Sunday, June 23, 2013

Stríðsminjar á Valahjalla

Ég heimsótti Austfirði nú í byrjun júní og hugaði að sjálfsögðu að austfirskri sögu í ferðinni. Meðal þess sem við gerðum var að ganga út á Valahjalla við Reyðarfjörð og skoða stríðsminjar; brak úr þýskri Heinkel H111 herflugvél sem fórst þar í klettunum í þokuveðri árið 1941. Þó nokkur heilleg stykki úr vélinni er enn að finna á Valahjalla og áhrifamikið að ganga innan um þau.

Á leiðinni út Eskifjörð heilsaði ég upp á heimaslóðir gamallar vinkonu, Gyðu Thorlacius, hvers endurminningar frá Íslandi ég bloggaði um á síðu Druslubóka og doðranta í vetur. Gyða bjó þar sem nú heita Helgustaðir (sem Helgustaðanáma er kennd við) en þá hét Gyðuborg.

Við lögðum upp í gönguna út á Valahjalla frá eyðibýlinu Karlsskála:


Þaðan er gengið í átt að Krossanesi. Það má fara fyrir nesið og alla leið út í Vöðlavík, en við gengum bara á hjallann og til baka. Gangan tók okkur rúmlega fimm tíma, en það er dálítil hækkun upp á Valahjallann og svo þarf maður að ganga nokkurn spöl inn eftir honum til að komast að brakinu.


Þýska flugvélin fórst þegar hún flaug á klettavegginn fyrir ofan Valahjalla á uppstigningardag árið 1941. Fjórir menn voru í vélinni og fórust þeir allir, en fundust ekki fyrr en á annan í hvítasunnu þegar bóndinn á Krossanesi var að smala á hjallanum. Lík mannanna voru grafin í kirkjugarðinum á Reyðarfirði en síðar flutt í þýska hermannagrafreitinn í Fossvogskirkjugarði.




Árið 2001, þegar liðin voru sjötíu ár frá slysinu, var afhjúpaður á hjallanum minnisvarði um mennina sem fórust. Sama ár birtist þessi grein eftir Snorra Snorrason í Morgunblaðinu, þar sem lesa má nánar um ferðir þýsku vélarinnar og samhengi í stríðinu.

No comments:

Post a Comment