Friday, April 18, 2014

Sjöunda föstudagslag: Fagra Vermaland

Glæsileg og sjarmerandi kona, Monica. Myndin er frá Aftonbladet
Um þessar mundir er sýnd í Bíó Paradís kvikmyndin Monica Z. Hún fjallar um sænsku söngkonuna Monicu Zetterlund og hefur einkum vakið athygli á Íslandi fyrir þá staðreynd að aðalleikararnir eru íslenskættaðir. Ég fór að sjá myndina í vikunni og hef verið á sannkölluðu Monicu-fylleríi síðan, sem er nú ekki leiðinlegasta fyllerí sem hægt er að fara á.

Monica Zetterlund var fædd árið 1937 og sló í gegn í Svíþjóð um 1960 - tók meðal annars þátt í Eurovision fyrir hönd Svíþjóðar árið 1963 og fékk ekki eitt einasta stig. Hún vann með mörgum af fremstu djassistum síns tíma, en frægust er hún fyrir samstarf sitt við Bill Evans. Þau gerðu saman plötuna Waltz for Debby árið 1964, en titillagið syngur Monica reyndar á sænsku, sem Monicas vals. Á lýðnetinu er að finna mjög skemmtilega upptöku af flutningi þeirra á laginu. Myndin Monica Z segir aðeins frá fyrri hlutanum af ævi og ferli Monicu Zetterlund, en síðustu árin var hún orðin sjúklingur og lést árið 2005. Ævisaga hennar er til á bókasafni Norræna hússins; Þórdís Gísladóttir skrifaði um hana á Druslubækur og doðranta fyrir nokkrum árum.

Uppáhaldslagið mitt í myndinni var tvímælalaust tregasöngurinn Trubbel eftir Olle Adolphson:


Ég komst hins vegar fljótlega að því að engin útgáfa af Trubbel jafnast á við útgáfu Monicu og því hentaði það ekki nógu vel sem föstudagslag. Í staðinn valdi ég annað lag úr hennar sarpi, sænska þjóðlagið Ack Värmeland, du sköna.


Það er viðeigandi á þessum langa, sænska föstudegi að hafa Jussi Björling líka með. Hann hef ég aldrei hlustað sérstaklega á, en verður jafnan hugsað til hans við lestur bóka Henning Mankell, því hundurinn hans Wallander lögreglumanns heitir Jussi í höfuðið á stórtenórnum.


En þessi ástaróður til Vermalands - þar sem Monica Zetterlund var fædd og uppalin, í smábænum Hagfors, sem fær reyndar frekar kaldar kveðjur í kvikmyndinni - hefur verið víðförull í tónlistarheiminum. Fjölmargir djasstónlistarmenn hafa flutt lagið undir enska titlinum Dear Old Stockholm, reyndar svo margir að til þess að koma öllum þeim bestu að þarf ég að velja sérstaklega útgáfur þar sem þeir spila saman.

Stan Getz ku vera einn sá fyrsti til að hafa djassað lagið upp, en seinni kona Getz var sænsk og hann bjó um tíma í Svíþjóð. Hér er silkimjúk flutningur hans og Chet Baker á Dear Old Stockholm:


Hér leiða aðrir tveir risar, John Coltrane og Miles Davis, saman hesta sína:


Þegar ég byrjaði að raula Ack Värmeland, du sköna þekktu aldraðir foreldrar mínir það undir tveimur íslenskum nöfnum. Önnur útgáfan kallast Kynntumst fyrst í Keflavík og mun allavega hafa verið flutt af Ragnari Bjarnasyni, ef ekki hreinlega sjálfum Hljómum, en hana finn ég ekki á netinu. Revía með þessu nafni var flutt í Keflavík árið 1989 og miklu fyrr, eða árið 1956, birti tímaritið Vikan texta undir þessu nafni í Póstinum, án þess að geta nafns textahöfundar:

Við kynntumst fyrst í Keflavík
hún Kata mín og ég,
á Kvennaskólastígnum
undir hólnum.

Öllum var hún fremri,
svo fríð og yndisleg,
svo björt og glöð
á nýja, græna kjólnum.

Það hoppaði í mér hjartað,
er hönd hún rétti mér.
Í hnjánum fann ég titring
og sálin varð sem smér,
en síðan er ég allur annar maður.

Þó virðist lagið enn fyrr hafa verið flutt á íslensku sem Ég vil fá mér kærustu eða Ég þarf að fá mér kærustu, og hafa bæði Indriði Einarsson og Jónas Jónasson frá Hrafnagili verið bendlaðir við þýðinguna. Á síðari árum er þessi útgáfa sennilega þekktust á Íslandi í reggískotnum flutningi Hjálma.

No comments:

Post a Comment