Monday, July 29, 2013

Go easy on Schnaps

Ég rakst á frábæra litla bók um helgina, Instructions for British Servicemen in Germany 1944. Um er að ræða útgáfu The Bodleian Library á leiðbeiningum sem breska utanríkisráðuneytið gaf út árið 1944 fyrir breska hermenn á leið til Þýskalands. Í bókinni – sem hefur væntanlega verið einhvers konar bæklingur upphaflega – eru bresku hermennirnir fræddir um þýska landafræði og sögu, grundvallarorðaforða í þýsku og síðast en ekki síst hugarfar og eðli óvinaþjóðarinnar.

Samkvæmt því gamalkunnuga viðhorfi til þýskrar sögu sem birtist í bókinni er árásargirnin Þjóðverjum í blóð borin, sem arfur frá Prússum. Eftir fyrri heimsstyrjöldina sýndu Bretar og bandamenn þeirra hinum sigruðu Þjóðverjum of mikla linkind, en sú mistök megi ekki gera aftur; ef Þjóðverjar fái tækifæri til séu þeir vísir til að stofna til þriðju heimsstyrjaldarinnar. Því er í leiðbeiningunum lögð mikil áhersla á að bresku hermennirnir verði að vera á verði gagnvart Þjóðverjum: „There will be no brutality about a British occupation, but neither will there be softness or sentimentality.“ (6) Stefna Breta á þessum tíma var að banna samgang - eða fraternization - breskra hermanna við Þjóðverja.

Berlín í júlí 1945
Það er greinilegt að höfundar leiðbeininganna hafa nokkra hugmynd um það stríðshrjáða Þýskaland sem bíður hermannanna. Þeir minna lesendur sína oftar en einu sinni á að Þjóðverjar, sem nú barmi sér yfir fátækt og hungri, hafi sjálfir kallað ógæfu sína yfir sig með stuðningi við nasismann: „You may see many pitiful sights. Hard-luck stories may somehow reach you. Some of them may be true, at least in part, but most will be hypocritical attempts to win sympathy. For, taken as a whole, the German is brutal when he is winning, and is sorry for himself and whines for sympathy when he is beaten.“ (7)

Að sama skapi er lögð áhersla á það að þótt Þjóðverjar líti ekki út fyrir að vera mjög frábrugðnir Bretum sé það blekking. Þeir séu mjög háðir yfirvaldi og vilji helst ekki hugsa fyrir sig sjálfir eða taka ábyrgð á neinu. Þetta er úr kaflanum What the Germans are like. Í undirkaflanum The mind of the German er lýsing á þeirri blöndu tilfinningasemi og grimmdar sem sé að finna í huga Þjóðverja:

„They love melancholy songs; they easily get sorry for themselves; even childless old couples insist on having their Christmas tree. German soldiers would play with Polish or Russian children, and yet there are enough authentic reports of these same children being shot or starved to death. This mixture of sentimentality and callousness does not show a well-balanced mind. The Germans are not good at controlling their feelings. They have a streak of hysteria. You will find that Germans may often fly into a passion if some little thing goes wrong.“ (30)

Þannig er leiðbeiningunum, auk þess að innihalda grundvallarfróðleik um land, þjóð og tungu, ætlað að hvetja breska hermenn til að draga skýr mörk milli vinar og óvinar og láta ekki augljósa mennsku og bágborið ástand þýskra borgara vekja hjá sér samúð sem gæti haft slævandi áhrif á hermannlega dómgreind. Það er svo annað mál hvort allir hermennirnir hafa verið færir um það þegar til Þýskalands var komið.

Sú mynd sem Bretar hafa af sjálfum sér birtist á skondinn hátt í kaflanum What the Germans think of us. Þjóðverjar, segja höfundar, hafa jákvæða afstöðu til Breta og dást að þeim á mörgum sviðum: „They think that we are fair, decent and tolerant and that we have political common sense.“ (35) Augljóslega eru höfundar bæklingsins ekki ósammála Þjóðverjum í þessu.

Þeir finna sig jafnframt knúna til að mótmæla því að Þjóðverjar séu eitthvað betur skipulagðir en aðrar þjóðir: „In fact the German tends to over-organise; this war has shown that our organisation, when we really get down to it, is just as thorough and more flexible.“ (35) Eins og sjá má er hiklaust talað um Þjóðverjann í bókinni, í eintölu með greini. Pólitísk staða heimsstyrjaldarinnar á þessum tíma skín í gegn á fleiri stöðum, en bresku hermennirnir eru sérstaklega varaðir við því að trúa ljótum sögum þýskra borgara um framferði vinaþjóðar Breta, Rússa.

Bókinni fylgir dálítill formáli, en kaflinn um þýskan orðaforða hefur verið styttur frá upprunalegri útgáfu. The Bodleian Library hefur einnig gefið út leiðbeiningar fyrir breska hermenn á leið til Frakklands 1944 og bandaríska hermenn á leið til Bretlands og til Ástralíu 1942. Mér finnst þessi útgáfa einstaklega vel til fundin. Bókin gefur áhugaverða innsýn í afstöðu Breta til Þjóðverja árið 1944 og er auk þess skemmtileg aflestrar – og stundum praktísk fyrir gesti í Þýskalandi enn í dag:

„GO EASY on Schnaps.

REMEMBER that in Germany „venereal diseases strike at every fourth person between the ages of 15 and 41.“

(51)

No comments:

Post a Comment