Thursday, June 20, 2013

Smjörfjall sögunnar

Þegar Þorsteinn stakk upp á því að bloggið sem nú hefur göngu sína hefði yfirskriftina Smjörfjall sögunnar fögnuðum við Ragnhildur þeirri hugmynd mjög. Við þóttumst báðar muna eftir því að í einu grunnnámskeiðanna í sagnfræðinni hefði verið fjallað um smjörfjall í Skálholti á öldum áður, tekið upp úr frásögn ferðalangs sem við mundum reyndar ekki hver var. Það var okkur þó sérlega minnisstætt að smjörfjallið, sem hafði uppbyggst af smjörskatti alþýðunnar, átti að hafa verið grænt að utan af myglu og þurft að skafa utan af því til að komast í ætt smjör.

Við sáum strax fyrir okkur að smjörvísunin gæfi tilefni til hressilegrar upphafsfærslu, þar sem við lýstum hinu mjög svo myndræna græna smjörfjalli og klykktum út með eins og einni hnyttinni tilvitnun í ferðalanginn ónefnda, sem brygði ljósi á nafngift bloggsíðunnar: Eins og smjörfjall er sagan, græn að utan en súr hið innra.

Þetta reyndist hins vegar flóknara en við höfðum talið. Gúgl og ýmsar uppflettingar gáfu engar vísbendingar um smjörfjall í Skálholti. Að lokum leituðum við á náðir tveggja þrautreyndra sagnfræðinga, Helga Þorlákssonar og Gunnars Karlssonar, og komumst að því að þessar skýru minningar okkar snerust sennilega um frásögn af smjörbirgðum Hólastaðar á tímum Guðbrands biskups Þorlákssonar, sem voru vissulega fleiri tonn.

Engar heimildir eru fyrir því að smjörfjallið á Hólum hafi verið grænt. Aftur á móti var það kallað Grásíða, mögulega af því að það var grátt. Við fundum engar hnyttnar tilvitnanir um Grásíðu, einungis þurrar lýsingar á magni smjörs sem í hana var lagt, samanber þetta dæmi úr Bréfabók Guðbrands Þorlákssonar: „jtem j gralima sijdu. og kalf. jc og xl vætter”. Eins og Helgi Þorláksson benti okkur á er smjörfjallshugtakið í huga fólks einkum tengt umframbirgðum evrópskra bænda á landbúnaðarafurðum um 1980. Semsagt: tótal antíklímax.

Nú vil ég ekki halda því beinlínis fram að þetta sé táknrænt fyrir sagnfræðina, sem sé tótal antíklímax, en ætli hún sé ekki alltaf hvort tveggja; græn og súr og myndræn, grá og loðin og staglkennd. Báðar og allar þessar hliðar sögunnar verða til umfjöllunar á blogginu Smjörfjall sögunnar, sem stofnað er til af fjórum sagnfræðiunnendum. Við erum, með viðeigandi titlatogi:

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, meistaranemi í sagnfræði við Háskólann í Vín
Kristín Svava Tómasdóttir, meistaranemi í sagnfræði við Háskóla Íslands
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, meistaranemi í miðaldafræði við Háskóla Íslands
Þorsteinn Ö. Vilhjálmsson, BA í klassískum fræðum frá Háskóla Íslands

Hér munum við ræða allt sögulegt og sagnfræðilegt, en forðast að sjálfsögðu jafnan að strá glerbrotum í smjör alþýðunnar.

2 comments:

  1. Ég man eftir reglulegum fregnum af stærð smjörfjallsins frá því ég var barn, sbr. hér: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119846&pageId=1602016&lang=is&q=Smj%F6rfjalli%F0 Ég man þó ekki til þess að litur þess hafi verið tilgreindur en það má vel vera að það hafi verið framsóknargrænt.

    Hér rakst ég líka á skemmtilega frétt um smjörfjall: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=120319&pageId=1621057&lang=is&q=Smj%F6rfjalli%F0 Kvikmyndin sem þarna er talað er um skipti svo um nafn; hún átti að heita Butter Mountain en hlaut svo nafnið Paris by Night.

    Til hamingju með bloggið!

    ReplyDelete
  2. Vúhú! Ég finn á mér að þetta blogg verður konstant klímax!!!

    Ykkar að eilífu,
    Gelsa

    ReplyDelete