Síðastliðna viku hef ég, starfs míns vegna, lesið svo mikið sem þrjár sjálfsævisögur. Ég er svo heppin í sumar að hafa fengið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna að vefsíðu sem á að halda nafni ýmissa kvenna í sögunni á lofti, og er hugsuð með með lesandahópinn 13 ára til níræðs í huga. (Fyrir forvitna, þá mun síðan líta nokkurn veginn svona út þegar hún fer í loftið). Framtíðarplan síðunnar er að fólk víðsvegar að geti sent inn greinar um konur sem það þekkir til, en þar sem síðan er í startholunum þarf ég að glíma við þá áskorun að skrifa um konur frá sem flestum heimsálfum, og helst með ólíkan bakgrunn. Þetta veldur mér töluverðu heimildastappi, því ég verð að finna nógu margar og góðar heimildir til að geta tjáð mig um efnið með sjálfstæðum hætti, annars gæti ég í flestum tilfellum allt eins sett inn link á viðkomandi konu á Wikipediu. Hins vegar mega heimildirnar ekki vera of viðamiklar, því umfjöllunin um hverja konu á helst ekki að vera neitt meira en 900 orð í mesta lagi. Heimildavinnan má heldur ekki taka heila eilífð. En, þetta starf hefur sumsé rekið mig að heimild sem mér hafði með árangursríkum hætti tekist að forðast þau fimm ár sem ég sinnt sagnfræði, hina ógurlegu sjálfsævisögu.
Sjálfsævisögurnar sem um ræðir eru Narrative of Sojourner Truth, a Northern Slave, Emancipated From Bodily Servitude by the State of New York, in 1828. WITH A PORTRAIT (hvorki meira né minna), sem kom fyrst út árið 1850, Growing Pains ( frá 1946) eftir kanadíska listmálarann Emily Carr, og loks Lady Sings the Blues (frá 1956) eftir Billie Holiday. Í stuttu máli sagt þá neyddu þessar bækur mig til að horfast í augu við mína eigin trúgirni og þó lestur þeirra hafi verið afar ánægjulegur, þá er mér meinilla við að hafa stundum neyðst til að nota þær sem heimildir. Því við lestur annarra heimilda um þessar konur rann upp fyrir mér hversu auðveldlega sviðsetningar og jafnvel vísvitandi lygar leggja undir sig söguna.
Vandkvæðin við sjálfsævisögu Sojourner Truth eru augljós. Hún var einstaklega hæfileikaríkur og víðfrægur ræðumaður í Bandaríkjunum á 19.öld, en staðreyndin er sú að hún kunni hvorki að lesa né skrifa. Að hve miklu leyti bókin er verk Sojourner, eða „ritstjórans“ Olive Gilbert, er ómögulegt að segja. Það sem meira er, þá hefur bókin verið gefin út í ótal mismunandi útgáfum, með að því er virðist heilmiklum breytingum. Stundum var orðalagi breytt eða rangfærslur settar inn eftir því hverjar væntingar fólks voru til baráttukonunnar Sojourner á útgáfutímanum það og það skiptið. Það var því með blendnum huga sem ég notfærði mér fræðigrein sem gerði út á það að hampa þeim gjörðum Sojourner sem yfirleitt eru ritskoðaðar úr umræðunni um hana, vegna skorts hennar á „fágun“. Þetta voru atriði eins og útskýringar hennar á því af hverju hún gengi ekki í nærbuxum, og atvik þegar hún beraði á sér brjóstin á ræðufundi til að þagga niður í nokkrum yfirgangsfullum, hvítum körlum. Um mörg þessara atriða var vitnað til sjálfsævisögu hennar, en eina útgáfan sem ég hafði aðgang að var sú elsta, sem er ókeypis á netinu. Þar var hvorki tangur né tetur af þessum atvikum. Ekki vildi ég taka þátt í því að búa til einhverja postulínsútgáfu af Sojourner, svo ég hafði þetta með í greininni. Samt sem áður er ég á nálum með að fá einhvern daginn öskureiðan tölvupóst frá sérfræðingi í réttindabaráttu svartra Bandaríkjamanna, sem spyr mig hvernig mér hafi dottið í hug að ásaka þessa merku konu um stripl á almannafæri.
Listmálarinn Emily Carr er annað mál. Hún gerðist rithöfundur rétt undir blálokin á ævi sinni, af því að heilsa hennar leyfði henni ekki lengur að mála. Allar skáldsögur hennar og smásögur eru meira og minna byggðar á hennar eigin ævi og reynslu, en í hennar huga voru þær fyrst og fremst skáldskapur. Hún skrifaði með sama markmið í huga og þegar hún málaði, að losa sig við smáatriðin svo eftir stæði einungis kjarninn. Engu að síður heitir ein bók hennar beinlínis sjálfsævisaga, og gerir þannig þónokkuð tilkall til að vera „sönn“. Ég notaði hana aðallega sem heimild um upplifanir Carr og reynslu, en sótti öll smáatriði annað, því eitt af einkennum skrifa hennar er að hún yngir sjálfa sig í sögunum sem hún segir. Tímasetningar sem hún gaf upp, sem oft virtust mjög nákvæmar, stóðust oft ekki samanburð við fræðigreinar.
Það sem snerti mig mest var kaflinn þegar hún lýsti því þegar hún var við nám í Englandi og eyddi um það bil einu og hálfu ári á stofnun fyrir berklasjúklinga. Frásögnin er svo uppfull af smáatriðum og einlægni, að lesandinn á auðvelt með að horfa framhjá því að í raun gefur hún ekkert uppi um dvöl sína þar eða ástæðurnar fyrir henni. Þó er ljóst að hún var ekki með berkla. Kaflinn er bersýnilega í bókinni því Carr þurfti að lýsa þeim tilfinningum sem hún upplifði þar, en hún hefur samt þörf fyrir að fela reynslu sína. Í gögnum hressingarhælisins var hún skráð sem „móðursjúk“ og þurfti að þola þá meðferð sem geðsjúklingum var veitt á þessu tímabili vestrænna lækninga. Á afar snjallan hátt beinir hún nær allri athyglinni frá sjálfri sér og að fuglunum sem hún ræktaði í vistinni. Þegar hún lýsir deginum sem hún skipaði hjúkrunarkonu að kæfa þá alla með klóroformi, þá getur það þess vegna þýtt eitthvað allt annað. Voru þessir fuglar yfirhöfuð til?
Lady Sings the Blues kláraði ég í fyrradag, og ef til vill er það þess vegna sem hún situr mest í mér af þessum þremur bókum. En kannski er það frekar af því að skáldskapur hennar hefur verið afhjúpaður með rækilegri hætti en í tilfelli hinna bókanna. Bókin er öll í fyrstu persónu og hún snerti mig djúpt, mér leið eins og ég hefði náð beinu sambandi við þennan óhamingjusama listamann. Ég eiginlega verð að gefa dæmi um stíl bókarinnar:
„All I know for sure is they threw me into a cell. My mother cried and screamed and pleaded, but they just put her out of the jailhouse and turned me over to a fat white matron. When she saw I was still bleeding, she felt sorry for me and gave me a couple of glasses of milk. But nobody else did anything for me except give me filthy dirty looks and snicker to themselves.“
Sannleikurinn er sá að Billie Holiday skrifaði alls ekki þessa bók, heldur „meðhöfundur“ hennar William Dufty. Þó Holiday stæði töluvert betur að vígi en Sojourner Truth hvað menntun varðar, þá hætti hún engu að síður í skóla þegar hún var tíu ára. Hún las bókina yfir á ýmsum stigum, en nokkrum vikum eftir útgáfu sendi hún Dufty póstkort þar sem stóð: „Hey. How's the book going there? You can't get it out this way and it's sold out in Chicago. If you can, send me a copy as I haven't read it yet.“ Þrátt fyrir að það sé velþekkt að hún skrifaði ekki þessa bók, þá er textinn svo sannfærandi að skáldskapur Dufty er víða tekinn upp orðrétt sem „orð Billie“.
Holiday kynntis ótal frægu fólki um ævina. Það fékk handritið til yfirlesturs fyrir útgáfu, og fékk að ráða því hvort nafn þeirra væri birt. Mjög margir létu stroka sig úr bókinni, enda var Holiday handtekin í febrúar 1956, og hafði ekki gott orðspor um þessar mundir. Orson Welles hafði ekkert á móti því að vera nefndur, en svo var ekki um marga aðra. Á meðal þeirra var leikkonan Tallulah Bankhead, vinkona og mögulega ástkona Holiday, sem hótaði lögsókn ef því væri haldið fram í bókinni að hún hefði stundum borðað spagettí á heimili hennar. Oft sé ég hins vegar engan augljósan tilgang með rangfærslum bókarinnar, barnæska Holiday er fegruð lítillega en hljómar engu að síður býsna illa, svo af hverju ekki bara að segja allan sannleikann? Sumt er líka svo smávægilegt, af hverju var mamma hennar sögð hafa eignast hana 13 ára, þegar hún var í raun 19 ára, og af hverju var ættingjunum sem ólu hana upp í fjarveru foreldra hennar skipt algerlega út fyrir annað fólk?
Það sem gerði mig hvað mest reiða er sú tilgáta að heróínfíkn Holiday hafi verið stórlega ýkt í bókinni, til að ná aukinni sölu og gefa bókinni sess sem forvarnarrit. Holiday notaði vissulega heróin allt til dauðadags, en margt bendir til að hún hafi fyrst og fremst verið alkóhólisti, og langvarandi ofneysla áfengis var það sem dró hana til dauða. Holiday virðist hafa verið meinilla við þá neikvæðu fjölmiðlaathygli sem handtökur hennar vegna fíkniefna vöktu, svo það er spurning hvað henni þótti um að vera skilgreind sem Heróínfíkill með stóru H-i í „sjálfsævisögu“ sinni. Annað umdeilt atriði bókarinnar er hvernig síðasta eiginmanni Holiday, Louis McKay, er lýst sem haldreipinu í lífi hennar og manninum sem reyndi að halda henni frá eiturlyfjum, án árangurs. Í raun er fátt sem bendir til að svo hafi verið. McKay var ekki ólíkur öðrum mönnum í lífi Holiday, sem flestir féfléttu hana og beittu heimilisofbeldi. Þau voru skilin að borði og sæng þegar hún lést, en engu að síður var hann löglegur erfingi hennar, og hélt mýtunni við af alúð.
Blekkingin í sjálfsævisögum er náttúrulega ekkert annað en skemmtileg áskorun fyrir sagnfræðing. Þó er þetta í hæsta máta óheppilegt þegar maður stritar í kappi við tímann við að skrifa vandaða og aðgengilega sagnfræði fyrir almenning, um efni sem maður hefur enga fyrri þekkingu á. Þó ég telji mig núna vita hitt og þetta um Sojourner Truth eða Billie Holiday, þá get ég samt í aðra röndina ekki verið viss um að allt sem ég hef skrifað hér sé ekki bara endemis bull og vitleysa.
Heimildir:
Carleton Mabee: “Sojourner Truth and President
Lincoln”. The New England Quarterly
(61:4), 1988, bls. 519-529.
Esther Terry: “Sojourner Truth: The Person
Behind the Libyan Sybil”, The
Massachussets Review (26:2), 1985, bls. 425-444.
Emily Carr: Growing
Pains. The Autobiography of Emily Carr. With
a foreword by Ira Dilworth. Toronto, 1966.
Sharyn R. Udall: “Georgia O’Keeffe and Emily
Carr: Health, Nature and the Creative Process”. Woman’s Art Journal. (27:1), 2006, bls. 17-25.
Janice Stewart: “Cultural Appropriations and
Identificatory Practices in Emily Carr’s “Indian Stories””. Frontiers. A Journal of Women Studies, (26:2),
2005, bls. 59-72.
Billie Holiday with William Dufty: Lady Sings the Blues. With a New Discography
by Vincent Pelote. New York, 1956.
Julia Blackburn: With Billie. New York, 2005.
No comments:
Post a Comment