Friday, April 11, 2014

Sjötta föstudagslag: Sometimes I feel like a motherless child

Það er fátt sem kemur jafn rækilega út á mér gæsahúðinni og dimmar bassaraddir. Þið getið því ímyndað ykkur áhrifin sem flutningur hins merka söngvara, leikara, lögfræðings, íþróttamanns og pólitíska aktívista Paul Robeson á föstudagslagi dagsins hefur á ungmeyjarlegt taugakerfi mitt:


Galdurinn liggur auðvitað ekki bara hjá Paul Robeson. Negrasálmurinn Sometimes I feel like a motherless child er með fegurri lögum - og ég kalla eftir upplýsingum um það hvort hugtakið negrasálmur sé enn í almennri notkun. Sálmurinn er tengdur aðstæðum og örlögum bandarískra blökkumanna órjúfanlegum böndum, þessi tregafulli söngur barnsins sem hefur verið slitið frá móður sinni og móðurlandi. Faðir Paul Robeson var fæddur í þrælahaldi en slapp þaðan á unglingsaldri og var orðinn prestur í Princeton þegar Paul fæddist árið 1898.

Fjöldinn allur af hæfileikaríkum listamönnum hefur gert sálminn að sínum gegnum tíðina. Svo skemmtilega vill til að meira að segja okkar eigin Egill Ólafsson er talinn upp með þeim listamönnum sem flutt hafa lagið á Wikipediusíðu þess, en það á að hafa komið út á disknum Örlög minn.

Söngkonan Odetta á hins vegar verðskuldað eina af frægustu útgáfum lagsins, sem tekin var upp á tónleikum hennar í Carnegie Hall árið 1960:


Mahalia Jackson gerði fína útgáfu þar sem hún fléttar laginu saman við aðra klassík, Summertime eftir George Gershwin:


Tvær af mínum uppáhalds útgáfum eru með sömu söngkonunni, þótt ólíkar séu. Hér syngur Liz Mitchell lagið með hljómsveitinni Les Humphries Singers:


Hér syngur hún svo sama lag með hljómsveitinni sem hún varð frægust fyrir að tilheyra, snillingunum í Boney M:


Það er viðeigandi að fulltrúi 10. áratugarins sé Ghostface Killah, af plötunni Ironman frá 1996:

 
Þessari föstudagsfærslu lýkur hins vegar á hinum fræga performansi Richie Havens frá Woodstock-hátíðinni 1969, en útgáfa hans á laginu hefur einnig gengið undir nafninu Freedom og hljómaði meðal annars í kvikmynd Quentin Tarantino, Django Unchained, sem kom út fyrir tveimur árum og væri nú ásamt Inglourious Basterds efni í sérstaka færslu um sögulega aðferðafræði í kvikmyndum.

Richie Havens var fenginn til að vera opnunaratriðið á Woodstock og vegna tafa annarra tónlistarmanna endaði hann á að spila í næstum þrjá klukkutíma. Þar á meðal spann hann gamla sálminn um móðurlausa barnið.

No comments:

Post a Comment