Alexander battlar skrímsli |
Bréf Alexanders er hin magnaðasta lesing og skákar jafnvel sögunni. Nú þegar Alexander er orðinn „ráðandi kringlu alls heims“ tekur hann sér andartak til að færa í letur orðsendingu til læriföður síns Aristótelesar, sem hann hugsar jafnan til næst móður sinni og systrum, og því ritar hann honum til að segja honum
„þá hluti sem ég sá og heyrða á Indialandi og minningar eru verðir, því að þeir eru með margföldum háttum teljandi er ég sá og öngum manni mundi ég trúa þótt mér segði að þar væri svo mikil undur og hve margra málma, dýra og aldina jörðin er þar móðir og enginn mann er svo vitur að því mundi trúa utan hann hefði sjálfur séð.“ (156)
Svona formálar eru býsna algengir í miðaldaritum og fyrst um sinn er ekki að sjá að neitt óvenjulegt verði rapporterað. Alexander nefnir sigur sinn á Dario Serklandskonungi og næstum Poro konungi á Indialandi sem á hina reisulegustu höll með 40 stólpum gerðum úr gulli einu og veggirnir þaktir „fingrar þykkum gullspöngum“. Þaðan fer Alexander til hafnar einnar sem nefnd er Kaspias og er sagt að ormar og villidýr bíði hans og manna hans í dölum þar og heiðum. Þeir halda nú samt áfram að reka flótta Poro konungs, Alexander og „hálft annað hundrað leiðsögumanna“ (sem mér finnst vera gríðarlega fallegt orðalag, en ég er nú annálaður orðapervert) um brennandi sanda Indialands. Og þá byrjar ballið. Þorsti sverfur að liðinu, en það er „þúsund stórra fíla, þeirra er gull báru, og 400 vagna, og 1000 karta, 20 þúsundir riddara liðs, og 400 þúsunda fótgöngu liðs … Þeir voru sumir er drukku gang sinn og voru nálega áður að bana komnir.“
Alexander & co lenda upp á kant við heimamenn og eru 300 riddarar sendir með léttum vopnum til að synda yfir vatn nokkurt til kastalans þar sem þeir verjast.
„En er þeir höfðu svimað fjórðung af vatninu komu upp að þeim nykrar svo stórir sem fílar og gleyptu þá oss ásjáendum. Þá lét ég kasta þeim í vatnið leiðsögumönnunum hundrað. Komu þau dýr með öðrum smærrum og veittu þeim verðugan dauða. Þá vall allt vatnið með maurum. Ég sá að mér var engin frægð að berjast með smá vatndýr og lét ég blása til brottferðar öllu liðinu.“ (159)
Nú verður þeim happ í hendi þegar þeir geta spurt aðra til vegar að drekkandi vatni og nú nægir Alexander að fá lánaða 60 leiðsögumenn. Þeir fara leiðar sinnar alla nóttina og á meðan leggjast að þeim „vargar og steingeitur, leparðar og gaupur alla vega“. Þeir eru gersamlega úrvinda allir þegar þeir loks koma að tjörninni um hádegisbil daginn eftir, en þeir hressast mikið við drykkinn. Ekki hefur þeim veitt af sopanum því
„um nóttina er tungl kom upp þá komu hlaupandi dýr mörg þau er scorpiones heita; höfuð hefir það sem geit en búk sem leo, hala sem ormur og gadd í aftan. Þetta kom svo margt að varla mátti tölu á koma og búið til illgerða. Hér eftir komu ormar þeir er cerastes heita og svo vatnormar með ýmisslegum litum, sumir rauðir, en sumir hvítir, sumir svartir eður röndóttir, og alla vega mátti heyra orma hvæsingar. Það gerði mörgum manni mikinn ótta. Þar drápum vér marga orma. Þetta gekk lengi um nóttina áður en hinir smærri ormar höfðu drukkið. Fóru hinir stærri ormar í brott og fálu sig í hellum undir jörðu, og því fögnuðum vér.“
Ekki er nú raunum þeirra félaga lokið enn, því
„sem leið að þriðju tíð nætur þá hugðumst vér mundu náðir hafa. Þá komu fram indverskir ormar miklir og hræðilegir, faxaðir sem hestar, en digrir sem steinstólpar, holandi jörðina með munni sínum. Þeir réttu hálsana með þríkvíslaðri tungu og eiturtendruðum augum. Með þá börðumst vér eina tíð nætur og létum þar 20 riddara og 32 þræla. Enn eftir brottför þeirra komu krabbar svo stórir sem yxn með mikilli muðlan og flókið men um hálsinn. Þeir hljópu að oss en vér drápum þá. Þá tók herinn að kveða og var þá hin myrkasta nótt. Þá komu villigeltir einkar stórir með freyðanda munni og með þeim flekkóttar steingeitur og hræðilegar gaupur nýbúnar til orrustu og leðurblökur líkar dúfum að vexti, svo margt að þær féllu á andlit og augu og á háls mönnum. Þær höfðu tennur svo stórar að þær skemmdu skotvopn manna. Þá sýndist oss dýr eitt meira en fíll, svo vaxið sem hestur, svart að lit og hafði 2 horn í enni. Það kalla Indi tenderanum. Og er þetta dýr hafði drukkið þá sá það á herbúðir vorar og skapaði skeið að oss. Það varaðist eigi eld. Þá setti ég manngarð í móti því og drap það og lamdi 30 riddara minna fyrr en það yrði drepið. Enn fyrir lýsing kom stormur úr himni, hvítur sýnum, og þar með hagl svo vaxið sem frauka rigndi. Þar komu með indverskar mýs, er fóru í herbúðir vorar, og svo stórar sem refir, og bitu búfé vort til heljar, en eigi með öllu til bana. Og er komið var að degi þá komu uglur þvílíkar að vexti, gular að klóm og nefi, en svartar að lit. Þær þöktu alla ströndina og gerðu oss ekki mein, heldur drógu þær fiska úr vatninu með klóm sér og átu sjálfar. Þá fugla létum vér þar sjálfráða vera og svo í brott fara. En leiðsögumenn er oss leiddu í þennan lífsháska, þá létum vér brjóta lærleggi þeirra í sundur og svo hendur og þar liggja, að þá er ormar kæmi þar skyldu þeir það hafa sem þeir höfðu oss ætlað.“ (159-61)
Bréfið heldur áfram héðan í frá og segir frá ögn hversdagslegri ferðalögum Alexanders og manna hans samanborið við það sem á undan er gengið. Hér verður staðar numið í bili en þess í stað verður fáeinum orðum farið um það efni bréfsins sem hér hefur verið lýst.
Bréf Alexanders til Aristótelesar í þessari gerð ber þess greinileg merki að vera undir áhrifum frá þekktum miðaldafrásögnum af undrum í austri og ófreskjum Indialands. Frá fyrstu öld eftir Krist tóku slíkar sögur að breiðast út með tilkomu alfræðirits Pliniusar eldri Naturalis historia. Þau koma fyrir í mýflugumynd í De civitas dei eftir Ágústínus frá Hippó á fjórðu öld og enn eiga þau ríflegan sess í alfræðiritinu Etymologiae eftir Ísidór frá Sevilla sem ritað var á sjöundu öld. Þessar frásagnir af kynlegum fyrirbærum eru einnig uppspretta ferðasögu mesta sófaferðalangs miðalda, hins óþekkta höfundar ferðasögu Jóhanns Mandeville, sem var gríðarlega vinsælt rit sem naut mikillar úbreiðslu á svipuðum tíma og Bréf Alexanders á íslensku er varðveitt frá, eða á bilinu 1350-70.
Ekki tjóir þó að láta eins og annað ritið skuldi hinu neina vísun, en leiða má líkur að því þó að ferðasaga Mandeville hafi notið töluverðra áhrifa frá eldri gerð þessa bréfs á latínu auk annarra heimilda sem nefndar hafa verið. Slík tengsl er þó erfitt að rekja enda eru varðveittar gerðir texta ýmiss konar og frá ólíkum tímabilum, auk þess að hugmyndir síðmiðalda um undrin í austri eru allar svo keimlíkar að vandséð er hvaðan einstakir hlutar eru fengnir. En við eigum þó þetta bréf og vitum því að það var að einhverju marki þekkt á Íslandi. Hitt er svo ekki síður merkilegt að allt útlit er fyrir að innihald þess hafi verið tekið alvarlega, en það er efni í annan pistil.
Vitnað er í útgáfu Finns Jónssonar, en stafsetning hefur verið færð til nútímahorfs og leyst úr rómverskum tölustöfum.
No comments:
Post a Comment