til þess gerðum einsetumannabústöðum á landareignum aðalsmanna. Þær kveða margar á um að í sjö ár megi einsetumennirnir hvorki skerða skegg sitt né neglur og ekki hafa samskipti við annað fólk. Hins vegar bendir fátt til þess samkvæmt dr. Campbell að nokkur hafi gegnt slíku starfi til lengdar. Oftast var það þannig að fólk lét byggja einsetumannabústaði á landareign sinni og síðan gegndu gestgjafarnir sjálfir, eða menn þeim tengdir, hlutverki einsetumannsins þegar gesti bar að garði, eða látið var líta út fyrir að einsetumaðurinn hefði rétt brugðið sér frá (algengt var að á borðinu lægju gleraugu, stundaglas og hauskúpa), eða það var komið upp einhvers konar mekanískri fígúru sem hreyfði sig jafnvel og talaði, fór kannski með tilvistarlegt ljóð.

Einsetumannsbústaður í Tollymore á Norður-Írlandi. Myndin er fengin héðan.
Í þessum einsetumannsbústað vinar síns í Friars Carse í Skotlandi orti
Robert Burns ljóðið Verses in Friars´ Carse Hermitage. Myndin er héðan.
Þannig er niðurstaða bókarinnar ákveðið antíklímax fyrir áhugafólk um aðkeypta einsetumenn. Viðfangsefnið virkar við fyrstu sýn mögulega það fyndnasta í heimi, en dr. Campbell virðist sérlega meðvitaður um þessa freistingu og heldur næstum algjörlega aftur af sér þegar kemur að tækifærum til þess að bregða fyrir sig galgopalegu gríni.

Þrátt fyrir fjarveru einsetumannanna sjálfra lætur hann ekki bugast og tekur í bókinni saman afar vandað yfirlit yfir einsetumannabústaði á Bretlandseyjum, með fjölmörgum myndum, auk þess að rekja sögulegan aðdraganda þeirra og samhengi. Bókinni fylgja tveir viðaukar, listi yfir einsetumannabústaði á Bretlandseyjum og listi yfir einsetumannabústaði á meginlandi Evrópu. (Þar komst ég að því að það er raunar að finna niðurníddan einsetumannsbústað í hallargörðunum í Potsdam. Á Norðurlöndunum eru þrír einsetumannabústaðir: í Fagervik í Finnlandi og á Austur-Gotlandi og í Upplöndum í Svíþjóð, auk Louisenlund á hinu glataða danska yfirráðasvæði Slésvík-Holstein sem nú tilheyrir Þýskalandi.)

Þessi fjarlæga yfirvegun er auðvitað skynsamleg nálgun hvers fræðimanns sem fjallar um svo flippað viðfangsefni; einsetumannabústaðirnir sem prýddu hallargarða aðalsins á 18. og 19. öld voru hluti af ákveðnu hugmyndasögulegu samhengi sem ekki er hægt að afgreiða sem eitthvert rugl, þótt það hafi vissulega verið fyndið – og svo því sé haldið til haga fannst mörgum samtíðarmönnum það líka. Hins vegar rekur Campbell heimildir sínar svo nákvæmlega og svo samviskusamlega að það er á köflum hreinlega leiðinlegt, og hefði allavega mátt skipuleggja það aðeins betur til að drepa ekki alveg áhuga lesandans.

Campbell nær sér hins vegar á strik í síðasta kaflanum, þar sem hann fjallar um arftaka hins tilbúna einsetumanns í nútímanum og þarf ekki lengur að gæta orðspors fortíðarinnar. Hann segir til dæmis frá samtímalistamönnum sem hafa gert tilraunir með einsetulifnað og framið gjörninga í slíkum anda, eða látið nægja að innlima einsetumanninn í málverk sín, eins og myndlistarmaðurinn Geraint Evans gerir í verki sínu Ornamental Hermit:


Hann rekur ennfremur tengsl einsetumannsins í garðinum við það viðkunnanlega fyrirbæri garðdverga, sem áður þóttu glæsilegt garðskraut en hafa ekki yfir sér sömu reisn í dag (enda hafa víða sprottið upp samtök sem hafa það að markmiði að frelsa garðálfa undan kúgun sinni (franska deildin er á Facebook)).

Þessi drykkfelldi en geðgóði garðálfur, Stubbur, settist að á
landareign Smjörfjallspennanna Þorsteins og Ragnhildar sumarið 2013
Meðal þeirra aðalsmanna sem söfnuðu garðdvergum í fullri alvöru á 19. öld var Sir Frank Crisp, en hann stillti garðdvergaher sínum upp undir glæstri eftirlíkingu af Matterhorn á landareign sinni. Sá staður heitir Friar Park og er frægastur fyrir að hafa síðar komist í eigu Bítilsins George Harrison. Harrison og eiginkona hans gerðu garðana upp og tókst að safna saman þó nokkru af garðdvergasafni Sir Frank, sem hafði fallið í gleymskunnar smekklausa dá. Dvergarnir prýða framhliðina á plötu Harrison frá 1970, All Things Must Pass.

Um George Harrison og garðdvergana segir Gordon Campbell:

"The interest of the Beatles in the Transcendental Meditation movement led by Maharishi Mahesh Yogi had its distant origins in the contemplative ideals associated with the garden hermit, and the image of George Harrison posing with gnomes that represented the spirits of the underground recalls the Enlightenment ideal of man connected with nature." (193)

No comments:

Post a Comment