Wednesday, April 16, 2014

Rósvita frá Gandersheim, konan á bak við Liam Neeson

Allir vita að vestræn leikritun hefst í Grikklandi, eða nánar tiltekið Aþenu. Þar voru settir á svið stórmerkilegir harm- og gamanleikir sem hafa margir varðveist og eru enn leiknir í dag (oft með dræmum árangri, eins og ég hef fjallað um hér). En geymd grísku leikritanna og hefðin í kringum þau er langt frá því samfelld. Handritin voru varðveitt í Konstantínópel og Alexandríu og fleiri svæðum þar sem töluð var gríska, en í Vestur-Evrópu var allt önnur hefð við lýði, nefnilega hefð latnesku gamanleikjanna.

Latnesku gamanleikirnir byggjast á gríska „Nýja gamanleiknum“ svokallaða, en þekktasti höfundur þeirrar stefnu (og sá eini sem hefur varðveist í einhverjum mæli) er Menander (c. 341/42 – c. 290 f. Kr.) Hann sker sig afar greinilega frá fyrirrennara sínum Aristófanesi, sem er einn af dónalegri höfundum sem völ er á - aþenska lýðræðishefðin skín í gegnum þann vana hans að rífa fólk í sig á sviði fyrir framan alþjóð. En þegar Menander var við lýði fór aþenska lýðræðinu hnignandi og leikritin eru eftir því töm. Þar byggist grínið ekki á því að segja að valdamenn vilji láta ríða sér í rass (sem er okkur ansi framandi) heldur á módeli sem við þekkjum fullkomlega - útklipptar stereótýpur koma sér í vandræði í ástarlífinu, en allt fer vel að lokum!

Aðeins eitt verk Menanders hefur varðveist í heillegri mynd (sem heitir Dyskolos eða Skaphundurinn) og það uppgötvaðist aðeins á sjötta áratug seinustu aldar. Lengst af var því hefð Nýju gamanleikjanna aðallega þekkt í gegnum þá latnesku gamanleikjahöfunda sem sóttu til Menanders og félaga. Af þeim hafa þó einungis tveir varðveist, Plautus, sem þrátt fyrir skemmtileg leikrit átti eftir að gleymast á miðöldum, og svo eftirmaður hans Terentius.

Terentius í geislabaug hins vestræna kanóns


Verk Terentiusar (195/185–159 f. Kr.) lifðu góðu lífi í kristni þótt höfundurinn hafi verið heiðinn, og það bjargar honum einmitt að leikrit hans eru ansi töm, auk þess sem latínan sem hann skrifaði var talin einkar stílhrein og falleg og því notuð til latínukennslu. Terentius á að hafa komið frá Norður-Afríku og verið dökkur á hörund; þannig er hann sömuleiðis merkilegur fyrir þær sakir að vera fyrsti (og mögulega sá eini fyrir utan Dumas?) svarti höfundurinn í hinum háa vestræna kanón.

En þrátt fyrir fagra latínu var Terentius ekki kristinn og sumir brandarar hans trufluðu miðaldamenn (og okkur í dag). Það er til dæmis háttur hans að láta plottið jafnan snúast um nauðgun (þetta eru gamanleikir, munið!) Svona má lýsa týpískri flækju hjá Terentiusi: Ungur maður (stereótýpan adulescens) hafði drukkið of mikið á einhverri hátíð og nauðgað stúlku (virgo; þetta var jafnan þögult hlutverk.) Nú ári síðar er komið að giftingu unga mannsins, en þá fréttist það að brúður hans hefur fætt tvíbura á laun; hún er spjölluð (gisp!) En á seinustu stundu leysist allt: Stúlkan sem hann er að fara að giftast er raunar stúlkan sem hann nauðgaði, og börnin eru hans. Brúðkaupið getur haldið áfram og allir eru hamingjusamir.

Þetta slær nútímalesanda sem siðlaust plott á hinu lægsta plani - með skýrari birtingarmyndum feðraveldisins sem hægt er að ímynda sér. En þá kemur til sögunnar hin merka þýska kórsystir Rósvita (c. 935 – c. 1002 e. Kr.; einnig þekkt sem Hrosvite, Hroswitha, Hroswithe, Rhotswitha og Roswit - til eru ótalmargir rithættir). Hún bjó í nunnuklaustrinu í Gandersheim í Saxlandi en var ekki í nunnureglunni sjálfri; hún var það sem kallast secular canoness á ensku. Þar orti hún, á latínu, ljóð um dýrlinga og konunga, sem eru merkileg út af fyrir sig, en jafnframt víðfræg leikrit sem byggðust á verkum Terentiusar en uppfærðu þau til kristinna gilda. Þetta eru elstu þekktu leikrit kristinnar menningar, þau fyrstu í Evrópu eftir fornöldina.

Rósvita segir í formála bókar sinnar með leikritunum að hvatinn að skrifunum sé sá að kristnir menn lesi Terentius upp á stílinn og flekkist um leið af óhæfu þeirri sem heiðnin hélt upp á. Þetta leikritaform sé helst þekkt sem bókmenntagrein "þar sem ógeðfellt siðleysi kynóðra kvenna er sett á svið," en í leikritum Rósvitu er hinsvegar "lofsverðu skírlífi helgra meyja fagnað". Sömuleiðis viðurkennir hún:

Reyndar lét það mig ósjaldan blygðast mín og roðna niður í tær, þegar, tilneydd af formi þessarar tegundar bókmennta, ég þurfti við skriftirnar að velta upp í huga mér og skrá niður af skyldurækni við stílinn hið fyrirlitlega æði þeirra sem elska í óleyfi og þeirra sætu og siðlausu samtöl, sem leyfast annars ekki að ná til vorra eyrna. En hefði ég látið þetta ógert út af blygðun, þá hefði ég ekki náð tilgangi mínum...


Það sem Rósvita gerði við leikritahefð Terentiusar er stórmerkilegt. Nauðganir eru enn miðpunktur leikritanna, en í hennar útgáfu fer hún aldrei fram - Guð bjargar ungmeyjunum á seinustu stundu frá hinum ógeðfelldu karlheiðingjum. Þetta sagnaform - nákvæmlega þetta - er enn við lýði í dag (sjá t.d. kvikmyndina Taken með Liam Neeson.) Önnur umfjöllunarefni hennar eiga hinsvegar til að vera jafnvel enn meira framandi en hjá Terentiusi. Í leikritinu Callimachus stöðvar guð náriðil; í kvæðinu um Pelagius reddar hann samnefndri hetju verksins, sem er drengur að aldri, frá guðlausri kynhvöt kalífans af Andalúsíu.

Ef kalífinn sleppir kristna unglingnum þarf enginn að deyja.
Engu að síður er freistandi að lesa smá femínisma í Rósvitu - hún talar um það í formálanum að verkum sínum að hún vilji upphefja þá dýrð "þegar hinn kvenlegi veikleiki sigrar og það kemur fát á hinn karlmannlega þrótt", og vissulega birtast karlar í leikritum Rósvitu oft sem illmenni en konur jafnan sem hetjur. Ef leikritin hafa verið sett upp í nunnuklaustrinu í Gandersheim getur vel verið að í því hafi falist einhverskonar andóf gegn heiminum fyrir utan klaustrið, þar sem konur máttu eiga von á hvers kyns órétti sem Guð gerði lítið til að rétta.

Það var ekki fyrr en löngu síðar sem Vestur-Evrópa kynntist grísku leikritunum í frummyndum sínum, og þá hvarf  þessi evrópska leikritahefð Terentiusar og Rósvitu að einhverju leyti í skuggann. En eins og við sjáum í Hollywood-myndum og försum dagsins í dag þá hefur sú hefð síður en svo dáið út; þvert á móti er hún sprellifandi. Svo næst þegar þið sjáið vandræðalegan ungan mann, óheppinn í ástarlífinu, vinna hjarta stúlkunnar sem hann elskar á síðustu stundu, eða þegar þið horfið á hina goðumlíku hasarhetju skjóta heiðið illmenni og hindra með því nauðgun óspjallaðrar ungmeyjar, hugsið um þetta andlit:

Rósvita
Og gerið þakkargjörð!

No comments:

Post a Comment