Friday, May 9, 2014

Föstudagslagið: Spítali og hótel heilags Jakobs og blússöngvarinn Blind Willie McTell

Eitt kröftugasta blúslag sem hefur verið samið er St. James Infirmary, einnig þekkt sem Gambler's Blues. Textinn rekur ættir sínar til ensks þjóðlags sem kallast The Unfortunate Rake eða The Unfortunate Lad, en sjálf melódían sem lagið er sungið við er margbreytileg. Louis Armstrong gerði lagið frægt árið 1928 - ég efast um að útgáfan að neðan sé sú (upptakan er of skýr til að vera frá því ári) en krafturinn er ótrúlegur:

Harmurinn lekur af þessu, þótt Armstrong hlæi og haldi hinni frægu, blúsuðu fjarlægð frá efninu. Hann fer á spítala heilags Jakobs, sem er óvíst hver hefur verið - giskað hefur verið á ákveðinn holdsveikispítala í London á 17. öld - og sér líkið af ástkonu sinni; um leið fer hann að hugsa um eigin dauða og hvernig hann vill að gengið verði frá eigin líki:

put a 20 dollar gold piece on my watch chain
so the boys will know I died standing pat


Beinaber útgáfa þjóðlagasöngvarans Dave Van Ronk af laginu er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hjá honum eru fleiri erindi; jarðarförin sem sögumaðurinn óskar sér er heil New Orleans-líkfylgd með djasssveit og svörtum hestvagni.

Bob Dylan samdi gjarnan lög með því að grípa þjóðlagaþemu héðan og þaðan og frumsemja í eyðurnar, og tók hann þá list á ákveðinn hápunkt með laginu Blind Willie McTell. Laglínan þar endurómar af útgáfu Louis Armstrong af St. James Infirmary. Þar kemur spítali heilags Jakobs hvergi við sögu, heldur er Dylan að horfa út um gluggann á hóteli kenndu við sama dýrling, St. James Hotel, og er hann horfir út er eins og gervöll saga Bandaríkjanna ljúkist upp fyrir honum.


Hvaða hótel er þetta? Til eru mörg hótel í Bandaríkjunum sem kenna sig við heilagan Jakob. Á Dylan við hótelið í Red Wing í Minnesota, þar sem hann fór mögulega á upptökuheimili um stund og söng um það lagið Walls of Red Wing? Er það hótelið í Cimarron í Nýju Mexíkó, þar sem Jesse James, Wyatt Earp, Buffalo Bill og um það bil allir aðrir frægir byssumenn Villta vestursins dvöldu og skutu ótalda menn? Er það hótelið í New Orleans, þar sem tenging lagsins við þá borg er skýr? Eða allt þetta? Maður veit ekki.

No-one can sing the blues like Blind Willie McTell, segir Dylan. Þá er um að gera að loka hringnum með útgáfu sjálfs Blind Willie McTell á St. James Infimary/Gambler's Blues/The Unfortunate Rake, sem hann nefnir enn einu nafninu: The Dying Crapshooter's Blues, að þessu sinni með allt annarri laglínu:

No comments:

Post a Comment