Þessa mynd tók Sigrún frænka. |
Ég veit ekki hvað er best að kalla þetta fyrirbæri á íslensku. Um er að ræða tilbúnar rústir, rústir af til dæmis rómverskum hofum og egypskum píramídum, nema hvað rústirnar hafa aldrei verið rómversk hof eða egypskir píramídar (enda ekkert endilega í Egyptalandi eða á fornu yfirráðasvæði Rómverja), heldur voru þær sérstaklega hannaðar sem garðaprýði heldra fólks. Í Sanssouci eru svona rústir, á hæð sem hefur hreinlega verið nefnd Ruinenberg, og blasir sérstaklega fallega við sumarhöll Friðriks keisara.
Útsýnið frá Sanssouci yfir Ruinenberg |
Dr. Gordon Campbell |
Gordon Campbell hefur bók sína á nokkurn veginn sama stað og ég var á í Potsdam þegar frænka mín sagði mér fyrst frá einsetumönnunum: er þetta í alvöru? Heimildirnar um slíka einsetumenn eru fáar og dreifðar og oft aðeins í formi sögusagna en þeim hafði ekki verið safnað saman áður eða gerð tilraun til að meta umfang þeirra. Bók dr. Campbell er því sannkölluð tímamótarannsókn, en það má lýsa niðurstöðum hans svo að sem hluti af landslagsarkitektúr síðari alda hafi einsetumannabústaðir (e. hermitages) í raun verið algengari en einsetumennirnir sjálfir.
Einsetumenn voru til í kaþólska heiminum, trúaðir menn sem bjuggu við aðskilnað frá öðrum mönnum á þeim forsendum að þannig kæmust þeir í nánara samband við guðdóminn, ekki ósvipað og klausturbúar. Slíkir einsetumenn voru að mestu horfnir á 18. öld, en þá komu fram nýjar hugmyndir í evrópskri garðahönnun sem kenndar hafa verið við enska garðinn. Fram að því hafði franski garðurinn verið ráðandi, en hann einkenndist af nákvæmu skipulagi og symmetrískum formum. Í enska garðinum var áherslan hins vegar á rómantískar hugmyndir um náttúruna a la Rousseau, sem voru meðal annars tjáðar með fyrrnefndum tilbúnum rústum. En rómversku hofin og egypsku píramídarnir voru ekki alltaf rústir einar, stundum voru byggingarnar í fullri reisn, og meðal þessara bygginga (sem á ensku kallast follies) voru einsetumannabústaðirnir. Fyrir stórjarðeigendunum var rómantískur blær yfir hlutskipti þess sem dró sig í hlé frá heimsins glaumi til að íhuga hinar stærri spurningar lífsins, og einsetumannabústaðir vöktu fagra melankólíu í brjóstum þeirra sem þangað komu.
Campbell lýsir ljóðinu Il Penseroso eftir John Milton sem "the founding text of the eighteenth-century cult of melancholy". Þetta er síðasta erindið. |
Einsetumannsbústaður í Tollymore á Norður-Írlandi. Myndin er fengin héðan. |
Í þessum einsetumannsbústað vinar síns í Friars Carse í Skotlandi orti Robert Burns ljóðið Verses in Friars´ Carse Hermitage. Myndin er héðan. |
Þrátt fyrir fjarveru einsetumannanna sjálfra lætur hann ekki bugast og tekur í bókinni saman afar vandað yfirlit yfir einsetumannabústaði á Bretlandseyjum, með fjölmörgum myndum, auk þess að rekja sögulegan aðdraganda þeirra og samhengi. Bókinni fylgja tveir viðaukar, listi yfir einsetumannabústaði á Bretlandseyjum og listi yfir einsetumannabústaði á meginlandi Evrópu. (Þar komst ég að því að það er raunar að finna niðurníddan einsetumannsbústað í hallargörðunum í Potsdam. Á Norðurlöndunum eru þrír einsetumannabústaðir: í Fagervik í Finnlandi og á Austur-Gotlandi og í Upplöndum í Svíþjóð, auk Louisenlund á hinu glataða danska yfirráðasvæði Slésvík-Holstein sem nú tilheyrir Þýskalandi.)
Þessi fjarlæga yfirvegun er auðvitað skynsamleg nálgun hvers fræðimanns sem fjallar um svo flippað viðfangsefni; einsetumannabústaðirnir sem prýddu hallargarða aðalsins á 18. og 19. öld voru hluti af ákveðnu hugmyndasögulegu samhengi sem ekki er hægt að afgreiða sem eitthvert rugl, þótt það hafi vissulega verið fyndið – og svo því sé haldið til haga fannst mörgum samtíðarmönnum það líka. Hins vegar rekur Campbell heimildir sínar svo nákvæmlega og svo samviskusamlega að það er á köflum hreinlega leiðinlegt, og hefði allavega mátt skipuleggja það aðeins betur til að drepa ekki alveg áhuga lesandans.
Campbell nær sér hins vegar á strik í síðasta kaflanum, þar sem hann fjallar um arftaka hins tilbúna einsetumanns í nútímanum og þarf ekki lengur að gæta orðspors fortíðarinnar. Hann segir til dæmis frá samtímalistamönnum sem hafa gert tilraunir með einsetulifnað og framið gjörninga í slíkum anda, eða látið nægja að innlima einsetumanninn í málverk sín, eins og myndlistarmaðurinn Geraint Evans gerir í verki sínu Ornamental Hermit:
Hann rekur ennfremur tengsl einsetumannsins í garðinum við það viðkunnanlega fyrirbæri garðdverga, sem áður þóttu glæsilegt garðskraut en hafa ekki yfir sér sömu reisn í dag (enda hafa víða sprottið upp samtök sem hafa það að markmiði að frelsa garðálfa undan kúgun sinni (franska deildin er á Facebook)).
Þessi drykkfelldi en geðgóði garðálfur, Stubbur, settist að á landareign Smjörfjallspennanna Þorsteins og Ragnhildar sumarið 2013 |
Um George Harrison og garðdvergana segir Gordon Campbell:
"The interest of the Beatles in the Transcendental Meditation movement led by Maharishi Mahesh Yogi had its distant origins in the contemplative ideals associated with the garden hermit, and the image of George Harrison posing with gnomes that represented the spirits of the underground recalls the Enlightenment ideal of man connected with nature." (193)
No comments:
Post a Comment