San Fernando-kirkjugarðurinn var stofnaður árið 1852 til að anna greftrunum í hinni ört stækkandi borg. Hann er dálítinn spöl frá miðbænum og það var satt að segja bölvað vesen að komast þangað. Það var þar að auki steikjandi hiti þegar við vorum þar á ferð í júní, sem jók á suðrænan blæ kirkjugarðsins. Hann prýða meðal annars fjölmörg pálmatré, sem samkvæmt hinni alvitru og dramatísku Wikipediu „tákna sigur lífsins, og eilífðina“.
Eins og hæfir andalúsískum kirkjugarði er San Fernando-garðurinn fullur af nautabönum og flamencolistamönnum. Nautabanarnir, þær miklu þjóðhetjur, hafa fengið sérstaklega glæsileg minnismerki. Það var bannað að taka myndir í garðinum og minnismerki nautabananna voru svo nálægt aðalhliðinu að ég þorði ekki að óhlýðnast banninu þar, en fann myndir af þeim á netinu:
Í þessu dramatíska grafhýsi hvílir nautabaninn Joselito (1895-1920), sem lést eftir að hafa særst í hringnum |
Og hér er stytta af Paquirri (1948-1984), sem þurfti einnig að láta í lægra haldi fyrir nauti |
Bannað að losa ösku á hringtorgið |
Undirrituð og Þorsteinn Vilhjálmsson, uppnumin við gröf goðsins |
Mín uppáhaldslög með Antonio Machín eru stuðlög á borð við Cartagenera og Camarera de mi amor, en við Þorsteinn erum sammála um að eitt áhrifaríkasta lagið hans sé Angelitos negros. Það var ekki fyrr en nokkru eftir að ég heyrði það fyrst sem ég fór að leggja eyrun við textann og uppgötvaði að hann fjallar um rasisma í klassískri listsköpun; það væri vel hægt að yfirfæra þetta á klassíska sönginn þar sem Machín átti ekki framtíðina fyrir sér (þótt ég sé fegin því af eigingirni minni að hann hafi farið yfir í bóleróinn).
Angelitos negros þýðir „litlir, svartir englar“. Í textanum, sem byggt er á ljóði eftir venesúelska ljóðskáldið Andrés Eloy Blanco, ávarpar ljóðmælandi listmálara sem er frá sama landi og ljóðmælandinn en málar eftir fordæmi gömlu meistaranna. Hann málar „litla, fallega engla“ og hvíta Maríu mey, en aldrei svarta engla, þótt hann viti að Guð á himnum elski þá líka. Fleiri söngvarar en Antonio Machín hafa sungið Angelitos negros, þar á meðal Eartha Kitt, en hér er útgáfa kúbanska meistarans:
No comments:
Post a Comment