![]() |
Mynd af Wikipediu: manntalið á Skógarströnd |
Ég lít á þetta sem persónulegan sigur, enda er manntalið 1703 uppáhaldsmanntalið mitt. Ég kynntist því fyrst síðasta sumar og það hefur staðið hjarta mínu nærri síðan, auk þess áhuga sem það vakti með mér á manntölum almennt. Ég er jafnvel alvarlega að velta fyrir mér að óska mér manntalsins 1703 í útskriftargjöf þegar ég útskrifast úr MA-náminu á næsta ári, en manntalið kom út í heftum á árunum 1924-1947 og kostar fúlgur fjár innbundið í dag svo það verður að vera ærið tilefni til að fjárfesta í því. (Reyndar er ekki mikil eftirspurn eftir því á Þjóðarbókhlöðunni og með reglulegum endurnýjunum gæti ég sennilega haft það í láni í meira en tuttugu ár áður en ég væri komin upp í núverandi kaupverð, miðað við gildandi verðskrá bókasafnsins.)
Vinir mínir – jákvætt og þolinmótt fólk – hafa þurft að sitja undir ansi mörgum ástríðufullum einræðum um manntöl síðan ég kynntist manntalinu 1703. Það er ýmislegt við manntöl sem gerir þau spennandi í mínum augum. Í fyrsta lagi höfða þau einfaldlega sterkt til skráningarperrans í mér; það er bara eitthvað við mörghundruð blaðsíður af nöfnum, vandlega skráð og flokkuð eftir bæjum, hreppum og sýslum.