Friday, June 21, 2013

Yfirnáttúrulegir atburðir og sjúkdómar á 12. öld

Í gær las ég í fyrsta skipti dýrlingaævi, þó það sé í raun furðulegt að ég hafi ekki gert það fyrr. Það kom mér á óvart hvað frásögnin var fjölbreytileg og vel upp sett. Dýrlingaævinni er skipt í þrjár bækur, sem hver um sig er útbúin efnisyfirliti, „so that the reader may know more quickly what he ought to find there“. Báðir höfundar (sá fyrri dó frá hálfkláruðu verki) lífga reglulega upp á frásögnina með innskotum úr bréfum og því sem lítur út eins og æviminningar dýrlingsins. Höfundarnir eru þó mjög áberandi í textanum og eru duglegir við að gefa frásögnum dýrlingsins af hinum yfirnáttúrulegu sýnum einkunnir á borð við: „Þetta gæti engum leiðst að lesa!“ (Þó ég hafi reyndar stundum þurft að vera ósammála í þeim efnum).

Dýrlingurinn sem um ræðir er Hildegard af Bingen, en hún var reyndar aldrei tekin formlega í tölu dýrlinga af kaþólsku kirkjunni. Það virðist þó ekki hafa haft mikil áhrif á átrúnað almennings í Bingen og nágrenni, og í kirkjunni í Eibingerstrasse er víst hægt að sjá hjarta hennar og tungu í gullnu helgiboxi.

Hildegard (1098-1179) var einstaklega áhugaverður persónuleiki. Þegar hún var ekki að sinna skyldum sínum sem abbadís og ráðgast við æðri máttarvöld gegnum sitt innra ljós þá skrifaði hún þrjú stór verk guðfræðilegs eðlis, tvö um náttúrufræði og lækningar, eina dýrlingaævi og sitt eigið stafróf og gervitungumál. Hún ferðaðist um til að predika, átti í bréfaskiptum við háttsett fólk víðsvegar að og stundaði kraftaverkalækningar. Í dag er hún ef til vill þekktust fyrir tónverk sín, en hátt í 80 tónverk eru varðveitt eftir hana, sem er líklega einsdæmi frá miðöldum. Eitt þessara verka skilst mér að sé einhverskonar söngleikur með siðferðislegum boðskap, Ordo Virtutum. Þrátt fyrir langa ævi og mikið starf þá var Hildegard nær stöðugt alvarlega veik. Flestir hafa giskað á að hún hafi þjáðst af mígreni, en margt í lýsingum hennar á hinum yfirnáttúrulegu sýnum bendir til svæsinna mígreniskasta.

Síðasti hluti dýrlingaævinnar fer í upptalingu á kraftaverkalækningum Hildegard, en hún var til dæmis fær um að veita blindum sýn, auk þess sem það reyndist í það minnsta þremur konum vel að hnýta fléttu úr hári hennar um mittið við erfiðar fæðingar. Það kraftaverk sem greinilega vegur þyngst í frásögninni er þegar Hildegard, á gamals aldri, rekur djöful úr andsetinni konu. Konan sem um ræðir var ung og af góðum ættum og hét Sigewize. Svo virðist sem Hildegard hafi snemma frétt af veikindum hennar, en þar sem hún áleit guð hafa einhvern skynsamlegan tilgang fyrir því að leyfa framferði þessa djöfuls á annað borð, þá leiddi hún málið hjá sér en hugleiddi þess í stað guðfræðilega og eðlisfræðilega virkni slíkra fyribæra.

Að átta árum liðnum, þegar konan hafði verið leidd til hinna ýmsu helgistaða, þá tókst loks að pína upp úr djöflinum að hann myndi eingöngu víkja fyrir „kerlingarherfunni í Rínarhéruðum“. Eftir hjálparbeiðni sendi Hildegard úthugsaða leið til djöflasæringar bréfleiðis. Í stuttu máli sagt skyldu sjö prestar fasta og biðja í nokkra daga áður en þeir umkringdu andsetnu konuna, síðan fóru þeir með flóknar guðfræðilegar formúlur, hver á fætur öðrum. Allir voru þeir vopnaðir prikum, og mikilvægt skref í djöflasæringunni var að slá konuna með þeim frá hæl að hnakka. Hildegard tók fram að það mætti ekki slá of fast, en maður spyr sig, hversu fast hafa prestarnir álitið sig þurfa að slá til að rekja út þennan þaulsetna djöful? Særingin tókst, lýðurinn fagnaði og konan þakkaði guði. En, einungis örstuttri stundu síðar sneri djöfullinn aftur í hýsil sinn og sagði að þar sem þeir hefðu ekki gætt þess að innsigla hýsilinn þá hefði hann komið aftur, og færi ekki nema í návist Hildegard. Konugreyið var því sent til hennar til klaustursins í Rupertsberg, þar sem lokst tókst að særa djöfulinn út með miklu erfiði. Sigewize gerðist klaustursystir eftir þetta, en virðist ekki hafa lifað mörg ár.

Það er afskaplega erfitt að standast þá freistingu að sjúkdómsgreina fólk í sögunni, og Hildegard sjálf og mígrenið er gott dæmi um það. Ég er hins vegar ekki viss um hve góðar forsendur við höfum til þess, hundruð ef ekki þúsund árum síðar. Það gerist oft í nútímanum að fólk sé ekki rétt sjúkdómsgreint, hvað þá ef „greinandinn“ hefur aldrei hitt manneskjuna sem á að greina, og menningarmunur mörg hundruð ára skilur þau að. Þó einhver á 12. öld hafi skrifað lýsingu á andsetinni konu þá er ekki þar með sagt að við getum sett þá frásögn á snyrtilegan hátt í ramma nútímageðlækninga. Þó vil ég nefna hér þá tilgátu að konan hafi þjáðst af „predikunarmaníu“, hvað sem það nú er.

Hvað einkenndi hegðun andsetnu konunnar? „.... this woman lost the right use of her senses and actions, and was constantly shouting out and doing unseemly things.“ En hvað þýðir það? Hvað var óviðeigandi í Þýskalandi á 12. öld? Þeir sem heyrðu djöfulinn tala álitu sig geta greint á milli orða hans og orða konunnar. Við fyrstu særinguna virðist hann hafa gefið frá sér óeðlilegan og óhugnalegan hávaða, sem stóð yfir í um það bil hálftíma (hvernig sá hálftími var mældur er annað mál). Við seinni særinguna skalf konan ákaflega og stappaði í jörðina. Það sem meira er: „... because of the dreadful spirit which was assailing her, she emitted frequent blasts of air.“ Áður hefur Hildegard minnst á að djöfulinn hafi skelft alla, ekki bara með ruddalegum orðum sínum heldur einnig ógeðslegum loftblæstri. Hvað merkir þetta? Ofandaði konan? Ropaði hún eða hikstaði? Eða var hún hreinlega bara að prumpa? Hið síðasta virðist ekki ólíklegt, því lokaniðustaða særingarinnar er þessi: „Then the unclean spirit withdrew from her in a horrible way with a discharge from the woman's private parts.“ Þessi saga hefur eflaust upphaflega átt að vekja óhug lesanda en ekki síst lotningu fyrir krafti guðs og dýrlingsins, og ætti með réttu að vekja hjá mér sagnfræðilega forvitni og samúð með vesalings konunni. En nei, bjánalegt fliss var uppskeran þegar ég las söguna og í hvert skipti sem ég hef hugsað um hana síðan þá. Djöfullegur vindgangur frammi fyrir söfnuðinum í húsi Drottnins!

Heimildir:
Jutta and Hildegard. The Biographical Sources. Translated and introduced by Anna Silvas. Úr ritröðinni Medieval Women: Texts and Contexts. Turnhout, 1998. 
Sabina Flanagan. Hildegard of Bingen, 1098-1179. A Visionary Life. London og New York, 1989.

No comments:

Post a Comment