Friday, February 14, 2014

Fyrsta föstudagslag: The Letter

Í dag hefur göngu sína nýr fastur liður á Smjörfjalli sögunnar: föstudagslagið. Hvað er betra á föstudegi en létthristur kokkteill af sögu og grúvi?

Fyrsta föstudagslagið er mikið uppáhaldslag Smjörfjallspenna: The Letter. Lagið var fyrst hljóðritað af memphísku hljómsveitinni The Box Tops árið 1967, og var samið af tónlistarmanninum Wayne Carson Thompson sem gerði nokkur lög fyrir sveitina. Söngvarinn Alex Chilton, þótt ótrúlegt megi virðast, var sextán ára gamall þegar hann söng lagið.


Lagið náði strax gríðarlegum vinsældum og seldist í meira en milljón eintaka. Mjög fljótlega fóru aðrir tónlistarmenn að taka The Letter og árið 1979 var talið að meira en tvö hundruð ólíkar upptökur af því hefðu verið gerðar. Smjörfjallspennar vilja benda á nokkrar uppáhaldsábreiður sínar. Þær eru:

Útgáfan með sálargoðinu Al Green, sem kom út á þriðju plötu hans Green Is Blues árið 1969:


Green tekur lagið í sálar- og gospelátt, drifið áfram af hinni frægu ryþmasveit Hi Records, plötufyrirtækis Green. Breski rokktónlistarmaðurinn Joe Cocker tók það svo alla leið í rokkextravagansi á tónleikum sem voru gefnir út á mynd og plötu undir nafninu Mad Dogs and Englishmen árið 1970. Cocker veifar höndum eins og hann sé að fara yfirum (eins og venjulega) og blásarar og hippalegur gospelkór keyra upp stemminguna:


Og loks er lagið tekið í glæsilega diskóátt hjá Dionne Warwick!


Eigið grúví föstudag!

No comments:

Post a Comment