Thursday, July 11, 2013

Sagnir 2013



Nú í júní síðastliðnum tókst að lokum, með miklu grettistaki, að gefa út tímarit sagnfræðinema, Sagnir. Tímaritið kom síðast út árið 2009 og því má segja að eftirvæntingin eftir nýjasta árgangnum hafi verið blandin hálfgerðri örvæntingu. Það er ekkert annað en frábært að blaðið skuli loks vera komið út. Ég held að sagnfræðin sé eina námsgreinin sem býr svo vel að hafa hefð fyrir því að gefa út rannsóknir nemenda. Ég hefði því orðið ósegjanlega skúffuð ef ég og nemendur mér samferða hefðu misst af þessu tækifæri til að gera rannsóknir okkar aðgengilegri. Því stundum er maður einfaldlega mjög ánægður með einhverja námsritgerðina og þá er það frekar leiðinleg tilhugsun að enginn lesi hana nema kennarinn. Í raun og veru er svona útgáfa grundvallarmál, ef við lítum svo á að það starf sem fer fram innan háskólans hafi einhverja víðari skírskotun.

Eins og yfirleitt í kringum útgáfu Sagna þá koma upp umræður um hvort ekki megi efla blaðið með því að breyta forsendunum fyrir starfinu í kringum það, koma því formlega inn í námskeiðahald sagnfræðideildar eða sameina það nemendafélaginu Fróða. Um þetta eru yfirleitt allir sammála, þó lítið sé að gert, og þetta langa hlé sem varð á útgáfunni bendir sterklega til þess að einhverju þurfi að breyta. Það hvernig fólk býður sig fram í ritstjórn eða hvernig það er valið er mér til dæmis algerlega hulið, og eflaust fleirum, sem hlýtur að valda því að erfiðlega gengur að manna stjórnina. Einnig þyrfti kall eftir greinum að vera meira áberandi, helst fastur liður á hverju misseri. Í nýjustu útgáfu Sagna voru til dæmis bara tvær greinar sem skrifaðar voru upp úr námsskeiðsritgerðum en ekki lokaritgerðum, og þær voru eftir meðlimi ritstjórnar. Þær mættu að ósekju vera fleiri. Skýrari leiðir og hvatning til að senda inn greinar gæti bætt úr því.

Það er þó erfitt að gagnrýna nýjasta árgang Sagna fyrir efnisval, því blaðið þurfti einfaldlega að svara uppsafnaðri útgáfuþörf sagnfræðinema. Í því eru (í fljótu bragði talið) 15 greinar, auk annars efnis. Blaðið er því óhemju þykkt, og nú var tekin upp sú nýjung að gefa það út í öðru broti og með mun fleiri myndum en áður hefur tíðkast. Sjálf er ég mjög hrifin af þessari breytingu, tímaritið fer þannig betur í hillu, auk þess sem greinarnar verða umsvifalaust gáfulegri við það að fara úr því að þekja 3-4 mjög stórar blaðsíður yfir í að taka 12 litlar blaðsíður. Það má segja að umbrotið hafi áður minnt á Lukku-Láka bók en minni nú á Sögu, tímarit Sögufélags. Hin glæsilega ljósmynd sem prýðir forsíðu blaðsins og litur kápunnar rennir frekari stoðum undir þann samanburð. Þetta gæti hinsvegar valdið ruglingi, enda eru nöfn tímaritanna, Sagnir og Saga, nú þegar óþægilega lík. Það væri kannski sniðugt að reyna að skapa Sögnum einhverja útlitslega sérstöðu í framtíðinni. Aðrar tæknilegar framfarir sem vert er að taka ofan fyrir er heimasíða Sagna sem mér skilst að sé í vinnslu, en það sjá allir hvað þessi síða mun verða miklu frambærilegri en þessi hér.

Hvað innihald ritsins varðar ætla ég að segja mest lítið. Ég á þar sjálf grein og þekki líklega helminginn af höfundunum persónulega, svo allur dómur minn á gæði greinanna væri langt frá því að vera hlutlaus. Auk þess ætla ég að viðurkenna það að ég hef ekki lesið helminginn af þeim enn, og ég nennti ekki að bíða með þessa umfjöllun þar til ég væri búin að lesa blaðið. Það yrði væntanlega einhvern tíma í haust, og hver hefði þá áhuga á tímariti sem kom út í júní? Nei, sú umfjöllun verður að bíða þar til ritdómur um hana birtist í næstu útgáfu Sagna, vonandi árið 2014. Ég get þó sagt að hingað til hefur uppáhalds efni mitt í blaðinu verið listi yfir BA- og MA-ritgerðir sem nemendur hafa skilað á árabilinu 2010-2013. Ég efast um að margir deili þeirri hrifningu minni, en mér fannst gaman að sjá þar nöfn sem ég þekki. Svo er líka áhugavert að skoða breiddina í hugðarefnum nýútskrifaðra sagnfræðinga. Því miður virðist a.m.k. ein villa hafa slæðst inn, lokaritgerð Þórðar Atla Þórðarsonar er tilgreind bæði í júní og október 2011. Því er best að fletta til öryggis upp á Skemmu, ef einhver hyggst nota þessar æsispennandi upplýsingar.

No comments:

Post a Comment