Þema föstudagstónlistar Smjörfjallsins í dag er: sjúkdómar. Til eru gríðarmörg lög um sjúkdóma, enda fátt sem hefur jafn mikil áhrif á líf listamanna, rétt eins og annars fólks, og andlegt og líkamlegt heilsufarsástand þeirra. Mörg sjúkdómalög eru átakanleg, önnur fyndin eða kaldhæðin. Og sum auðvitað leiðinleg, en við birtum þau ekki hér.
Ímynd dægurtónlistarmanna hefur löngum verið tengd villtu líferni og vímuefnaneyslu, og margir hafa sungið um glímu sína við þá bræður Bakkus og eiturlyfjadjöfulinn. Í fyrsta lagi dagsins syngja flytjendurnir þó ekki um sinn eigin vanda heldur um fíkn eirðarlausrar húsmóður, sem finnst að
cooking fresh food for a husband's just a drag so she buys an instant cake and she burns her frozen steak and goes running for the shelter of a mother's little helper
Hjálparhella húsmóðurinnar er að sjálfsögðu valíum. Það má deila um það hvort Mick Jagger og Keith Richards sýni mikla samúð með aðalsöguhetjunni í texta sínum við þetta lag Rolling Stones - húsmæðradópið skorar almennt ekki mörg rokkstig í menningu vorri - en hugurinn hvarflar til hrollvekjandi ímyndar hinnar einangruðu, bandarísku úthverfahúsmóður eftirstríðsáranna og mann langar ósjálfrátt að taka af henni valíumglasið og rétta henni frosið lambalæri.
Árið 2001, þegar ég var 13 ára, náði lagið Tainted Love í útgáfu Marilyn Manson töluverðum vinsældum. Eins og flest frá þessum tíma, þá er lagið að mínu mati einfaldlega of hallærislegt til að hægt sé að birta það hér. Lagið hljómaði í kvikmyndinni Not Another Teen Movie, sem jafnaldrar mínir muna kannski eftir, og myndbandið við lagið sýnir því partí með persónum úr myndinni sem er krashað af „ógnvekjandi gothurum“.
Stilla úr þessu stórkostlega myndbandi. Er eitthvað hallærislegra en pródúcerað uppreisnaríkon?
Af einhverjum ástæðum náði lagið þó ekki mikilli hylli í mínu nærumhverfi á þessum tíma. Ég man skýrt eftir að hafa heyrt eftirfarandi samtal:
A: „Finnst þér Tainted Love skemmtilegt?“
B: „Sko, ég hlusta bara á upprunalegu útgáfuna.“
Þetta er náttúrulega útspil sem gerir þig að svölustu manneskju á svæðinu, hvar og hvenær sem er. Eftir á að hyggja þá var viðkomandi samt líklega eitthvað að ruglast, því upprunalega útgáfa Tainted Love kom út árið 1964:
Tainted Love var B-hliðin á singúlnum My Bad Boy's Comin' Home, sem er ekkert sérstaklega grípandi, ef satt skal segja. Enda floppaði smáskífan, en fyrir tilviljun náði Tainted Love ákveðnum költ status í breskum sálarklúbbum á áttunda áratugnum. Aumingja Gloria reyndi þá að endurútgefa lagið, en aftur án árangurs. Þetta lag skilaði henni aldrei neinum peningum, þrátt fyrir að það malaði gull fyrir Marilyn Manson og næntíshljómsveitina Soft Cell, sem á án vafa þekktustu útgáfu lagsins:
Myndbandið við þetta lag er stórvirki, þó mögulega væri ég annarar skoðunar ef ég hefði verið 13 ára árið 1982. Það er einfaldlega svo furðulegt að það fer út fyrir öll velsæmismörk. Af hverju er t.d. hinn illi elskhugi representaður af smástelpu? Undarlegur symbólismi, artí klippingar og slakir leiklistartilburðir koma þessu myndbandi á þann dekadens-hátind sem Not Another Teen Movie gat ekki einu sinni látið sig dreyma um.
Tainted Love er einnig gott dæmi um útbreiddan internetmisskilning. Útgáfa Soft Cell á laginu er töluvert frægari en allt annað sem Soft Cell gaf út, og því ekki að undra að fólk tengi lagið oft við frægari sveitir, t.d. the Cure:
Þetta er upp að einhverju marki skiljanlegur misskilningur, en kommon youtube, the Clash?
Eitt útbreiddasta einkabréf sögunnar, að minnsta kosti miðalda, var bréf Alexanders mikla til Aristótelesar sem þýtt var á latínu á fjórðu öld eftir Krist (skv. Omari Khalaf), en átti sér þó lengri sögu. Nú var Alexander að sönnu lærisveinn Aristótelesar og gæti vel hafa skrifað honum einhvern tíma, en þetta tiltekna bréf er uppspuni eins og nær má geta þegar það er lesið.
Alexander battlar skrímsli
Í handritinu AM 226 fol. frá um 1350-70 fylgir bréfið á eftir íslenskri þýðingu kvæðisins Alexandreis eftir Gualterius sem nefnd hefur verið Alexanders saga. Talið er að Brandur Hólabyskup Jónsson hafi þýtt söguna eftir miðja 13. öld og gáfu Finnur Jónsson o.fl. hana út ásamt bréfinu eftir þeirri ætlan árið 1925 (þá útgáfu má sækja ókeypis hingað). Þetta er mér vitandi eina varðveitta þýðing bréfsins á íslensku þótt ég hafi nú ekki gengið úr skugga um það og ég veit heldur ekki hver útbreiðsla þess var á Íslandi á miðöldum, en tilvist þessarar gerðar (ásamt ýmsum öðrum varðveittum bókmenntum) bendir þó til þess að Íslendingar hafi verið í góðum tengslum við evrópska poppmenningu. Vænta má þess að íslenska gerð bréfsins sé að nokkru leyti frábrugðin öðrum varðveittum gerðum en ég hef ekki lagst sérstaklega í athugun á því. Megininntakið er í öllu falli hið sama.
Bréf Alexanders er hin magnaðasta lesing og skákar jafnvel sögunni. Nú þegar Alexander er orðinn „ráðandi kringlu alls heims“ tekur hann sér andartak til að færa í letur orðsendingu til læriföður síns Aristótelesar, sem hann hugsar jafnan til næst móður sinni og systrum, og því ritar hann honum til að segja honum
„þá hluti sem ég sá og heyrða á Indialandi og minningar eru verðir, því að þeir eru með margföldum háttum teljandi er ég sá og öngum manni mundi ég trúa þótt mér segði að þar væri svo mikil undur og hve margra málma, dýra og aldina jörðin er þar móðir og enginn mann er svo vitur að því mundi trúa utan hann hefði sjálfur séð.“ (156)
Svona formálar eru býsna algengir í miðaldaritum og fyrst um sinn er ekki að sjá að neitt óvenjulegt verði rapporterað. Alexander nefnir sigur sinn á Dario Serklandskonungi og næstum Poro konungi á Indialandi sem á hina reisulegustu höll með 40 stólpum gerðum úr gulli einu og veggirnir þaktir „fingrar þykkum gullspöngum“. Þaðan fer Alexander til hafnar einnar sem nefnd er Kaspias og er sagt að ormar og villidýr bíði hans og manna hans í dölum þar og heiðum. Þeir halda nú samt áfram að reka flótta Poro konungs, Alexander og „hálft annað hundrað leiðsögumanna“ (sem mér finnst vera gríðarlega fallegt orðalag, en ég er nú annálaður orðapervert) um brennandi sanda Indialands. Og þá byrjar ballið. Þorsti sverfur að liðinu, en það er „þúsund stórra fíla, þeirra er gull báru, og 400 vagna, og 1000 karta, 20 þúsundir riddara liðs, og 400 þúsunda fótgöngu liðs … Þeir voru sumir er drukku gang sinn og voru nálega áður að bana komnir.“
Föstudagslag Smjörfjallsins að þessu sinni er níutíu ára gamalt. Það var samið í Bandaríkjunum árið 1931, í kreppunni miðri, og hljóðritað sama ár af söngkonunni Ruth Etting:
All of me varð einn af þessum standördum sem voru hljóðritaðir af flestum frægustu djasssöngvurum 20. aldarinnar, svo sem Billie Holiday, Louis Armstrong, Dinah Washington og Ellu Fitzgerald, og croonerum á borð við Frank Sinatra og Dean Martin. Ég er einna hrifnust af þessari útgáfu með Söruh Vaughan:
Brasilísku meistararnir pikkuðu lagið líka upp, enda fellur það eins og flís við rass hins hugljúfa bossanova. João Gilberto, Caetano Veloso og Gilberto Gil leiddu saman hesta sína í brasilískri útgáfu lagsins undir titlinum Disse alguém:
Eins og stundum vill verða með jafn ó-agressív lög og All of me fær maður samt sérstaka ánægju út úr því þegar til sögunnar kemur tónlistarmaður sem tekur ekki á því með neinum silkihönskum. Það á til dæmis við um hina eftirminnilegu live útgáfu Megasar á All of me af plötunni (Kristilega kærleiksblómin spretta kringum) Hitt & þetta, sem var hluti af þrefaldri safnplötu Megasar sem kom út árið 2002.
Eitt kröftugasta blúslag sem hefur verið samið er St. James Infirmary, einnig þekkt sem Gambler's Blues. Textinn rekur ættir sínar til ensks þjóðlags sem kallast The Unfortunate Rake eða The Unfortunate Lad, en sjálf melódían sem lagið er sungið við er margbreytileg. Louis Armstrong gerði lagið frægt árið 1928 - ég efast um að útgáfan að neðan sé sú (upptakan er of skýr til að vera frá því ári) en krafturinn er ótrúlegur:
Harmurinn lekur af þessu, þótt Armstrong hlæi og haldi hinni frægu, blúsuðu fjarlægð frá efninu. Hann fer á spítala heilags Jakobs, sem er óvíst hver hefur verið - giskað hefur verið á ákveðinn holdsveikispítala í London á 17. öld - og sér líkið af ástkonu sinni; um leið fer hann að hugsa um eigin dauða og hvernig hann vill að gengið verði frá eigin líki:
put a 20 dollar gold piece on my watch chain so the boys will know I died standing pat
Beinaber útgáfa þjóðlagasöngvarans Dave Van Ronk af laginu er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hjá honum eru fleiri erindi; jarðarförin sem sögumaðurinn óskar sér er heil New Orleans-líkfylgd með djasssveit og svörtum hestvagni.
Bob Dylan samdi gjarnan lög með því að grípa þjóðlagaþemu héðan og þaðan og frumsemja í eyðurnar, og tók hann þá list á ákveðinn hápunkt með laginu Blind Willie McTell. Laglínan þar endurómar af útgáfu Louis Armstrong af St. James Infirmary. Þar kemur spítali heilags Jakobs hvergi við sögu, heldur er Dylan að horfa út um gluggann á hóteli kenndu við sama dýrling, St. James Hotel, og er hann horfir út er eins og gervöll saga Bandaríkjanna ljúkist upp fyrir honum.
Hvaða hótel er þetta? Til eru mörg hótel í Bandaríkjunum sem kenna sig við heilagan Jakob. Á Dylan við hótelið í Red Wing í Minnesota, þar sem hann fór mögulega á upptökuheimili um stund og söng um það lagið Walls of Red Wing? Er það hótelið í Cimarron í Nýju Mexíkó, þar sem Jesse James, Wyatt Earp, Buffalo Bill og um það bil allir aðrir frægir byssumenn Villta vestursins dvöldu og skutu ótalda menn? Er það hótelið í New Orleans, þar sem tenging lagsins við þá borg er skýr? Eða allt þetta? Maður veit ekki.
No-one can sing the blues like Blind Willie McTell, segir Dylan. Þá er um að gera að loka hringnum með útgáfu sjálfs Blind Willie McTell á St. James Infimary/Gambler's Blues/The Unfortunate Rake, sem hann nefnir enn einu nafninu: The Dying Crapshooter's Blues, að þessu sinni með allt annarri laglínu:
Í nóvember síðastliðnum heimsótti ég Finnland í fyrsta skipti. Það var mér uppspretta sérstakrar ánægju að koma til Norðurlands þar sem tungumálið var mér algjörlega framandi og ég gat notið þess á þeim forsendum, án nokkurrar pressu um að reyna að tala það sjálf.
Sum orð voru þó kunnuglegri en önnur. Einn daginn gengum við framhjá fasteignasölu, minnir mig, frekar en ferðaskrifstofu, og ég hrópaði upp yfir mig þegar ég sá kunnuglegt orð á skilti í glugganum: Vihreät! Hvað þýðir það?
Finnskt ljóðskáld: Það þýðir að eitthvað sé grænt.
Hér er ástæðan fyrir því að þetta að öðru leyti ógegnsæja orð var mér kunnuglegt, fyrsta föstudagslagið í maí: