Fáir staðir veita manni jafn rómantíska tilfinningu fyrir hverfulleikanum og kirkjugarðar, enda fullir af dánu fólki. Ég er mikil kirkjugarðamanneskja og finnst afar notalegt að ganga þar um, skoða minnismerki og lesa á legsteina, og mér þykir liggja beint við að innlima umfjöllun um kirkjugarða, þá miklu minningastaði, í þessa bloggsíðu um fortíðina. (Við það tækifæri vil ég vekja sérstaka athygli á tenglinum hér til hægri inn á heimasíðu Bautasteins, tímarits Kirkjugarðasambands Íslands. Tímaritið er helgað kirkjugörðum, kemur út einu sinni á ári og er aðgengilegt á netinu.) Undanfarin ár hef ég markvisst heimsótt kirkjugarða á ferðum mínum
erlendis (ég er mikil heimsmanneskja) og hef jafnvel sigrast á
blygðunarkenndinni og byrjað að taka þar ljósmyndir.
Á síðasta ári heimsótti ég fáeina kirkjugarða á Íberíuskaganum, þar af tvo í Lissabon: Prazeres-kirkjugarðinn og Alto de São João-kirkjugarðinn. Sennilega leggja fleiri ferðamenn leið sína í Prazeres-garðinn enda er hann mjög aðgengilegur frá miðbænum (hinn mikli túristasporvagn númer 28 á endastöð sína hjá garðinum) og fullkomlega verðugur áfangastaður eigi maður leið um borgina.
Prazeres-kirkjugarðurinn var stofnaður í kjölfar kólerufaralds á fyrri hluta 19. aldar og er stærsti kirkjugarður í Lissabon. Hann er vandlega skipulagður, með steyptum gangstígum og breiðgötum, og grafhýsi af öllum stærðum og gerðum setja mark sitt á hann. Samkvæmt heimasíðu borgarstjórnarinnar í Lissabon voru „glæsilegustu íbúðarhúsin í Lissabon flest staðsett í þessum hluta borgarinnar og því eru margir af merkustu mönnum samtímasögu okkar grafnir í þessum kirkjugarði“.
Fallegt útsýni og snyrtilegar götur í Prazeres-garðinum
Sum fjölskyldugrafhýsin eru vægast sagt heimilisleg
Það tekur smá tíma að venjast því að sjá kisturnar
inn um gluggann á útidyrunum
Hér hefur fjölskyldan ef til vill ekki haft efni á að borga leiguna,
en óvíst er hvert hinir framliðnu hafa farið
Sennilega er ódýrara að vera í skúffu
"Vantar meiri hauskúpu"
Það eru ýmis temmilega fræg nöfn grafin í Prazeres-kirkjugarðinum, til dæmis skáld á borð við Jorge de Sena og Antonio Tabucchi. Frægustu einstaklingarnir sem þar hafa verið grafnir eru þar samt ekki lengur; bæði skáldið Fernando Pessoa og fadosöngkonan Amália Rodrigues voru grafin upp og flutt annað sökum frægðar sinnar og merkilegheita. Pessoa hvílir nú í klaustri heilags Hírónýmusar í Belém en Amália í því sem kallað er Þjóðarpanþeoinn og ég veit ekki hvernig er best að þýða á íslensku, en er bygging sem var reist sem kirkja og stendur í Alfama-hverfinu.
Ég gerði heiðarlega tilraun til að finna gröfina þar sem Fernando Pessoa hvíldi ásamt frænku sinni áður en hann var grafinn upp, en dvalarstað Pessoa í Prazeres-garðinum er lýst í bókinni Árið sem Ricardo Reis dó eftir José Saramago. Ég gekk þó nokkra stund um garðinn með bókina í höndunum og reyndi að fá lýsingu Saramago, með sínum endaleysum og útúrdúrum,til að passa við garðstígana fyrir framan mig, en gafst að lokum upp.
Kirkjugarðurinn á Alto de São João er ekki jafn auðfinnanlegur og Prazeres-garðurinn, þótt hann sé ekki mjög langt frá miðbænum, en hann var stofnaður eftir sama kólerufaraldurinn árið 1833. Ég lagði leið mína þangað fótgangandi á steikjandi heitum vordegi; miðað við augngotur íbúanna eru útlendingar almennt ekki á miklum þvælingi þarna í hverfinu. Garðurinn er þó fyrir sitt leyti mikilvægur; til dæmis var fyrrnefndur José Saramago brenndur í líkbrennslunni á Alto de São João, sem ku vera elsta líkbrennsla í Portúgal. Að öðru leyti svipar honum frekar til Prazeres-garðsins, með sínum grafhýsum og snyrtilegu götum, þótt það hafi kannski ekki búið jafn mörg mikilmenni í þessum hluta borgarinnar.
Hér má hvíla lúin bein
Það er óljóst hvað stoppar á þessari stoppistöð
Minnismerki um þá sem dóu í fangabúðum einræðisins
í Tarrafal á Grænhöfðaeyjum
Mér þykir viðeigandi að ljúka þessari stuttu umfjöllun með söng Amáliu Rodrigues, sem nú húkir í fámennum selskap í þjóðgrafreitnum, um portúgalska heimilið, hvers ídeal birtist svo fagurlega í fjölskyldugrafhýsum fyrrnefndra kirkjugarða.
No comments:
Post a Comment