Friday, May 23, 2014

Föstudagslagið: Tainted Love

Árið 2001, þegar ég var 13 ára, náði lagið Tainted Love í útgáfu Marilyn Manson töluverðum vinsældum. Eins og flest frá þessum tíma, þá er lagið að mínu mati einfaldlega of hallærislegt til að hægt sé að birta það hér. Lagið hljómaði í kvikmyndinni Not Another Teen Movie, sem jafnaldrar mínir muna kannski eftir, og myndbandið við lagið sýnir því partí með persónum úr myndinni sem er krashað af „ógnvekjandi gothurum“.

Stilla úr þessu stórkostlega myndbandi. Er eitthvað hallærislegra en pródúcerað uppreisnaríkon?

Af einhverjum ástæðum náði lagið þó ekki mikilli hylli í mínu nærumhverfi á þessum tíma. Ég man skýrt eftir að hafa heyrt eftirfarandi samtal:

A: „Finnst þér Tainted Love skemmtilegt?“
B: „Sko, ég hlusta bara á upprunalegu útgáfuna.“

Þetta er náttúrulega útspil sem gerir þig að svölustu manneskju á svæðinu, hvar og hvenær sem er. Eftir á að hyggja þá var viðkomandi samt líklega eitthvað að ruglast, því upprunalega útgáfa Tainted Love kom út árið 1964:



Tainted Love var B-hliðin á singúlnum My Bad Boy's Comin' Home, sem er ekkert sérstaklega grípandi, ef satt skal segja. Enda floppaði smáskífan, en fyrir tilviljun náði Tainted Love ákveðnum költ status í breskum sálarklúbbum á áttunda áratugnum. Aumingja Gloria reyndi þá að endurútgefa lagið, en aftur án árangurs. Þetta lag skilaði henni aldrei neinum peningum, þrátt fyrir að það malaði gull fyrir Marilyn Manson og næntíshljómsveitina Soft Cell, sem á án vafa þekktustu útgáfu lagsins:



Myndbandið við þetta lag er stórvirki, þó mögulega væri ég annarar skoðunar ef ég hefði verið 13 ára árið 1982. Það er einfaldlega svo furðulegt að það fer út fyrir öll velsæmismörk. Af hverju er t.d. hinn illi elskhugi representaður af smástelpu? Undarlegur symbólismi, artí klippingar og slakir leiklistartilburðir koma þessu myndbandi á þann dekadens-hátind sem Not Another Teen Movie gat ekki einu sinni látið sig dreyma um.

Tainted Love er einnig gott dæmi um útbreiddan internetmisskilning. Útgáfa Soft Cell á laginu er töluvert frægari en allt annað sem Soft Cell gaf út, og því ekki að undra að fólk tengi lagið oft við frægari sveitir, t.d. the Cure:

Þetta er upp að einhverju marki skiljanlegur misskilningur, en kommon youtube, the Clash?


No comments:

Post a Comment