Friday, June 28, 2013

Frammi fyrir dómstól í London árið 1320

Fyrir um það bil mánuði var ég, sem endranær, að leita að efni í mastersritgerðina mína. Við slík tækifæri vilja leitarorðin sem ég slæ inn í Gegni leiða mig á hinar áhugaverðustu brautir, þó það sé afar sjaldgæft að efnið komi mér að einhverjum praktískum notum. En, Smjörfjallið er fyrir allt annað en hið nytsamlega og skynsamlega og því ætla ég að taka til umfjöllunar kafla úr bókinni Of Good and Ill repute. Gender and Social Control in Medieval England eftir Barböru A. Hanawalt. Þetta er orðið sérlega aðkallandi í ljósi þess að bókin er nú þegar farin að safna sektum á mínu góða nafni og orðstír.

Ætli leitarorðin sem leiddu mig að þessari bók hafi ekki verið medieval og gender, eða kannski medieval og reputation. Titill bókarinn er þó að mínu mati villandi, því meginumfjöllunarefni bókarinnar er í raun réttarsaga, þó feminísku sjónarhorni sé beitt í sumum köflum. Réttast væri að kalla bókina greinasafn, því þó allir kaflarnir fjalli um England á síðmiðöldum þá eru þeir býsna ólíkir innbyrðis, og standa nær algjörlega sjálfstætt. Þó ég hafi sem stendur engin augljós not af þekkingu á réttarsögu Englands þá samt las ég nokkra kafla í bókinni, því hún er bæði vel skrifuð og áhugaverð. Hins vegar þá dytti mér aldrei í hug að fjalla um hana annars staðar en á þessum óformlega vettvangi, því án grundvallarþekkingar á orðaforða og stofnunum enska réttarkerfisins á 14. öld er efnið oft torskilið. Lesendur verða því að taka umfjöllun minni með nokkrum fyrirvara.

Miðaldir hafa þann stimpil á sér í hinu almenna ímyndunarafli að hafa verið tími þungra og óréttlátra refsinga, sem hafi verið beitt óspart. Ímynd miðalda er oft, þegar að er gáð, tengd atburðum sem gerðust á 16. eða 17. öld, en það er nú annað mál. Af umfjöllun Hanawalt að dæma þá voru refsingar í Englandi vissulega mjög þungar, og fólust oft í útlimamissi eða dauða. Hún nefnir þessar þungu refsingar hins vegar sem eina ástæðu þess að sakfelling var í raun og veru býsna sjaldgæf, og refsingin yfirleitt milduð.

Þetta átti ekki síst við af því að yfirleitt tilheyrði sakborningurinn sama þorpssamfélaginu og dómararnir. Þá var sérstaklega algengt að refsing væri milduð í nauðgunarmálum, en samkvæmt lögum sem Hanawalt vísar til sem Westminster II 1285 var refsingin við slíkum glæpum gelding, blindun eða henging, sem var svipað og refsing við öðrum glæpum.  Þar sem ég er staðfastlega á móti dauðarefsingum og öðrum líkamlegum refsingum þá get ég varla áfellst alla þá dómara sem minnkuðu útlimamissi eða dauðadóm í sekt. Óneitanlega herja samt á mann efasemdir um réttlætiskennd dómaranna þegar maður les um mál Agnesar, dóttur Johns af Enovere, árið 1287. Hún var sjö ára þegar henni var nauðgað við smalamennsku, en dómararnir færðu þau rök að svo ung stúlka gæti ekki misst meyjarhaftið þó henni væri nauðgað. Skaðinn sem hún hlaut var því álitinn takmarkaður og nauðgarinn borgaði henni einhverjar smá sárabætur fyrir áverka sem hann veitti henni á andliti.

Kaflinn þar sem þetta kemur fram heitir Whose story was this? Rape narratives in medieval English courts. Rauði þráðurinn í frásögninni er mál Joan, dóttur Eustace le Seler (söðlasmiður), sem kærði nauðgun árið 1320, þá ellefu ára. Narratívið sem vísað er til í kaflaheitinu er ákveðin lagalega formúla sem nauðgunarfórnarlömb þurftu að fara með fyrir rétti, en nauðgun og morðið á eiginmanni voru einu tilfellin þegar konur máttu/þurftu að tala sjálfar frammi fyrir rétti þegar þær ákærðu. Annars var málið í höndum lögmanns. Formúlan sem um ræðir var nokkurn veginn svona:

 A., such a woman, appeals B., for that whereas she was at such a place on such a day in such a year etc. (or when she was going from such a place to such, or at such a place, doing such a thing) the said B. came with his force and wickedly and against the king's peace lay with her and took from her maidenhood (or virginity) and kept her with him for so many nights (and let thus set out all the facts and the truth). And that he did this wickedly and feloniously she offers to prove against him as the king's court may award. 

Þetta þurfti að læra utan að og flytja oftar en einu sinni, minnstu frávik gátu eyðilagt málsóknina. Annað flækjustig fyrir fórnarlömbin var tungumálið, sum réttarstig störfuðu á latínu en önnur á frönsku, en á þessum tíma var enska móðurmál meirihluta Englendinga og frönskukunnátta hafði minnkað mjög. Auk þess þurfti að tilkynna glæpinn innan 40 daga, eftir settum reglum, sem fól meðal annars í sér að sýna karlkyns embættismönnum alla áverka og sár. Ólétta gat eyðilagt málsókn þar sem ríkjandi læknisfræðilegt álit var að börn væru ekki getin nema móðirin hefði ánægju af kynmökunum. Samkvæmt ýmsum lögspekingum var nauðgun svo misalvarlegur glæpur eftir því hvort konan hafði stundað kynlíf áður en henni var nauðgað. Ef konan gerði mistök eða gafst upp á málsókninni beið hennar fangelsisvist eða sekt.

Það var einmitt það sem henti Joan, en hún gaf upp tvær mismunandi dagsetningar þegar hún fór með formúluna. Henni var hlíft við fangelsisvist vegna ungs aldurs, en hinn ákærði, Reymund af Limoges, notaði tækifærið til að segja brandara um að varla hefði hún misst meydóminn tvisvar og Joan varð að viðurkenna að það gæti ekki staðist. Reymund lögsótti síðar föður hennar fyrir fjárhagslegt tjón sem hann hefði beðið, og gaf í skyn að faðirinn hefði leitt sig í gildru vegna gamalla deilna, með Joan sem tálbeitu.

Málið í heild sinni dróst því mjög á langinn, ekki síst af því að sjálf nauðgunin var tekin upp í þriðja sinn af því tilefni að sérstakt dómsstig réttaði þá í London, heimabæ Joan. Þetta var gert að frumkvæði dómstólsins og tilgangurinn er óljós, enda var Reymund sýknaður á ný, Joan var aftur dæmd fyrir falskar ásakanir og sýknuð á ný vegna ungs aldurs. Þetta þriðja stig er allra erfiðast að lesa um, þegar 12 ára stelpa þarf enn einu sinni að hitta manninn sem nauðgaði henni, í ókunnu herbergi fullu af ókunnum karlmönnum. Þar af er einn þeirra sem flytur frásögn af nauðgun hennar, og nú með nýjum klámfengnum smáatriðum, eins og því hve stórt typpið á Reymund hafi verið, hvernig hann hafi haldið henni niðri og hvernig undirpilsið hennar hafi verið á litinn. Hún virðist líka hafa þurft að sýna enn einu sinni hina líkamlegu áverka sem hún þjáðist enn af.

Joan kemur aldrei aftur fyrir í varðveittum heimildum. Hanawalt spyr þeirrar spurningar hvort hún hafi lifað mikið lengur eftir þetta. Frásögn þriðja dómstigsins af nauðgun hennar öðlaðist hins vegar ódauðleika í handritum að Novae Narrationes, kennslubók fyrir unga menn í lögfræðinámi. Frásögnin sker sig úr öðru efni kennslubókarinnar, þar sem dæmi eru yfirleitt sviðsett eða nafnlaus, og var ekki hluti af upprunalegu kennslubókinni. Enda hafði hún takmarkað gildi fyrir laganema, þar sem lögum samkvæmt þurftu þeir aldrei að flytja ákæru á hendur nauðgurum, það var hlutskipti fórnarlambanna. Líklegasta skýringin á vinsældum sögunnar er einfaldlega sú að hún hafi þótt spennandi lesefni.

No comments:

Post a Comment