Þetta er þriðja og síðasta færslan í bloggseríunni Æviminningar karla af Skarðsströnd í bili, eða þar til einhver bendir mér á fleiri æviminningar karla af Skarðsströnd. Ég er við símann núna (þrjár stuttar, ein löng).
Bókin sem hér um ræðir er langstyst þeirra þriggja sem um hefur verið fjallað (aðeins 187 síður með nafnaskrá), langnýjust (útgáfuár 2003) og sú eina sem rituð er af öðrum en viðfangi sögunnar (Finnboga Hermannssyni). Sá sem ævi sinnar minnist er Steinólfur Lárusson (1928-2012), bóndi í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, og titill bókarinnar er Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal.
Þetta var fyrsta bókin sem ég las af þeim þremur sem ég hef fjallað um og sú eina sem ég hafði lesið áður, hún er auðlesnust og langsamlega jafnskemmtilegust. Sagan er sögð af Steinólfi í fyrstu persónu, skrásetjarinn heldur sér til hlés í frásögninni, sem er blæbrigðarík og fyndin. Bókina prýða margar myndir af Skarðsströndinni og persónum og leikendum vestra.
Þeir séra Friðrik Eggerz og séra Magnús Blöndal Jónsson, sem áður hefur verið fjallað um í þessari bloggseríu, voru menn gamla tímans. Þótt Magnús Blöndal lifði lengur á 20. öldinni en þeirri 19. hikaði hann til að mynda ekki við að hneykslast ef vinnufólkið þekkti ekki stöðu sína. Foreldrar Steinólfs Lárussonar komu einnig „beint út úr steinöldinni, höfðu verið alin upp við lífshætti og vinnubrögð sem tíðkast höfðu frá landnámstíð á Íslandi. Allt byggðist á líkamlegu atgervi fólks og heilsufari. Verkfærin voru þau sömu og feðgarnir á Bergþórshvoli notuðu við að bera skarn á hóla.“ (11-12)
Og þótt gamli tíminn ynni sumar orrusturnar („Faðir minn hafði þá kenningu að vísasti vegurinn til þess að verða búskussi og drullusokkur væri að fara á búnaðarskóla“ (43)) var stríðið tapað og nútíminn kominn til að vera og flutti með sér Willysjeppa og bíó. Steinólfur segir frá því að í miðju kalda stríðinu hafi honum áskotnast að láni kvikmyndasýningarvél og kvikmyndir frá Menningarsamtökum Íslands og Rússlands, sem hann sýndi í stofunni í Ytri-Fagradal. Bændur komu hvaðanæva að úr sveitinni í verstu hríðarveðrum til að komast á bíó. Steinólfur prófaði líka að sýna amerískar myndir en „fólki fannst þær að öllu leyti verri en þær rússnesku. Þær gersku voru einhvern veginn nær hokrinu okkar hér í Dalasýslu og þar mátti sjá bændur að sökkva í dý á rússajeppum sínum líkt og okkur Dalamenn hér í Saurbænum þar sem voru mýrar stórfelldlegar.“ (78)
Sérstaða Steinólfs í samfélaginu er gegnumgangandi þráður í bókinni. Hann byrjaði til dæmis snemma að setja spurningarmerki við það forna búskaparlag og þá rótgrónu stéttaskiptingu sem hann upplifði á Skarðsströndinni í æsku sinni. „Þegar ég lít um öxl finnst mér sem ég hafi frá upphafi staðið til hliðar og á skjön við það samfélag sem ég ólst upp í,“ segir Steinólfur á blaðsíðu 73.
Kannski er tilvitnuninni aftan á bókarkápunni ætlað að kallast á við þetta, en þar segir: „Steinólfur er maður allra tíma. Hann er rödd hrópandans, algjör nauðsyn, nú þegar fennir yfir flest og allir vilja ganga í sömu átt.“ Mér hefur alltaf verið uppsigað við þessa tilvitnun. Með hinu sakleysislega orði „nú“ finnst mér gefið í skyn að neikvæð þróun hafi átt sér stað, að áður fyrr hafi þetta ekki verið svona, þá hafi ekki fennt yfir flest og allir hafi ekki viljað ganga í sömu átt. Það er nostalgíuþefur af þessu.
Byltingarmaðurinn |
„Ég skynjaði vel fötlun hans og aðstæður í óblíðri veröld, þegar hann reyndi að grípa í verk um hábjargræðistímann til að vinna sér inn einhverja skildinga. Hann var þá löngu fluttur suður og hafði þegar gefið út fyrstu ljóðabók sína. ... Það gaf auga leið að maður sem gat ekki hnikað til sementspoka var ekki hátt skrifaður af samfélagi þar sem líkamsburðir höfðu löngum skilið milli feigs og ófeigs. Þar af leiddi að hann vogaði sér lítt að flíka skáldskap sínum hér um slóðir.“ (37-38)
Þrátt fyrir erfiðleika Steins og þá biturð sem Steinólfur telur að þeir hafi valdið honum orti Steinn manna fegurst um Breiðafjörðinn:
Þykir mér á þessum slóðum
þrengjast hagur.
Fáir meta ljóðalestur,
langar mig í Dali vestur.
Sama er mér hvað sagt er hér
á Suðurnesjum.
Svört þótt gleymskan söng minn hirði,
senn er vor í Breiðafirði.
Þessi erindi úr Hlíðar-Jóns rímum komu út þremur árum eftir að Steinn var í sementspokaburði með Steinólfi á Skarðsströndinni.
Vinur vor séra Friðrik Eggerz á einnig sinn stað í bók Steinólfs. Jófríður, amma Steinólfs, var ráðskona hjá honum þegar hann var orðinn gamall maður og bjó einsetulífi í Hvalgröfum á Skarðsströnd. Jófríður var „þriggja gusu kona, en það voru þær konur kallaðar sem höfðu þrjár heyflygsur á lofti í einu þegar þær rökuðu ljá“. (21) Hún „fór á fætur klukkan sex á morgnana á meðan hún lifði og taldi það sérstaka ómennsku að sofa meira en þrjá tíma um heyannir“. (25) Ekki hafði vist hennar hjá séra Friðriki verið mjög ljúf. Á hverjum morgni þurfti Jófríður að klæða hann í ferna ullarsokka og almennt að vera til taks allan sólarhringinn. Hann var mjög tortryggið gamalmenni, einkum og sér í lagi á kaffiaustur, og þegar gestir komu að Hvalgröfum gaf hann ráðskonunni til kynna með bendingum og ræskingum hvort viðkomandi væri þess verður að vera boðið kaffi.
Ein fyndnasta saga bókarinnar er þó frá þeim árum þegar Steinólfur gegndi stöðu héraðslögregluþjóns í sveitinni. Þar segir frá því „þegar flytja þurfti aldraða konu úr Dalasýslu á sjúkrahúsið á Akranesi, sem var fjórðungssjúkrahúsið á Vesturlandi. Þegar upp í Bröttubrekku kom gaf gamla konan upp andann. Var þá snúið við í Búðardal og lögreglubílnum lagt á hefðbundnu bílastæði við lögreglustöðina. Urðu nú vaktaskipti hjá lögregluþjónum og tóku nýir menn við síðla kvölds því nú var helgi og skyldi haldið á ballvakt. Þegar leið á nóttina þurfti að taka mann úr umferð, eins og fara gerði á böllum. Hann var meðfærilegur og var því ekki járnaður, eins og kallað er á lögreglumáli, en lagður snyrtilega til aftur í lögreglubílnum. Þegar hann fór að ranka við sér og jafna sig á leiðinni heim í Búðardal tók hann til við að mæla samferðakonu sína máli. Til þess var tekið hvað honum þótti konan köld og fráhrindandi. Komst þá allt upp með það að lögregluþjónar höfðu gleymt að taka konuna úr bílnum eftir langan vinnudag.“ (137-138)
Þessi stutta bók er semsagt bæði skemmtileg og fræðandi, og á köflum hjartnæm. Þegar settur er punktur aftan við einræðurnar býr Steinólfur enn í Ytri-Fagradal en er búinn að missa eiginkonu sína, Hrefnu. Bókinni lýkur á hnarreistri kveðju:
„Ég held ég kveðji samferðafólk mitt með þakklæti og vonandi í sátt, þegar þar að kemur. Ekki hef ég neina vissu um eitthvert persónulegt framhaldslíf, en það kæmi mér svo sem ekkert á óvart að vakna upp við englasöng og að einhver væri að gutla undir á hörpu. En það verður bara að koma í ljós í fyllingu tímans. Með sérdeilislegri virðingu
Steinólfur Lárusson
ásauðarhyglari og hagvaxtarhemill
í íslenska lýðveldinu.“ (178-179)
No comments:
Post a Comment