Tuesday, June 25, 2013

Í harðbýlu landi

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skrifaði grein í Fréttablaðið um helgina þar sem hann leiðrétti nokkrar rangfærslur um söguleg atriði í ávarpi forsætisráðherra 17. júní. Sögulegar rangfærslur stjórnmálamanna eru ekki nýjar af nálinni og þær fullyrðingar Sigmundar Davíðs sem Guðni gagnrýnir eru alveg dæmigerðar; snúast um einingu og samheldni íslensku þjóðarinnar gagnvart utanaðkomandi erfiðleikum. Eins og bent var á í umræðum á Gammabrekku, póstlista sagnfræðinga, er athyglisvert að aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, Jóhannes Þór Skúlason, er menntaður sagnfræðingur og hefur lengi starfað sem sögukennari, svo varla er hægt að kenna um algjörri vanþekkingu í nánasta umhverfi Sigmundar.

Árið 2008 skrifaði ég grein í Sagnir, tímarit sagnfræðinema, sem bar yfirskriftina Íslandi allt! og fjallaði um söguskoðunina sem birtist í hinni alræmdu skýrslu Ímynd Íslands. Greinin var byggð á styttri grein sem birtist á Vefritinu á svipuðum tíma. Skýrslan Ímynd Íslands stendur enn fyrir sínu sem stórkostlega brjáluð lesning og sagan er bara einn hluti hennar, en Sagnfræðingafélag Íslands tók sig til á sínum tíma og mótmælti þeirri söguskoðun sem birtist í skýrslunni í línum á borð við þessa: „Íslendingar eru dugleg og stolt þjóð, mótuð af lífsbaráttu í harðbýlu landi.“ Myndirnar hafa líka verið rifjaðar upp reglulega:
Þegar ég skrifaði greinina Íslandi allt! var ég búin að vera BA-nemi í sagnfræði í um eitt og hálft ár og var enn að jafna mig á tilfinningunni sem gagntók mig þegar ég byrjaði í náminu og komst að því að hin hefðbundna söguskoðun um sjálfstæða og sameinaða íslenska þjóð í sífelldri baráttu við vonda útlendinga var löngu úrelt; mér leið eins og ég hefði verið höfð að fífli frá barnæsku. Mest áhrif hafði það á mig að lesa þá frábæru bók Íslenska þjóðríkið. Uppruni og endimörk eftir Guðmund Hálfdanarson, sem ætti að vera skyldulesning allra fullorðinna Íslendinga, helst með einhvers konar valdboði ríkisins auðvitað.

Svava Grönfeldt, þáverandi rektor Háskólans í Reykjavík og formaður nefndarinnar sem var fengin til að skrifa Ímynd Íslands, vísaði til þess í svari til sagnfræðinga að söguskoðunin í skýrslunni væri ekki komin frá nefndinni sjálfri heldur fulltrúum íslensks almennings sem hefðu verið valdir af handahófi í rýnihópa Gallup. Ég velti því þess vegna fyrir mér í greininni í Sögnum hvernig sambandi fræðimanna og almennings væri háttað, fyrst þessi margra áratuga gamla söguendurskoðun sagnfræðinga virtist ekki hafa skilað sér að neinu marki til hinnar djörfu og samheldnu þjóðar, og þetta er eitthvað sem ég hef haldið áfram að furða mig á æ síðan.

Ég hef komist að því að gagnrýni á íslenska þjóðernishyggju og söguskoðun í hennar anda er aldeilis ekki bundin við sagnfræðinga – og þeir eiga það til að láta í sér heyra, líkt og Guðni Th. Jóhannesson núna um helgina – heldur er hana einnig að finna víða í fræðaheiminum, í bókmenntum og myndlist, menningarlegri og pólitískri umræðu. Það dugir bara greinilega ekki til. „Ímynd Íslendinga“ lifir góðu og sjálfstæðu lífi þarna úti og virðist enn nógu vænlegt pólitískt vopn til að stjórnmálamenn sjái sér í hag að endurframleiða hana stöðugt

Eitt besta dæmið er auðvitað forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur beitt algjörlega blygðunarlausum þjóðernisáróðri í þessari sérkennilegu persónulegu herferð sinni síðustu ár, og lagt sérstaka áherslu á tengsl hins íslenska eðlis við íslenska sögu. Svo vill til að Ólafur Ragnar er doktor í stjórnmálafræði og rannsakaði á sínum tíma meðal annars íslenska þjóðernisstefnu sem pólitískt afl. Doktorsritgerðin hans heitir Political power in Iceland. Prior to the period of class politics 1845-1918. Hann hefur einnig skrifað rit á borð við  Icelandic nationalism. A dissolution force in the Danish kingdom and a fundamental cleavage in Icelandic politics. Hvað á maður eiginlega að lesa úr þessu? Er þetta eitthvað master plan hjá forsetanum, eða erum við kannski tilraunamýs í áframhaldandi stjórnmálafræðirannsóknum hans?

Ólafur er auðvitað ekki einn, þótt hann sé yfirgengilegur, og þetta er gamalt stef – það er ekki eins og Vigdís Finnbogadóttir hafi ekki snert af fjallkonuímynd. Ragnheiður Kristjánsdóttir sagnfræðingur hefur fjallað um það hvernig íslenskir kommúnistar nýttu sér íslenska þjóðernishyggju óspart í sinni baráttu, jafnvel þótt það gengi þvert á yfirlýst markmið alþjóðlegra kommúnistahreyfinga, og notuðu hana þannig taktískt í íslensku samhengi. Þjóðernishyggjan var auðvitað áberandi í baráttunni gegn hernum og erlendum áhrifum eftir miðja 20. öld, og það er fjarri því að vinstri hreyfingin í dag sé ósnortin af slíkum hugmyndum.

Það er til dæmis mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig gamalkunnar þjóðernishugmyndir hafa þróast innan vaxandi ferðamannaiðnaðar á Íslandi – aftur hvarflar hugurinn til ákveðinna kafla í Ímynd Íslands – og retorískt samband ferðamannaiðnaðarins og umhverfisverndar sem einhvers konar valkosts við virkjunarframkvæmdir hægri aflanna virðist oft standa í frekar óþægilegum tengslum við íslenska þjóðernishyggju. Virkjunarframkvæmdirnar eru auðvitað málaðar upp sem sönn föðurlandsást, þær blása lífi í dreifðari byggðir landsins, þar sem hinir sönnu Íslendingar búa en ekki þessir úrkynjuðu Reykvíkingar sem setja flóaða mjólk í kaffið sitt – það er augljóslega freistandi fyrir andstæðingana, sem gera sitt besta til að nota arðinn af túrismanum sem efnahagslegan krók á móti bragði, að grípa hugmyndafræðilega til þjóðernishyggjunnar sem hefur oft reynst svo vel. Ég var til dæmis á fundi um loftslagsmál um daginn þar sem fram fóru umræður um það hvort það væri æskilegt/verjandi að nota íslenska þjóðernishyggju markvisst í baráttunni gegn loftslagsbreytingum hér heima.

Það virðist allavega ekki vera neinn almennur vilji til þess að leggja þjóðernishyggjuna til hliðar sem marktæka pólitíska retorík, hvorir það eru nú sem eiga meiri þátt í að halda henni lifandi, almenningurinn sem stjórnmálamenn telja sig vera að höfða til eða stjórnmálamennirnir sjálfir.

3 comments:

 1. Takk fyrir skemmtilega lesningu.

  Mig grunar að þessi þjóðernishugsun sé bara einn angi af hugsunarsmokkfiski sem teygir sig víðar. Fótboltasagan hjá Auði Jónsdóttur inniheldur annan anga, þar sem fólk hefur þjálfað sig í að horfa á markatöluna 14:2 og ná samt að komast að þeirri niðurstöðu að við séum best. Íþróttadeildir eru beinlínis samtök "við"-a sem öll eru á einhvern undarlegan hátt best. Kannski af því að þau eru öll frá sama landinu, sem líka er best.

  Ef okkur tekst að ala upp kynslóð af börnum sem, aðspurð um hverjir séu bestir, svara að leikslokum og með hliðsjón af úrslitum frekar en að fullyrða fyrirfram, grunar mig að þjóðernisremban dvíni sjálfkrafa.

  En svo eru auðvitað fleiri angar

  (Eftir á að hyggja er smokkfiskurinn ágætis líking, verandi lindýr sem sprautar bleki þegar það er áreitt.)

  ReplyDelete
 2. Smokkfiskur með anga - einhverskonar smokkkolkrabbi. Sannnefnt monstrum terribile.

  ReplyDelete
 3. Er þetta ekki beisiklí sama dýrið? Decapodeito decapodato.

  Smokkkolkrabbi (fyrir utan að vera stafsetningarviðrini, ásamt "sannnefnt") er væntanlega tvíburahugtak eins og salsa-sósa eða nan-brauð (eða fjaðurpenni, for that matter).

  Sorry fyrir að hafa afvegaleitt umræðuna áður en hún hófst. En svona er að áreita bloggfisk, squid pro quo.

  ReplyDelete