Friday, April 4, 2014

Fimmta föstudagslag: Ungmennin frá Ipanema

Hverjum aðdáanda brasilíska tónlistarmannsins António Carlos Jobim er það sársaukafull staðreynd að mikill fjöldi fólks tengir hann einkum við lyftutónlist. Hið brasilíska bossanova er oftar en ekki svo unaðslega kliðmjúkt að illar sálir hafa gert sér far um að spila það við sem lágkúrulegastar aðstæður, í verslunarmiðstöðvum og á vondum veitingastöðum þar sem yfirmenn hafa lært mannauðsstjórnun. Þar má aumingja Jobim rekast innan um panflaututónverk og hroðann úr væmnum ballöðulistamönnum sem vinsælir eru á Bylgjunni og öðrum einkareknum útvarpsstöðvum.

Hvað um það. Þekktasta lag Jobim er án efa lagið um stúlkuna frá Ipanema og þekktasta útgáfa þess er jafnframt ein sú besta. Þar leikur saxófónleikarinn Stan Getz undir söng hjónakornanna Astrud og João Gilberto:


Lagið er af hinni rómuðu plötu Getz/Gilberto frá 1964, en þar unnu Stan Getz og João Gilberto með António Carlos Jobim og kynntu bossanova-tónlistina fyrir bandarískum hlustendum. Astrud Gilberto söng tvö undurfögur lög á plötunni, The Girl from Ipanema og Corcovado. Hún hafði ekki mikla reynslu sem söngkona og það var hálfgerð tilviljun að hún skyldi syngja á plötunni. Almannarómur hefur viljað útskýra þátttöku hennar með ástarsambandi hennar við Stan Getz, en þótt hún sé óþjálfuð stendur hún fyrir sínu og ásamt eiginmanni sínum ljær hún lögum Jobim einmitt þann milda tón sem þau þarfnast. Platan Getz/Gilberto sló rækilega í gegn og er í dag talin með mikilvægari verkum bossanova-hefðarinnar.

Enski textinn sem Astrud Gilberto syngur er eftir Bandaríkjamanninn Norman Gimbel. Portúgalski textinn við Garota de Ipanema er hins vegar saminn af höfuðsnillingnum Vinicius de Moraes. Hann starfaði mikið með Jobim og var sjálfur tónlistarmaður. Auk samstarfsins við Jobim starfaði Vinicius de Moraes mikið með söngkonunni Mariu Creuza og söngvaranum og gítarleikaranum Toquinho, en eftir þau þrjú liggja margar óviðjafnanlegar upptökur. Meðal þeirra laga sem þau fluttu saman er lagið um stúlkuna frá Ipanema:


The Girl from Ipanema hefur síðar verið koverað af ýmsum listamönnum. Smjörfjallið hlýtur að sjálfsögðu að hampa henni Amy okkar Winehouse sem söng það með sínum kærulausa sjarma, blessuð sé minning hennar:


Önnur heillandi og þrítyngd útgáfa er með Dionne Warwick og hinum vinalega Sacha Distel (sem einkum er þekktur fyrir flutning sinn á laginu Raindrops keep falling on my head), þar sem þau vísa einnig til annarra laga eftir Jobim:


Textinn fjallar um unga og þokkafulla stúlku sem gengur um Ipanema-hverfið í Rio de Janeiro og vekur tregafulla þrá í brjósti áhorfandans. Sumar söngkonur hafa þó ekki kunnað við að syngja þennan ástaróð til stúlkunnar frá Ipanema, og sérkennileg hliðarútgáfa hefur unnið sér sess: lagið um The Boy from Ipanema. Hann er ekki „tall and tanned and young and lovely“ heldur „tall and tanned and young and handsome“. Og það eru altso stelpurnar sem „go ah“ þegar hann fer hjá. Þannig syngja hinar óviðjafnanlegu Julie London og Ella Fitzgerald það til dæmis:



Þessi textabreyting hefur alltaf farið hrikalega í taugarnar á mér, en ég reyni að hugga mig við að þótt lýsingarorðum sé hnikað til renna stúlkan og pilturinn frá Ipanema að miklu leyti saman. Fegurð þeirra vekur greinilega sömu angurværu tilfinninguna í brjóstum söngvara og söngkvenna. Enda verður textinn þá fyrst asnalegur þegar maður hlustar á dönsku söng- og leikkonuna Vivi Bach syngja hann á þýsku, í þessu undarlega myndbandi:


Að lokum finnst mér rétt að birta eina útgáfu úr töluvert ólíkri átt, en það er instrumental útgáfa með bandaríska djasssaxófónleikaranum Archie Shepp:

No comments:

Post a Comment