Ég er svo heppinn að þótt ég leggi stund á fög sem maður
mundi búast við að væru uppskrift að langtímaatvinnuleysi,
alkóhólisma og brostnum vonum, þ.e. latínu og grísku, þá hefur
mér tekist að fá vinnu við þau sömu fög samfellt undanfarin
tvö ár. Ég hef til dæmis verið að vinna hjá Háskólanum í
Osló við að fara yfir og setja inn málfræðigreiningu á grískum
og latneskum textum inn í þar til gerðan gagnagrunn, sem á svo að
nota við málvísindalegar rannsóknir. Þar sem ég er einmitt ekki
í málvísindum skil ég engan veginn hvaða gagn blessaður
grunnurinn mun gera, en sem betur fer er það óþarfi fyrir
vinnuna.
Vinnan snýst sem sagt um að lesa, greina og færa inn á tölvutækt
form gögn um forna texta. Mér til lífsviðurværis hef ég því
lesið óguðlegt magn af
Rannsóknum Heródótosar, hins
svokallaða fyrsta sagnfræðings, einhvern Sesar, nokkra
biblíukafla og nú upp á síðkastið fremur sjaldlesinn texta -
Króníku
eftir býzanska embættismanninn Georgios Sfrantzes.
Ástæðan fyrir að sá texti var valinn fyrir gagnagrunninn er
merkilegt tungutak hans. Flestir sagnfræðingar Býzanstímans (þ.e.
á tímum Austur-rómverska keisaraveldisins) skrifuðu úrelta bókmenntatungu
sem var eftirherma af málfari forn-grísku sagnfræðinganna frá
því á 5. öld f. Kr. (eins og ég hef skrifað um
hér). Sfrantzes skrifar hins vegar frjálsari texta sem líkist að ýmsu leiti
nútímagrísku, þótt hann noti líka (oftast
„ranglega
“)
fornar málfræðikonstrúksjónir. Niðurstaðan er merkileg
innsýn inn í lifandi mál þessa tíma, sem annars er
illaðgengilegt.
En umfjöllunarefni textans er sömuleiðis merkilegt. Sfrantzes
segir frá ævi sinni við býzönsku hirðina og þjónustu sína
við keisaraætt Paleológanna (
Palaiologoi). Hann sinnti þegar
mest lét embætti Fyrsta umsjónarmanns hins keisaralega fataskáps
(
Protovestiarites). Þetta embætti snerist ekki um það að
klæða keisarann í kirtilinn sinn á morgnana heldur um fjármál
keisarahallarinnar og um að vera keisaranum innan handar, hvað þá
helst í samskiptum hans við erlenda bandamenn sína og við
foringja Ottómanaveldisins sem stöðugt ógnuðu því sem eftir
var af Býzans.
 |
Umsátrið um Konstantínópel. Þessar gömlu myndir eru alltaf svo skemmtilega lítið dramatískar! |